Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Getur kínín haft áhrif á sinadrátt, fótaóeirð, hjartsláttaóreglu og sem meðhöndlun malaríusníkla? Hvernig verkar kínín alkalóíðinn í líkamanum og á malaríusníkilinn?
Kínín er plöntubasi (alkalóíð) sem er að finna í berki kínatrésins, Cinchona. Nafnið hefur ekkert með landið Kína að gera en þetta tré og önnur skyld vaxa í Suður-Ameríku. Notkun við malaríu er þekkt í margar aldir en evrópskir læknar fóru að nota lyfið snemma á 19. öld. Fram yfir miðja 20. öld var kínín mikilvægt lyf við meðferð á malaríu en jafnframt var farið að nota lyfið við ýmsum öðrum sjúkdómum eins og sinadrætti (vöðvakrampa í fótleggjum að næturlagi), sjúkdómum með óeðlilegri vöðvaspennu, fótaóeirð, rauðum úlfum, liðagigt, hjartsláttartruflunum og fleiru. Lyfið kínidín er náskylt kíníni og hefur lengi verið notað við vissum hjartsláttartruflunum.
Evrópskir læknar fóru að nota kínin sem lyf snemma á 19. öld.
Eina viðurkennda notkun kíníns nú til dags er við malaríu og þá einungis þegar nýrri lyf verka ekki nógu vel. Þetta er vegna þess að kínín getur haft mjög hættulegar aukaverkanir[1] en malaría er lífshættulegur sjúkdómur ef ekkert er að gert. Við malaríu er áhættan sem fylgir notkun lyfsins minni en áhættan af að nota ekki lyfið. Þrátt fyrir þetta er kínín mest notað við sinadrætti. Sinadráttur að næturlagi getur verið mjög erfiður, einkum hjá gömlu fólki, og getur skert lífsgæði verulega. Það sem talið er verka einna best er kínín og þess vegna freistandi að nota það. Verkun kíníns á sinadrátt er þó engan veginn vel staðfest og skortur er á vönduðum rannsóknum. Þessi notkun hefur farið minnkandi; um síðustu aldamót fengu um 1800 sjúklingar kíníni ávísað árlega á Íslandi en árið 2019 var þessi fjöldi kominn niður í 850. Kínín er venjulega gefið í töfluformi en er líka að finna í beiskum drykkjum eins og tónik. Það sem gefur þessum drykkjum beiska bragðið er kínín.
Upp úr 1990 var orðið ljóst hve alvarlegar aukaverkanir kíníns geta verið og lyfjastofnanir vestan hafs og austan mæltu gegn notkun kíníns við sinadrætti. Slík tilmæli eru þó ekki bindandi. Alvarlegustu aukaverkanir kíníns eru truflanir á starfsemi nýrna, hjarta, blóðflagna, rauðra blóðkorna og heila. Bráð nýrnabilun og hjartsláttartruflanir geta verið lífshættulegar og nýrnabilunin getur verið varanleg. Þessar aukaverkanir og ýmsar fleiri geta komið fljótlega eftir að teknar eru inn kíníntöflur eða drukkinn tónik. Kíníntafla inniheldur venjulega 100 eða 250 mg af kíníni en tónik inniheldur oftast um 80 mg í lítra. Kínínmagnið í tónik er því umtalsvert.
Tónik er kolsýrður gosdrykkur sem inniheldur oftast um 80 mg af uppleystu kíníní í hverjum lítra.
Ekki er þekkt nema í grófum dráttum hvernig kínín verkar. Kínín kemur ekki í veg fyrir malaríusmit en hindrar fjölgun sýklanna (frumdýr) í líkamanum. Kínín hefur áhrif á hrifspennur sem koma af stað samdráttum í beinagrindarvöðvum og hjarta og talið er að verkanir lyfsins á sinadrátt og hjartsláttartruflanir byggist á því. Kínín hefur sennilega ekki áhrif á fótaóeirð.
Af ýmsum ástæðum er það mjög oft svo að gömul lyf, eins og kínín, eru mun verr rannsökuð en nýrri lyf.
Tilvísun:
^ Þorvarður R. Hálfdanarson, Ásbjörn Sigfússon, Vilhelmína Haraldsdóttir, Sigurður B. Þorsteinsson og Runólfur Pálsson. (2002). Alvarlegar aukaverkanir kíníns: Sjö sjúkratilfelli. Læknablaðið, 88(10): 717-22.
Magnús Jóhannsson. „Getur kínín haft áhrif á á sinadrátt, fótaóeirð, hjartsláttaróreglu og malaríu?“ Vísindavefurinn, 23. október 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78113.
Magnús Jóhannsson. (2020, 23. október). Getur kínín haft áhrif á á sinadrátt, fótaóeirð, hjartsláttaróreglu og malaríu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78113
Magnús Jóhannsson. „Getur kínín haft áhrif á á sinadrátt, fótaóeirð, hjartsláttaróreglu og malaríu?“ Vísindavefurinn. 23. okt. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78113>.