Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eirðarleysi í fótleggjum (e. Restless legs syndrome) hefur stundum verið kallað „algengasti sjúkdómur sem þú hefur aldrei heyrt talað um" og er þeirri ábendingu beint bæði til almennings og lækna. Þessum sjúkdómi var líklega fyrst lýst árið 1685 en honum voru gerð rækileg skil 1945 og þá fékk hann það nafn sem mest hefur verið notað síðan - restless legs.
Eirðarleysi í fótleggjum getur hrjáð fólk á öllum aldri, það er þó sjaldgæft meðal barna en verður algengara eftir því sem fólk eldist. Sjúkdómurinn er yfirleitt langvarandi. Yngra fólk fær oft hvíldir inni á milli, nokkrar vikur, mánuði eða jafnvel nokkur ár, en svo koma einkennin yfirleitt aftur. Þegar fólk eldist fækkar þessum hvíldum hjá flestum og þær styttast. Talið er að 2-5% fólks fái sjúkdóminn og hrjáir hann jafnt konur sem karla.
Í sumum tilfellum á sjúkdómurinn sér skýringar. Hann getur til dæmis verið fylgifiskur járnskortsblóðleysis (lagast með járngjöf), tengst skorti á B12-vítamíni eða fólínsýru (lagast við gjöf þessara vítamína), meðgöngu (lagast eftir fæðingu), sykursýki og nýrnabilun. Einnig getur eirðarleysi í fótleggjum fylgt drykkjusýki, Parkinsons-sjúkdómi og jafnvel fleiri sjúkdómum í miðtaugakerfi.
Í sumum tilfellum getur sjúkdómurinn komið til vegna skorts á B-12 vítamíni. Hægt er þá að laga hann með inntöku þessara vítamína. Algengast er þó að engin skýring á sjúkdómnum finnist.
Algengast er þó að ekki finnist skýring á sjúkdómnum og það form hans er talið arfgengt. Í þeim tilfellum er nánast ekkert vitað um orsakir sjúkdómsins og deila menn til dæmis um hvort upptök hans sé að finna í miðtaugakerfinu eða utan þess og þá sennilega í úttaugakerfinu.
Algengt er að þeir sem þjást af eirðarleysi í fótleggjum finni fyrir óþægindum 5-30 mínútum eftir að þeir leggjast út af, setjast inn í bíl, kvikmyndahús eða fyrir framan sjónvarpið. Óþægindin ná venjulega frá ökklum upp á mið læri en þau geta náð niður fyrir ökkla og stöku sinnum eru þau einnig í handleggjum.
Einkennunum er lýst sem verkjum, óróa, eirðarleysi, pirringi eða óstöðvandi þörf fyrir að hreyfa fætur og fótleggi. Ein lýsing var þannig að sjúklinginn langaði mest til að berja fætur sína með hamri og honum fannst hann vera að ganga af vitinu. Öðrum fannst eins og fótleggir sínir væru fullir af iðandi ormum. Sumir ganga um gólf heilu og hálfu næturnar eins og dýr í búri. Sumum tekst að sofna eftir nokkra stund en aðrir vaka, jafnvel fram undir morgun. Af þessum lýsingum má sjá hve erfitt og alvarlegt ástand margra þessara sjúklinga er.
Fyrir utan þau fáu tilvik þar sem tekst að finna læknanlega orsök eirðarleysisins er því miður ekki hægt að bjóða upp á neina örugga lækningu. Vitað er að það er mjög einstaklingsbundið hvað kann að hjálpa hverjum og einum og þess vegna verður fólk að prófa sig áfram. Sumir sjúklingar fá bót af því að taka lyfið levódópa (notað við Parkinsons-sjúkdómi) eða kódein (verkjalyf). Árangurinn er þó ekki sérlega góður og þessi lyf geta haft slæmar aukaverkanir. Nokkur önnur lyf hafa verið reynd án teljandi árangurs.
Víða á netinu má finna upplýsingar um eirðarleysi í fótleggjum, til dæmis í greininni Fótaóeirð eftir Albert Pál Sigurðasson á vefsetrinu Doktor.is og á eftirfarandi heimasíðum:
Magnús Jóhannsson. „Hvað er eirðarleysi í fótleggjum og hvað er til ráða við því?“ Vísindavefurinn, 11. ágúst 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3647.
Magnús Jóhannsson. (2003, 11. ágúst). Hvað er eirðarleysi í fótleggjum og hvað er til ráða við því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3647
Magnús Jóhannsson. „Hvað er eirðarleysi í fótleggjum og hvað er til ráða við því?“ Vísindavefurinn. 11. ágú. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3647>.