Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir fundu upp lýðræðið og af hverju?

Geir Þ. Þórarinsson

1944
Eins og fram kemur í svari sama höfundar við spurningunni Hvað fundu Forngrikkir upp? er lýðræðið meðal uppfinninga Forngrikkja. Aþena varð einmitt heimsins fyrsta lýðræðisríki árið 508 f.Kr. og síðan fylgdu önnur forngrísk borgríki í kjölfarið. Forngrískt lýðræði var frábrugðið nútímalýðræði á ýmsan hátt. Í Aþenu gátu einungis frjálsir karlar tekið þátt í stjórnmálum. Þar með voru konur, börn, þrælar og aðfluttir útilokaðir. Í Aþenu var einnig blanda af beinu lýðræði þar sem borgararnir taka ákvarðanir beint og milliliðalaust og fulltrúalýðræði þar sem kjörnir fulltrúar fara með völdin. En auk þess voru líka fulltrúar lýðsins kjörnir með hlutkesti þar sem þeir voru dregnir úr hópi viljugra og skiptust síðan á að fara með völdin. Þessu er nánar lýst í svari sama höfundar um kosningakerfi Forngrikkja. Svona kerfi þekkist líklega hvergi í dag.

En það er ekki aðeins formleg umgjörð aþenska lýðræðisins sem er ólík nútímalýðræði. Hugmyndir fornmanna um eðli og inntak lýðræðisins eru líka talsvert öðruvísi en hugmyndir nútímamanna. Aristóteles segir til dæmis (Stjórnspeki III.8, 1279b34 o.áfr.) að það sem greini að lýðræði og fámennisstjórn (óligarkíu) sé umfram allt auður og fátækt. Lýðræði er nefnilega stjórn hinna fátæku, hvort sem þeir eru meirihlutinn eða minnihlutinn. Aristóteles myndi þess vegna ekki kannast við að flest lýðræðisríki nútímans væru eiginleg lýðræðisríki í hans skilning, bæði af því að þar eru völdin oftast í höndum ríkra en ekki fátækra og þar að auki er oftast um fulltrúalýðræði að ræða án beinnar aðkomu fjöldans í ákvarðanatöku.

Lýðræði er uppfinning Forngrikkja. Aþena varð heimsins fyrsta lýðræðisríki árið 508 f.Kr.

Aþenska lýðræðið á sér ákveðna sögu og aðdraganda sem ef til vill hefst á umbótum Sólons en hann jók talsvert möguleika almennings á þátttöku í stjórnmálum. Síðan má rekja tilurð lýðræðisins í gegnum umbætur Kleisþenesar og Efíaltesar. Þarna á milli er að vísu tími Peisistratosar og sona hans en Peisistratos ríkti sem harðstjóri í Aþenu frá 545 f.Kr. til 528 f.Kr. og synir hans til 510 f.Kr. Eftir að annar af sonum Peisistratosar, Hipparkos að nafni, hafði verið drepinn árið 514 f.Kr. og hinn, sem hét Hippías, hrökklaðist frá völdum árið 510 f.Kr. dustaði umbótamaðurinn Kleisþenes rykið af hugmyndum Sólons. Hann gerði ýmsar breytingar og skóp árið 507 f.Kr. það kerfi sem við þekkjum úr heimildum frá klassískum tíma á fimmtu og fjórðu öld f.Kr. Fyrir vikið hefur hann verið nefndur faðir aþenska lýðræðisins. En hvers vegna gat lýðræðið orðið til þegar hér er komið sögu?

Áður en Peisistratos og synir hans komust til valda höfðu aðalsættir í Aþenu haft töglin og hagldirnar í stjórn borgríkisins. Sólon hafði ekki breytt því þótt hann hefði með ýmsu móti komið til móts við fátækari borgara og auðveldað aðgengi þeirra að stjórn ríkisins. Þegar Peisistratos og synir hans komust til valda ríktu þeir sem harðstjórar og þar með voru völdin tekin af aðlinum. Þegar Hippías, sonur Peisistratosar, hrökklaðist frá völdum árið 510 f.Kr. hafði aðallinn ekki haft nein völd í rúmlega þrjá áratugi og jafnvel í hálfa öld. Fyrst um sinn reyndu ýmsir aðalsmenn að ná völdum en þegar Ísagóras virtist hafa betur en Kleisþenes gerðist Kleisþenes maður fólksins og boðaði breytingar sem færðu almenningi meiri völd en hann hafði nokkurn tímann áður haft. Eftir þrjá til fimm áratugi af harðstjórn og um leið valdaleysi aðalsins voru íbúar Aþenu móttækilegir fyrir nýjum hugmyndum enda ekkert augljóst að taka skyldi upp þráðinn þar sem frá var horfið hálfri öld áður.

Uppruni nútímafulltrúalýðræðis á sér síðan allt aðra sögu sem líklega er rétt að hefja á 16. og 17. öld í Englandi og má rekja í gegnum sjálfstæðisbyltingu Bandaríkjanna og frönsku byltinguna á síðari hluta 18. aldar en á sér þó líka forsögu sem nær aftur til miðalda. Sú saga verður ekki rakin nánar hér.

Mynd:

Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Hvað eru lýðveldi og lýðræði, hvenær urðu þau til og hver fann þau upp?

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

11.6.2019

Spyrjandi

Hannes Geir, Valgarð, Eydís Lilja Einarsdóttir, Aldís Sigurjónsdóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hverjir fundu upp lýðræðið og af hverju?“ Vísindavefurinn, 11. júní 2019, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77520.

Geir Þ. Þórarinsson. (2019, 11. júní). Hverjir fundu upp lýðræðið og af hverju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77520

Geir Þ. Þórarinsson. „Hverjir fundu upp lýðræðið og af hverju?“ Vísindavefurinn. 11. jún. 2019. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77520>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir fundu upp lýðræðið og af hverju?
Eins og fram kemur í svari sama höfundar við spurningunni Hvað fundu Forngrikkir upp? er lýðræðið meðal uppfinninga Forngrikkja. Aþena varð einmitt heimsins fyrsta lýðræðisríki árið 508 f.Kr. og síðan fylgdu önnur forngrísk borgríki í kjölfarið. Forngrískt lýðræði var frábrugðið nútímalýðræði á ýmsan hátt. Í Aþenu gátu einungis frjálsir karlar tekið þátt í stjórnmálum. Þar með voru konur, börn, þrælar og aðfluttir útilokaðir. Í Aþenu var einnig blanda af beinu lýðræði þar sem borgararnir taka ákvarðanir beint og milliliðalaust og fulltrúalýðræði þar sem kjörnir fulltrúar fara með völdin. En auk þess voru líka fulltrúar lýðsins kjörnir með hlutkesti þar sem þeir voru dregnir úr hópi viljugra og skiptust síðan á að fara með völdin. Þessu er nánar lýst í svari sama höfundar um kosningakerfi Forngrikkja. Svona kerfi þekkist líklega hvergi í dag.

En það er ekki aðeins formleg umgjörð aþenska lýðræðisins sem er ólík nútímalýðræði. Hugmyndir fornmanna um eðli og inntak lýðræðisins eru líka talsvert öðruvísi en hugmyndir nútímamanna. Aristóteles segir til dæmis (Stjórnspeki III.8, 1279b34 o.áfr.) að það sem greini að lýðræði og fámennisstjórn (óligarkíu) sé umfram allt auður og fátækt. Lýðræði er nefnilega stjórn hinna fátæku, hvort sem þeir eru meirihlutinn eða minnihlutinn. Aristóteles myndi þess vegna ekki kannast við að flest lýðræðisríki nútímans væru eiginleg lýðræðisríki í hans skilning, bæði af því að þar eru völdin oftast í höndum ríkra en ekki fátækra og þar að auki er oftast um fulltrúalýðræði að ræða án beinnar aðkomu fjöldans í ákvarðanatöku.

Lýðræði er uppfinning Forngrikkja. Aþena varð heimsins fyrsta lýðræðisríki árið 508 f.Kr.

Aþenska lýðræðið á sér ákveðna sögu og aðdraganda sem ef til vill hefst á umbótum Sólons en hann jók talsvert möguleika almennings á þátttöku í stjórnmálum. Síðan má rekja tilurð lýðræðisins í gegnum umbætur Kleisþenesar og Efíaltesar. Þarna á milli er að vísu tími Peisistratosar og sona hans en Peisistratos ríkti sem harðstjóri í Aþenu frá 545 f.Kr. til 528 f.Kr. og synir hans til 510 f.Kr. Eftir að annar af sonum Peisistratosar, Hipparkos að nafni, hafði verið drepinn árið 514 f.Kr. og hinn, sem hét Hippías, hrökklaðist frá völdum árið 510 f.Kr. dustaði umbótamaðurinn Kleisþenes rykið af hugmyndum Sólons. Hann gerði ýmsar breytingar og skóp árið 507 f.Kr. það kerfi sem við þekkjum úr heimildum frá klassískum tíma á fimmtu og fjórðu öld f.Kr. Fyrir vikið hefur hann verið nefndur faðir aþenska lýðræðisins. En hvers vegna gat lýðræðið orðið til þegar hér er komið sögu?

Áður en Peisistratos og synir hans komust til valda höfðu aðalsættir í Aþenu haft töglin og hagldirnar í stjórn borgríkisins. Sólon hafði ekki breytt því þótt hann hefði með ýmsu móti komið til móts við fátækari borgara og auðveldað aðgengi þeirra að stjórn ríkisins. Þegar Peisistratos og synir hans komust til valda ríktu þeir sem harðstjórar og þar með voru völdin tekin af aðlinum. Þegar Hippías, sonur Peisistratosar, hrökklaðist frá völdum árið 510 f.Kr. hafði aðallinn ekki haft nein völd í rúmlega þrjá áratugi og jafnvel í hálfa öld. Fyrst um sinn reyndu ýmsir aðalsmenn að ná völdum en þegar Ísagóras virtist hafa betur en Kleisþenes gerðist Kleisþenes maður fólksins og boðaði breytingar sem færðu almenningi meiri völd en hann hafði nokkurn tímann áður haft. Eftir þrjá til fimm áratugi af harðstjórn og um leið valdaleysi aðalsins voru íbúar Aþenu móttækilegir fyrir nýjum hugmyndum enda ekkert augljóst að taka skyldi upp þráðinn þar sem frá var horfið hálfri öld áður.

Uppruni nútímafulltrúalýðræðis á sér síðan allt aðra sögu sem líklega er rétt að hefja á 16. og 17. öld í Englandi og má rekja í gegnum sjálfstæðisbyltingu Bandaríkjanna og frönsku byltinguna á síðari hluta 18. aldar en á sér þó líka forsögu sem nær aftur til miðalda. Sú saga verður ekki rakin nánar hér.

Mynd:

Spurningin hljóðaði upphaflega svona:

Hvað eru lýðveldi og lýðræði, hvenær urðu þau til og hver fann þau upp?

...