Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna þróaðist lýðræði í Aþenu til forna?

Geir Þ. Þórarinsson

Erfitt er að gefa ákveðið svar við þessari spurningu og raunar eru fræðimenn ekki allir á eitt sáttir um nákvæmlega hvenær aþenska lýðræðið varð til, hvað þá hvers vegna. Ef til vill er rétt að byrja þá sögu á Sóloni sem kom á ýmsum breytingum á stjórnkerfi og samfélagi Aþeninga snemma á 6. öld f.Kr. Það er ómögulegt að segja hver þróunin hefði verið í Aþenu án umbóta Sólons og þær voru sennilega – eftir á að hyggja – nauðsynleg forsenda þeirrar lýðræðisþróunar sem síðar varð. Af þessum sökum telja sumir að þarna sé að finna uppruna aþenska lýðræðisins (sem þó var ekki nefnt svo á hans tíma) og þannig litu líka sumir fornmenn á. En líklega er þó réttara að rekja eiginlegt upphaf aþenska lýðræðisins til stjórnkerfisbreytinga Kleisþenesar árið 507 f.Kr. Það kerfi sem þá varð til hélt áfram að breytast næstu öldina og þróast í átt til aukins lýðræðis, þar sem áhrif almennings í ákvörðunum ríkisins jukust á kostnað eins konar aðals, sem áður hafði meiri völd. Um þetta má lesa aðeins nánar í svari sama höfundar um kosningakerfi Forngrikkja.

Hvers vegna átti þessi þróun sér stað? Það væri villandi að leggja of mikla áherslu á þátt þeirra manna sem hafa verið nefndir eða að eigna þessar breytingar forngrískri nýjungagirni. Grikkjum var raunar ekkert endilega vel við nýjungar í stjórnmálum og þær breytingar sem raunverulega fólu í sér miklar nýjungar voru jafnvel málaðar sem einhvers konar afturhvarf til eldri gilda, líkt og í millitíðinni hefði eitthvað skolast til. Umbætur Sólons voru í raun einhvers konar málamiðlun sem miðaði að því að draga úr spennu í samfélaginu. Aþena var orðin púðurtunna og ekki langt frá því að springa vegna misskiptingar auðs og áhrifa og óánægju fátækra með sín kjör. Meðal breytinga sem Sólon stóð fyrir var afnám skuldaánauðar og greiðari leið almennings í embætti borgarinnar. Ástæðan var því ekki skyndileg hugljómun Sólons heldur þrýstingur frá almenningi um kjarabót.

Málverk frá 1846 eftir Leo von Klenze af Akrópólis.

Breytingum Kleisþenesar hefur svo verið lýst sem viðbragði við gerjun í aþensku samfélagi á 6. öld f.Kr.,[1] í kjölfarið annars vegar á þeim breytingum sem Sólon kom á og hins vegar á stjórn harðstjórans Peisistratosar, sem ríkti í Aþenu í millitíðinni. Þótt Peisistratos hafi verið harðstjóri (tyrannos) frá um 560 f.Kr. ríkti hann ekki beint með harðri hendi. Synir hans, Hippías og Hipparkos, sem héldu völdum eftir að Peisistratos féll frá árið 527 f.Kr., voru aftur á móti ekki ýkja vel liðnir. Hipparkos var ráðinn af dögum árið 514 f.Kr. og Hippías hrökklaðist frá völdum fjórum árum síðar. Í kjölfarið komst á skammlíf fámennisstjórn. En harðstjórnin hafði einmitt tekið völdin af almenningi og sett alla borgara í sömu stöðu.[2] Umbætur Kleisþenesar miðuðu einmitt að því að tryggja einhvers konar jafnræði (isonomia) hjá almenningi sem nú hafði aftur áhrif í eigin málum og var farinn að hugsa öðruvísi en hann hafði gert. Þannig má lýsa stjórnkerfisbreytingum Kleisþenesar sem viðbragði við bæði umbótum Sólons og harðstjórn Peisistratosar og kannski ekki síður fámennisstjórninni, sem reyndi að ná og halda völdum í kjölfarið. Hún var á skjön við tíðarandann sem þróast hafði.

Eftir breytingar Kleisþenesar varð ekki aftur snúið í bráð, lýðræðið hélt áfram að þróast og áhrif almennings jukust aðeins þar til það beið skipbrot seint á 5. öld: Árið 411 f.Kr. var gert valdarán sem entist stutt og þegar Pelópsskagastríðinu lauk árið 404 f.Kr. var lýðræðið svo afnumið aftur og komið á leppstjórn sem var hliðholl Spörtu. Ári síðar höfðu Aþeningar undir forystu Þrasýbúlosar þó hrist af sér fámennisstjórnina og komu aftur á lýðræði. Það hélst þar til Aþeningar voru sigraðir af her Filipposar II Makedóníukonungs í orrustunni við Kæróneiu árið 338 f.Kr. en þá mátti aþenska lýðræðið muna sinn fífil fegurri. Það náði sér ekki aftur á strik eftir það og var endanlega afnumið árið 322 f.Kr.

Mynd:

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá Josiah Ober, „"I Besieged that Man": Democracy’s Revolutionary Start“ í Kurt A. Raaflaub, Josiah Ober og Robert W. Wallace, Origins of Democracy in Ancient Greece (University of California Press, 2007): 83-104.
  2. ^ Sarah B. Pomeroy, Stanley M. Burstein, Walter Donlan og Jennifer Tolbert Roberts, A Brief History of Ancient Greece: Politics, Society and Culture, 2. útg. (Oxford University Press, 2009): 132.

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

10.4.2014

Spyrjandi

Arna, f. 1996

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna þróaðist lýðræði í Aþenu til forna?“ Vísindavefurinn, 10. apríl 2014, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65866.

Geir Þ. Þórarinsson. (2014, 10. apríl). Hvers vegna þróaðist lýðræði í Aþenu til forna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65866

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna þróaðist lýðræði í Aþenu til forna?“ Vísindavefurinn. 10. apr. 2014. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65866>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna þróaðist lýðræði í Aþenu til forna?
Erfitt er að gefa ákveðið svar við þessari spurningu og raunar eru fræðimenn ekki allir á eitt sáttir um nákvæmlega hvenær aþenska lýðræðið varð til, hvað þá hvers vegna. Ef til vill er rétt að byrja þá sögu á Sóloni sem kom á ýmsum breytingum á stjórnkerfi og samfélagi Aþeninga snemma á 6. öld f.Kr. Það er ómögulegt að segja hver þróunin hefði verið í Aþenu án umbóta Sólons og þær voru sennilega – eftir á að hyggja – nauðsynleg forsenda þeirrar lýðræðisþróunar sem síðar varð. Af þessum sökum telja sumir að þarna sé að finna uppruna aþenska lýðræðisins (sem þó var ekki nefnt svo á hans tíma) og þannig litu líka sumir fornmenn á. En líklega er þó réttara að rekja eiginlegt upphaf aþenska lýðræðisins til stjórnkerfisbreytinga Kleisþenesar árið 507 f.Kr. Það kerfi sem þá varð til hélt áfram að breytast næstu öldina og þróast í átt til aukins lýðræðis, þar sem áhrif almennings í ákvörðunum ríkisins jukust á kostnað eins konar aðals, sem áður hafði meiri völd. Um þetta má lesa aðeins nánar í svari sama höfundar um kosningakerfi Forngrikkja.

Hvers vegna átti þessi þróun sér stað? Það væri villandi að leggja of mikla áherslu á þátt þeirra manna sem hafa verið nefndir eða að eigna þessar breytingar forngrískri nýjungagirni. Grikkjum var raunar ekkert endilega vel við nýjungar í stjórnmálum og þær breytingar sem raunverulega fólu í sér miklar nýjungar voru jafnvel málaðar sem einhvers konar afturhvarf til eldri gilda, líkt og í millitíðinni hefði eitthvað skolast til. Umbætur Sólons voru í raun einhvers konar málamiðlun sem miðaði að því að draga úr spennu í samfélaginu. Aþena var orðin púðurtunna og ekki langt frá því að springa vegna misskiptingar auðs og áhrifa og óánægju fátækra með sín kjör. Meðal breytinga sem Sólon stóð fyrir var afnám skuldaánauðar og greiðari leið almennings í embætti borgarinnar. Ástæðan var því ekki skyndileg hugljómun Sólons heldur þrýstingur frá almenningi um kjarabót.

Málverk frá 1846 eftir Leo von Klenze af Akrópólis.

Breytingum Kleisþenesar hefur svo verið lýst sem viðbragði við gerjun í aþensku samfélagi á 6. öld f.Kr.,[1] í kjölfarið annars vegar á þeim breytingum sem Sólon kom á og hins vegar á stjórn harðstjórans Peisistratosar, sem ríkti í Aþenu í millitíðinni. Þótt Peisistratos hafi verið harðstjóri (tyrannos) frá um 560 f.Kr. ríkti hann ekki beint með harðri hendi. Synir hans, Hippías og Hipparkos, sem héldu völdum eftir að Peisistratos féll frá árið 527 f.Kr., voru aftur á móti ekki ýkja vel liðnir. Hipparkos var ráðinn af dögum árið 514 f.Kr. og Hippías hrökklaðist frá völdum fjórum árum síðar. Í kjölfarið komst á skammlíf fámennisstjórn. En harðstjórnin hafði einmitt tekið völdin af almenningi og sett alla borgara í sömu stöðu.[2] Umbætur Kleisþenesar miðuðu einmitt að því að tryggja einhvers konar jafnræði (isonomia) hjá almenningi sem nú hafði aftur áhrif í eigin málum og var farinn að hugsa öðruvísi en hann hafði gert. Þannig má lýsa stjórnkerfisbreytingum Kleisþenesar sem viðbragði við bæði umbótum Sólons og harðstjórn Peisistratosar og kannski ekki síður fámennisstjórninni, sem reyndi að ná og halda völdum í kjölfarið. Hún var á skjön við tíðarandann sem þróast hafði.

Eftir breytingar Kleisþenesar varð ekki aftur snúið í bráð, lýðræðið hélt áfram að þróast og áhrif almennings jukust aðeins þar til það beið skipbrot seint á 5. öld: Árið 411 f.Kr. var gert valdarán sem entist stutt og þegar Pelópsskagastríðinu lauk árið 404 f.Kr. var lýðræðið svo afnumið aftur og komið á leppstjórn sem var hliðholl Spörtu. Ári síðar höfðu Aþeningar undir forystu Þrasýbúlosar þó hrist af sér fámennisstjórnina og komu aftur á lýðræði. Það hélst þar til Aþeningar voru sigraðir af her Filipposar II Makedóníukonungs í orrustunni við Kæróneiu árið 338 f.Kr. en þá mátti aþenska lýðræðið muna sinn fífil fegurri. Það náði sér ekki aftur á strik eftir það og var endanlega afnumið árið 322 f.Kr.

Mynd:

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá Josiah Ober, „"I Besieged that Man": Democracy’s Revolutionary Start“ í Kurt A. Raaflaub, Josiah Ober og Robert W. Wallace, Origins of Democracy in Ancient Greece (University of California Press, 2007): 83-104.
  2. ^ Sarah B. Pomeroy, Stanley M. Burstein, Walter Donlan og Jennifer Tolbert Roberts, A Brief History of Ancient Greece: Politics, Society and Culture, 2. útg. (Oxford University Press, 2009): 132.

...