Hver voru kvenréttindin árið 1944? Breyttust þau eitthvað við stofnun lýðveldis á Íslandi?Réttindi kvenna breyttust ekki við stofnun lýðveldis á Íslandi 1944. Kosningaréttur og kjörgengi til Alþingis fékkst árið 1915, takmarkaður við konur 40 ára og eldri en að fullu til jafns á við karlmenn árið 1920. Frá 1911 höfðu konur sama rétt og karlar til menntunar, embætta og námsstyrkja. Þessi grundvallarréttindi voru því til staðar árið 1944. Aftur á móti er ljóst að aðdragandi og stofnun lýðveldis varð konum hvatning til þess að kalla eftir því að þeim væri tryggt raunverulegt jafnrétti á við karla því enn voru ýmis lagaleg réttindi kvenna fyrir borð borin, svo ekki sé talað um viðhorf til stöðu og hlutverks kvenna. Ríkjandi viðhorf í samfélaginu gerðu ráð fyrir að konur helguðu sig móður- og húsmóðurhlutverkinu og hafa árin á milli stríða verið kennd við svokallaða „húsmæðrahugmyndafræði“.[1] Afar hægt gekk fyrir konur að komast að við háborð stjórnmálanna eða í störf sem karlar höfðu einir haft aðgang að. Á Alþingi sat engin kona lýðveldisárið 1944, þar sátu eintómir karlar 1938–1946. Ekki var hlaupið að því fyrir konur að komast í örugg sæti á framboðslistum stjórnmálaflokkanna. Kosningakerfið var óhagstætt konum og karlar fastir fyrir í sínu fleti. Aðeins tvær konur höfðu verið kjörnar á þing frá því þær gengu fyrst að kjörborðinu árið 1916. Ingibjörg H. Bjarnason af sérstökum kvennalista við landskjörskosningar árið 1922 og Guðrún Lárusdóttir, einnig í landskjöri árið 1930, en fyrir Sjálfstæðisflokk. Staðan virðist ekki hafa valdið körlum sérstökum áhyggjum en konur höfðu fengið nóg þegar kom fram um 1940 og spurðu í vaxandi mæli hvers vegna þær réðu svo litlu í samfélaginu.[2] Seinni heimsstyrjöldin hófst haustið 1939 og innan við ári síðar hafði Ísland verið hernumið af Bretum. Það hafði í för með sér gríðarlegar breytingar á íslensku samfélagi, félagslegar, menningarlegar og efnahagslegar. Í þessu umróti var tekin sú ákvörðun að stofna lýðveldið Íslands. Konur, rétt eins og karlar, fögnuðu stofnun lýðveldis en minntu á að þá þyrftu konur líka að vera frjálsar. „Hver verður réttarstaða konunnar í íslenzka lýðveldinu?“, spurði Dýrleif Árnadóttir í sósíalíska kvennatímaritinu Melkorku í maí 1944 og fangar hugsun margra kvenna sem vildu eiga þess kost að sameina það að sinna heimili og börnum en vera um leið frjálsar og fullvalda konur sem hefðu einnig rödd og þýðingu utan heimilisins:
Við gerumst meira að segja svo djarfar að láta okkur dreyma um, að íslenzka lýðveldið muni ef til vill færa okkur fyrr, eða síðar fullt frelsi, fullt sjálfstæði, sömu laun fyrir sömu vinnu og þá aðhlynningu, sem þarf til þess að við getum notað krafta okkar sem frjálsir og óháðir samfélagsþegnar og í senn eiginkonur, húsmæður og mæður.[3]

Landsfundur kvenna heimsækir Bessastaði 1944. Hér má sjá í bland gamalreyndar kvenréttindakonur í peysufötum og upphlut og yngri konur í nútímalegri glæsikjólum, og kápum. Efst fyrir miðju er fáni Kvenréttindafélags Íslands. Myndin birtist í Melkorku í desember 1944.
Auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu fyrir kvennafundinn sem haldinn var í Iðnó 23. júní 1944. Þekkt nöfn úr kvennabaráttunni og verkalýðshreyfingunni eru meðal málshefjenda. Mikilsmetin fundarkona sagði eftir þennan fund að sér „fyndist fylling tímans vera komin fyrir kvenréttindin“, slík var bjartsýnin.

Í desemberhefti Melkorku árið 1944 skrifaði Rannveig Kristjánsdóttir um lýðveldið og landsfundinn og þar birtist þessi teikning af hnarreistri konu í íslenskum búningi, með blaktandi fána í hönd.
Þá ætti og að ræða hagsmunamál heimilanna meira en gert var á þessum fundi, því að þar verður alltaf merkilegasti starfsvettvangur kvenna. Mættu konur vel gæta þess, að þegar allt kemur til alls, er heimilið þýðingarmesta stofnun þjóðfélagsins, og þá stofnun eiga konur að láta sér annara um en nokkuð annað.[7]Miðað við umræður kvenréttindakvenna árið 1944 og næstu ár á eftir var það fjarri konum að snúa baki við heimilunum og raunar voru sumar ályktanir landsfundarins beinlínis til hagsbóta fyrir heimilin. Þær vildu hins vegar að konur og karlar nytu fullkomins jafnréttis og möguleika í samfélaginu. Þess vegna fannst konum eins Rannveigu Kristjánsdóttur, sem tilheyrði róttækari armi kvennahreyfingarinnar, að ályktanir landsfundarins hefðu verið „samboðnar íslenzkum konum í fyrstu viku hins íslenzka lýðveldis“.[8] Tilvísanir:
- ^ Um þetta hefur Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur hefur fjallað ítarlega í bók sinni Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900–1930. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004. Sjá einnig Sigríður Matthíasdóttir, „Menningardeilur og kvenleiki á árunum milli stríða“, í Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Ritstj. Anna Agnarsdóttir o.fl. Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 2001, bls. 446–455.
- ^ Sjá t.d. sérblað Kvennablaðsins, gefið út af Kvenréttindafélagið Íslands 19. júní 1939. Það er, líkt og önnur blöð og tímarit sem hér er vísað til, er aðgengilegt á timarit.is.
- ^ Melkorka 1:1 1944, bls. 25–26.
- ^ Erla Hulda Halldórsdóttir, „Þeir létu fjallkonuna hopa af hólmi“. Lýðveldishátíðin 1944 og veisluskrautið“, Hugrás. Vefrit Hugvísindasviðs 28. júní 2018: http://hugras.is/2018/06/letu-fjallkonuna-hopa-af-holmi-lydveldishatidin-1944-og-veisluskrautid/.
- ^ Þjóðviljinn 6. júlí 1944, bls. 3.
- ^ Nýtt kvennablað 5:4 1944, bls. 7-8; Nýtt kvennablað 5:5, bls. 5 og 12; Melkorka 2:1 1944, bls. 35-37, 58-59; Þjóðviljinn 28. júní 1944,bls. 3; Mjölnir 12. júlí 1944, bls. 2; Verkamaðurinn 8. júlí 1944, bls. 1 og 4; Morgunblaðið 29. júní 1944, bls. 12; Morgunblaðið 27. júní 1944, bls. 12; Alþýðublaðið 28. júní 1944, bls. 4; Laufey Valdimarsdóttir, „Kvenréttindafélag Íslands og Landsfundur íslenzkra kvenna 1944“, Kvenréttindafélag Íslands 40 ára. 1907-1947. Minningarrit. Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands, 1947, bls. 69-76; Sigríður Th. Erlendsdóttir. Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907–1992. Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands, 1993; Gunnar Helgi Kristinsson, Ágrip af þróun stjórnarskrárinnar. Unnið að beiðni nefndar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Desember 2005.
- ^ Tíminn 30. júní 1944, bls. 260.
- ^ Melkorka 1:2 1944, bls. 59.
- Melkorka, 1.12.1944 - Timarit.is. (Sótt 15.5.2019).
- Morgunblaðið, 22.6.1944 - Timarit.is. (Sótt 15.5.2019).
- Melkorka, 1.12.1944 - Timarit.is. (Sótt 15.5.2019).