Kona þessi var einkar vel gáfuð og í mörgu tilliti fágæt afbragskona, framkvæmdar- og starfssöm, veglynd og fús til hjálpar og velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra ... Hún var einhver hin framkvæmdasamasta og duglegasta kona sinnar tíðar og hafði gott hjarta.Á sama vef er eftirfarandi sagt um kosningaþátttöku hennar:
Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi 1862 og skv. nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Skv. reglugerðinni höfðu kosningarétt allir fullmyndugir menn („alle fuldmyndige Mænd“), sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borguðu a.m.k. 2 ríkisdali í bæjargjöld. Vilhelmína féll undir öll þessi ákvæði og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Aftur kaus hún svo til bæjarstjórnar 3. jan. 1866. Í danska textanum átti orðið „Mænd“ örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð „menn“ en ekki „karlar“ fékk Vilhelmína að kjósa.Hinar konurnar tvær sem vitað er um að kusu áður en lög um kosningarétt kvenna til sveitarstjórnar tóku gildi voru vestur í Önundarfirði. Þarna var um að ræða tvær ekkjur, Steinunni Jónsdóttur (1820-1878) á Hesti og Ingibjörgu Pálsdóttur (1829-?) á Kirkjubóli í Bjarnardal sem greiddu atkvæði þegar var kosið í hreppsnefnd Mosvallahrepps 10. ágúst 1874, en kosningarétt í hreppnum hafði „hver búandi maður“. Fyrst íslenskra kvenna til að nýta kosningarétt sinn til sveitarstjórna eftir að lögin 1882 tóku gildi var Andrea Friðrika Guðmundsdóttir (1845–1911), saumakona á Ísafirði. Hún mætti á kjörstað á Ísafirði 2. janúar 1884 og kaus í bæjarstjórnarkosningum. Fyrst reykvískra kvenna til þess að mæta á kjörstað og nýta rétt sinn var Kristín Bjarnadóttir (1812-1891) en hún tók þátt í bæjarstjórnarkosningum 3. janúar 1888. Þá voru átta konur á kjörskrá en hún sú eina sem nýtti atkvæðisrétt sinn. Heimildir og mynd:
- Konur og stjórnmál.
- 2005 Héraðsskjalasafnið á Akureyri.
- Ljósmyndasafnið Ísafirði | Ljósmynd mánaðarins.
- Guðjón Friðriksson, Konur á karlafundi. Öld liðin síðan fyrsta konan kaus í Reykjavík, Ný saga 2 (1988), bls. 54-59.
- Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. Kvennasögusafn Íslands, 1998, bls. 128.
- Teikning af Vilhelmínu Lever: 2005 Héraðsskjalasafnið á Akureyri. (Sótt 11. 6. 2015).
- Mynd af Andreu Guðmundsdóttur: Ljósmyndasafnið Ísafirði | Ljósmynd mánaðarins. (Sótt 11. 6. 2015).