Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er krabbamein í lungum meðhöndlað?

Tómas Guðbjartsson

Meðferð lungnakrabbameins ræðst aðallega af stærð og staðsetningu krabbameinsins og hvort meinið hefur dreift sér til eitla eða annarra líffæra (sjá svar við spurningunni Ef fólk greinist með krabbamein í lungum, hver eru stigin og hver er áætlaður líftími?). Einnig getur líkamlegt ásigkomulag sjúklings skipt máli, til dæmis hvort sjúklingurinn er talinn þola meðferð eins og skurðaðgerð. Tekið skal fram að hægt er að veita meðferð á öllum stigum sjúkdómsins og að árangur meðferðar er sífellt að verða betri.

StigMeðferð
ISkurðaðgerð eingöngu
Óskurðtækir: Geislameðferð
IISkurðaðgerð + lyfjameðferð eftir aðgerð
Óskurðtækir: Geislameðferð og eða lyfjameðferð
IIIALyfja- og geislameðferð samhliða,
auk skurðaðgerðar í völdum tilvikum
IIIBLyfjameðferð +/- geislameðferð samhliða
IVLyfjameðferð

Skurðaðgerð
Skurðaðgerð er helsta meðferðin til lækningar lungnakrabbameins. Hún á þó einungis við þegar meinið hefur ekki dreift sér til annarra líffæra, það er á stigum I og II og í völdum tilvikum á stigi III. Rúmur helmingur sjúklinga með lungnakrabbamein hefur ekki staðbundinn sjúkdóm við greiningu og fer því ekki í aðgerð. Hjá 20% sjúklinga til viðbótar kemur í ljós við frekari rannsóknir að af einhverjum orsökum er ekki hægt að komast fyrir krabbameinið með skurðaðgerð. Í heildina gengst því þriðji hver sjúklingur með lungnakrabbamein undir skurðaðgerð á lunga.

Hefðbundin skurðaðgerð við lungnakrabbameini er blaðnám (e. lobectomy) og er því beitt hjá 80% sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð. Lungnablaðið er þá fjarlægt í heild, ásamt eitlum í kring.

Til að komast að lunganu er hægt að gera brjóstholsskurð á milli tveggja rifja á miðjum brjóstkassa en í dag er blaðnám oft gert með brjóstholssjá (e. Video Assisted Thoracoscopic Surgery, VATS). Myndavél í sjánni er þá tengd við sjónvarpsskjá og aðgerðin gerð í gegnum 1-4 cm stór göt á brjóstholinu. Sjúklingar eru yfirleitt fljótari að jafna sig eftir slíkar aðgerðir en eftir aðgerð í gegnum brjóstholsskurð en stundum er tæknilega ekki hægt að framkvæma aðgerðina með þessari nýju tækni.

Helstu tegundir skurðaðgerða vegna lungnakrabbameins.

Fleygskurður (e. wedge resection) er minni aðgerð en blaðnám og á við í um það bil 10% tilfella. Þá er biti fjarlægður úr lunganu með heftibyssu. Aðgerðinni er aðallega beitt hjá sjúklingum sem ekki eru taldir þola blaðnám vegna skertrar lungnastarfsemi. Aðgerðin er oft gerð með brjóstholssjá (VATS) en stundum í gegnum brjóstholsskurð. Myndavél í sjánni er þá tengd við sjónvarpsskjá og aðgerðin gerð í gegnum 1-3 cm stór göt á brjóstholinu. Sjúklingar eru yfirleitt fljótari að jafna sig eftir slíkar aðgerðir, en þær eru aðallega gerðar við minni æxli utarlega í lunga.

Ef æxli er staðsett í miðju lungans eða teygir sig á milli lungnablaða getur þurft að gera lungnabrottnám (e. pulmectomy), það er fjarlægja allt lungað. Lungnabrottnám er umfangsmikil aðgerð og sjúklingar eru lengur að jafna sig eftir hana en eftir blaðnám eða fleygskurð.

Alvarlegir fylgikvillar eru sjaldséðir eftir skurðaðgerðir á lungum. Óregla á hjartslætti getur komið fyrir og sjúklingar geta fengið lungnabólgu. Sýkingar í skurðsár eru fremur sjaldséðar. Hins vegar er algengt að lungað leki lofti eftir aðgerð. Því þurfa sjúklingar oftast að hafa slöngu í brjóstholinu í nokkra daga eftir aðgerðina og er slangan oftast tengd við sog.

Krabbameinslyfjameðferð
Á síðastliðnum árum hafa orðið töluverðar framfarir í lyfjameðferð við lungnakrabbameini. Ný lyf hafa komið til sögunnar og notkun eldri lyfja hefur breyst. Krabbameinslyf eru ýmist gefin ein sér eða samhliða annarri meðferð, til dæmis eru þau stundum gefin með geislameðferð fyrir skurðaðgerð í læknandi skyni eða sem viðbótarmeðferð eftir skurðaðgerð. Oftast er krabbameinslyfjum þó beitt við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið (stig IV), það er þegar skurðaðgerð eða geislameðferð á ekki við.

Tilgangur krabbameinslyfjameðferðar hjá sjúklingum sem ekki eru með staðbundinn sjúkdóm er að hefta vöxt frumanna. Þannig er haldið aftur af einkennum sjúkdómsins og reynt að lengja líf sjúklingsins. Meðferðin er einstaklingsbundin og verður að taka tillit til fjölda þátta, svo sem almenns líkamlegs ástands, einkenna sjúklings og hvort starfsemi hjarta, lungna og nýrna er skert. Oft er beitt tveimur lyfjum samtímis og er þá annað lyfið úr flokki svokallaðra platinum-lyfja. Versni sjúkdómurinn síðar er hægt að grípa til annarra lyfja. Á síðustu árum hefur komið fram nýr flokkur lyfja sem oft eru kölluð líftæknilyf. Þau hafa sérhæfðari áhrif á krabbameinsfrumur en hefðbundin krabbameinslyf og trufla því síður aðrar frumur líkamans sem skipta sér hratt, eins og hárfrumur og frumur í beinmerg. Þau eru notuð við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið og geta í sumum tilvikum haldið aftur af þeim og lengt líf sjúklinga. Miklu fé er nú veitt til rannsókna á líftæknilyfjum og vonir standa til að þær rannsóknir leiði til frekari framfara í meðferð lungnakrabbameins.

Krabbameinslyfjameðferð.

Krabbameinslyfjameðferð geta fylgt aukaverkanir en almennt gildir að þau krabbameinslyf sem notuð eru í dag hafa minni aukaverkanir en eldri lyf. Dæmi um aukaverkanir eru ógleði, þreyta, slappleiki, hármissir og bæling á starfsemi beinmergs. Þá geta sum krabbameinslyf truflað nýrnastarfsemi og því er mikilvægt að fylgjast með vökvajafnvægi sjúklinga meðan á meðferð stendur. Sjaldgæfari aukaverkanir eru heyrnarskerðing og truflanir á starfsemi útlimatauga.

Sjúklingar sem gengist hafa undir skurðaðgerð vegna staðbundins lungnakrabbameins geta í allt að helmingi tilvika greinst aftur með sjúkdóminn. Til að bregðast við þessu hefur á síðustu árum verið reynt að gefa krabbameinslyf eftir skurðaðgerð hjá sjúklingum á stigi II og III til þess að draga úr áhættu á endurkomu sjúkdómsins. Hefur verið sýnt fram á að slík viðbótarmeðferð bætir árangur meðferðar þessara sjúklinga um allt að 10%. Á stigi I er ávinningur viðbótarmeðferðar hins vegar minni og því ekki mælt með slíkri meðferð. Viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum á aðeins við hjá sjúklingum sem eru vel á sig komnir líkamlega og þola meðferðina vel

Geislameðferð
Geislameðferð getur komið til greina sem læknandi meðferð, en aðeins í völdum tilvikum, til dæmis hjá sjúklingum sem ekki er treyst í skurðaðgerð og eru með lítið lungnakrabbamein sem bundið er við lungað. Geislameðferð kemur einnig til greina sem hluti af viðbótarmeðferð fyrir skurðaðgerð og er hún þá yfirleitt veitt samhliða meðferð með krabbameinslyfjum.

Geislameðferð.

Geislameðferð er oftast beitt við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið (stig IV). Þá er lækningu ekki komið við, en meðferð beitt við einkennum. Með geislameðferð er hægt að hefta vöxt æxlisins í lunganu eða meðhöndla einkenni frá fjarmeinvörpum, til dæmis í beinum.

Geislameðferð er yfirleitt veitt einu sinni á dag fimm daga vikunnar og tekur hún frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur. Ef geislameðferð er beitt í líknandi skyni er meðferðarsvæðið æxlið sjálft ásamt þeim eitlum sem sterkur grunur er um að innihaldi krabbameinsfrumur. Sjúklingar þola geislameðferð yfirleitt vel, en henni geta fylgt aukaverkanir eins og geislalungnabólga og bólgur í vélinda. Við smáfrumukrabbameini er geislameðferð beitt þegar sjúkdómurinn er bundinn við helming brjósthols. Krabbameinslyf eru þá gefin samhliða. Einnig er beitt geislameðferð á heila til að fyrirbyggja heilameinvörp.


Þetta svar og myndirnar sem því fylgja er fengið af vefnum Lungnakrabbamein.is en höfundurinn uppfærði textann í ljósi nýrrar tækni áður en svarið birtist á Vísindavefnum.

Höfundur

Tómas Guðbjartsson

prófessor í skurðlækningum við HÍ

Útgáfudagur

13.3.2019

Spyrjandi

Brynja S.

Tilvísun

Tómas Guðbjartsson. „Hvernig er krabbamein í lungum meðhöndlað?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77019.

Tómas Guðbjartsson. (2019, 13. mars). Hvernig er krabbamein í lungum meðhöndlað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77019

Tómas Guðbjartsson. „Hvernig er krabbamein í lungum meðhöndlað?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77019>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er krabbamein í lungum meðhöndlað?
Meðferð lungnakrabbameins ræðst aðallega af stærð og staðsetningu krabbameinsins og hvort meinið hefur dreift sér til eitla eða annarra líffæra (sjá svar við spurningunni Ef fólk greinist með krabbamein í lungum, hver eru stigin og hver er áætlaður líftími?). Einnig getur líkamlegt ásigkomulag sjúklings skipt máli, til dæmis hvort sjúklingurinn er talinn þola meðferð eins og skurðaðgerð. Tekið skal fram að hægt er að veita meðferð á öllum stigum sjúkdómsins og að árangur meðferðar er sífellt að verða betri.

StigMeðferð
ISkurðaðgerð eingöngu
Óskurðtækir: Geislameðferð
IISkurðaðgerð + lyfjameðferð eftir aðgerð
Óskurðtækir: Geislameðferð og eða lyfjameðferð
IIIALyfja- og geislameðferð samhliða,
auk skurðaðgerðar í völdum tilvikum
IIIBLyfjameðferð +/- geislameðferð samhliða
IVLyfjameðferð

Skurðaðgerð
Skurðaðgerð er helsta meðferðin til lækningar lungnakrabbameins. Hún á þó einungis við þegar meinið hefur ekki dreift sér til annarra líffæra, það er á stigum I og II og í völdum tilvikum á stigi III. Rúmur helmingur sjúklinga með lungnakrabbamein hefur ekki staðbundinn sjúkdóm við greiningu og fer því ekki í aðgerð. Hjá 20% sjúklinga til viðbótar kemur í ljós við frekari rannsóknir að af einhverjum orsökum er ekki hægt að komast fyrir krabbameinið með skurðaðgerð. Í heildina gengst því þriðji hver sjúklingur með lungnakrabbamein undir skurðaðgerð á lunga.

Hefðbundin skurðaðgerð við lungnakrabbameini er blaðnám (e. lobectomy) og er því beitt hjá 80% sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerð. Lungnablaðið er þá fjarlægt í heild, ásamt eitlum í kring.

Til að komast að lunganu er hægt að gera brjóstholsskurð á milli tveggja rifja á miðjum brjóstkassa en í dag er blaðnám oft gert með brjóstholssjá (e. Video Assisted Thoracoscopic Surgery, VATS). Myndavél í sjánni er þá tengd við sjónvarpsskjá og aðgerðin gerð í gegnum 1-4 cm stór göt á brjóstholinu. Sjúklingar eru yfirleitt fljótari að jafna sig eftir slíkar aðgerðir en eftir aðgerð í gegnum brjóstholsskurð en stundum er tæknilega ekki hægt að framkvæma aðgerðina með þessari nýju tækni.

Helstu tegundir skurðaðgerða vegna lungnakrabbameins.

Fleygskurður (e. wedge resection) er minni aðgerð en blaðnám og á við í um það bil 10% tilfella. Þá er biti fjarlægður úr lunganu með heftibyssu. Aðgerðinni er aðallega beitt hjá sjúklingum sem ekki eru taldir þola blaðnám vegna skertrar lungnastarfsemi. Aðgerðin er oft gerð með brjóstholssjá (VATS) en stundum í gegnum brjóstholsskurð. Myndavél í sjánni er þá tengd við sjónvarpsskjá og aðgerðin gerð í gegnum 1-3 cm stór göt á brjóstholinu. Sjúklingar eru yfirleitt fljótari að jafna sig eftir slíkar aðgerðir, en þær eru aðallega gerðar við minni æxli utarlega í lunga.

Ef æxli er staðsett í miðju lungans eða teygir sig á milli lungnablaða getur þurft að gera lungnabrottnám (e. pulmectomy), það er fjarlægja allt lungað. Lungnabrottnám er umfangsmikil aðgerð og sjúklingar eru lengur að jafna sig eftir hana en eftir blaðnám eða fleygskurð.

Alvarlegir fylgikvillar eru sjaldséðir eftir skurðaðgerðir á lungum. Óregla á hjartslætti getur komið fyrir og sjúklingar geta fengið lungnabólgu. Sýkingar í skurðsár eru fremur sjaldséðar. Hins vegar er algengt að lungað leki lofti eftir aðgerð. Því þurfa sjúklingar oftast að hafa slöngu í brjóstholinu í nokkra daga eftir aðgerðina og er slangan oftast tengd við sog.

Krabbameinslyfjameðferð
Á síðastliðnum árum hafa orðið töluverðar framfarir í lyfjameðferð við lungnakrabbameini. Ný lyf hafa komið til sögunnar og notkun eldri lyfja hefur breyst. Krabbameinslyf eru ýmist gefin ein sér eða samhliða annarri meðferð, til dæmis eru þau stundum gefin með geislameðferð fyrir skurðaðgerð í læknandi skyni eða sem viðbótarmeðferð eftir skurðaðgerð. Oftast er krabbameinslyfjum þó beitt við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið (stig IV), það er þegar skurðaðgerð eða geislameðferð á ekki við.

Tilgangur krabbameinslyfjameðferðar hjá sjúklingum sem ekki eru með staðbundinn sjúkdóm er að hefta vöxt frumanna. Þannig er haldið aftur af einkennum sjúkdómsins og reynt að lengja líf sjúklingsins. Meðferðin er einstaklingsbundin og verður að taka tillit til fjölda þátta, svo sem almenns líkamlegs ástands, einkenna sjúklings og hvort starfsemi hjarta, lungna og nýrna er skert. Oft er beitt tveimur lyfjum samtímis og er þá annað lyfið úr flokki svokallaðra platinum-lyfja. Versni sjúkdómurinn síðar er hægt að grípa til annarra lyfja. Á síðustu árum hefur komið fram nýr flokkur lyfja sem oft eru kölluð líftæknilyf. Þau hafa sérhæfðari áhrif á krabbameinsfrumur en hefðbundin krabbameinslyf og trufla því síður aðrar frumur líkamans sem skipta sér hratt, eins og hárfrumur og frumur í beinmerg. Þau eru notuð við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið og geta í sumum tilvikum haldið aftur af þeim og lengt líf sjúklinga. Miklu fé er nú veitt til rannsókna á líftæknilyfjum og vonir standa til að þær rannsóknir leiði til frekari framfara í meðferð lungnakrabbameins.

Krabbameinslyfjameðferð.

Krabbameinslyfjameðferð geta fylgt aukaverkanir en almennt gildir að þau krabbameinslyf sem notuð eru í dag hafa minni aukaverkanir en eldri lyf. Dæmi um aukaverkanir eru ógleði, þreyta, slappleiki, hármissir og bæling á starfsemi beinmergs. Þá geta sum krabbameinslyf truflað nýrnastarfsemi og því er mikilvægt að fylgjast með vökvajafnvægi sjúklinga meðan á meðferð stendur. Sjaldgæfari aukaverkanir eru heyrnarskerðing og truflanir á starfsemi útlimatauga.

Sjúklingar sem gengist hafa undir skurðaðgerð vegna staðbundins lungnakrabbameins geta í allt að helmingi tilvika greinst aftur með sjúkdóminn. Til að bregðast við þessu hefur á síðustu árum verið reynt að gefa krabbameinslyf eftir skurðaðgerð hjá sjúklingum á stigi II og III til þess að draga úr áhættu á endurkomu sjúkdómsins. Hefur verið sýnt fram á að slík viðbótarmeðferð bætir árangur meðferðar þessara sjúklinga um allt að 10%. Á stigi I er ávinningur viðbótarmeðferðar hins vegar minni og því ekki mælt með slíkri meðferð. Viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum á aðeins við hjá sjúklingum sem eru vel á sig komnir líkamlega og þola meðferðina vel

Geislameðferð
Geislameðferð getur komið til greina sem læknandi meðferð, en aðeins í völdum tilvikum, til dæmis hjá sjúklingum sem ekki er treyst í skurðaðgerð og eru með lítið lungnakrabbamein sem bundið er við lungað. Geislameðferð kemur einnig til greina sem hluti af viðbótarmeðferð fyrir skurðaðgerð og er hún þá yfirleitt veitt samhliða meðferð með krabbameinslyfjum.

Geislameðferð.

Geislameðferð er oftast beitt við lungnakrabbameini sem ekki er staðbundið (stig IV). Þá er lækningu ekki komið við, en meðferð beitt við einkennum. Með geislameðferð er hægt að hefta vöxt æxlisins í lunganu eða meðhöndla einkenni frá fjarmeinvörpum, til dæmis í beinum.

Geislameðferð er yfirleitt veitt einu sinni á dag fimm daga vikunnar og tekur hún frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur. Ef geislameðferð er beitt í líknandi skyni er meðferðarsvæðið æxlið sjálft ásamt þeim eitlum sem sterkur grunur er um að innihaldi krabbameinsfrumur. Sjúklingar þola geislameðferð yfirleitt vel, en henni geta fylgt aukaverkanir eins og geislalungnabólga og bólgur í vélinda. Við smáfrumukrabbameini er geislameðferð beitt þegar sjúkdómurinn er bundinn við helming brjósthols. Krabbameinslyf eru þá gefin samhliða. Einnig er beitt geislameðferð á heila til að fyrirbyggja heilameinvörp.


Þetta svar og myndirnar sem því fylgja er fengið af vefnum Lungnakrabbamein.is en höfundurinn uppfærði textann í ljósi nýrrar tækni áður en svarið birtist á Vísindavefnum.

...