Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið við þessari spurningu er einfaldlega „nei, svörin á Vísindavefnum eru alls ekki öll sambærileg“.
Þar kemur einkum tvennt til - annars vegar eru spurningarnar afar fjölbreyttar og taka til allra fræðasviða vísindanna, hins vegar eru spyrjendur Vísindavefsins á ýmsum aldri og hafa ólíkan bakgrunn. Stærsti spyrjendahópurinn er börn og unglingar og það er ekki síst til þeirra sem Vísindavefurinn vill tala.
Sumar spurningar sem berast Vísindavefnum frá börnum eru þess eðlis að einfalt svar sem hægt væri að flokka sem handbókarfróðleik gagnast afar vel, sérstaklega þeim sem lesa ekki erlend mál eða kjósa af öðrum ástæðum að lesa slíkt efni á íslensku. Mörg svör af þessu tagi gætu eldri og reyndari lesendur auðvitað fundið á erlendum vefsíðum eða í útlendum handbókum og fræðiritum, en Vísindavefurinn vill engu að síður styrkja íslenska tungu í sessi með því að birta slíkt efni um vísindi á þokkalega góðri íslensku.
Vísindamennirnir sem svara spurningum fyrir Vísindavefinn koma að verkinu með ýmsum hætti. Sumir fylgja hefðbundnum vinnubrögðum vísindamanna um heimildir og tilvísanir, aðrir slaka stundum á þessum fræðilegu kröfum. Þetta getur farið eftir fræðasviðum vísindamannanna en oftast þó eftir eðli og efni spurningarinnar og til dæmis aldri spyrjenda.
Þess vegna nálgast sum svörin á Vísindavefnum þann stíl sem fræðimenn nota í ritrýndum vísindaritum en önnur eru stutt og einföld svör. Með þessu er reynt að koma til móts við fjölbreyttan hóp spyrjenda og lesenda Vísindavefsins og einnig við höfundana sem svara spurningunum.
Svo er einnig rétt að hafa í huga að sumar spurningar á Vísindavefnum eru í léttum dúr og takmarkast ekki við tilteknar fræðigreinar. Þá er alls ekki ljóst að til sé einhver sérfræðingur sem fæst til að svara þeim út frá einhverju tilteknu fræðasviði vísindanna. Þessum spurningum svarar ritstjórn Vísindavefsins þess vegna oftast sjálf.
Hvaða sérfræðingar ættu til dæmis að svara eftirfarandi spurningum?
Þess má einnig geta að Vísindavefurinn tekur þátt í ýmiss konar viðleitni Háskólans og annarra til að kynna vísindi fyrir börnum og ungmennum með öðrum hætti en þeim að svara spurningum á vefnum. Sem dæmi má nefna Háskóla unga fólksins sem hóf starfsemi sína vorið 2004 og hefur starfað á hverju vori allar götur síðan með þátttöku Vísindavefsins. Þar býður hann börnum að kynna sér starfsemi vefsins og prófa að semja svör fyrir hann. Starfsmenn vefsins taka við svörum barnanna, ritstýra þeim og birta síðan í sérstökum flokki á vefnum. Þessi svör eru greinilega merkt þannig að lesandi sjái að ekki er um „fullgild svör“ að ræða.
Vísindavefurinn og starfsfólk hans hefur einnig komið að öðrum vísindamiðlunarverkefnum Háskóla Íslands, til að mynda Vísindasmiðjunni sem tekur á móti börnum og unglingum og Háskólalestinni sem ferðast um landið með lifandi og fjölbreytta vísindamiðlun til ungs fólks.
Af þessum texta má glöggt sjá að Vísindavefurinn hefur það meginmarkmið að veita almenningi í landinu, bæði börnum og fullorðnum, sem traustastar upplýsingar um vísindaleg efni af öllu tagi. Samhliða því hefur hann einnig önnur samrýmanleg markmið, svo sem að vanda til þess að skrifa á íslensku um vísindi, að efla áhuga á þeim hjá ungum sem öldnum, og að ná til sem flestra. Ritstjórn hans gerir ekki þá kröfu að hvert einstakt svar geti hentað hverjum sem er eða að svörin falli öll í eitthvert tiltekið mót, heldur að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi í því mikla og fjölbreytilega efni sem vefurinn býður lesendum sínum.
Aðsókn að vefsetrinu hefur frá byrjun verið mun meiri en menn áttu von á og er enn sívaxandi. Óvíst er að svo hefði orðið ef önnur og til dæmis þrengri markmið hefðu verið sett í upphafi.
Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru öll svör á Vísindavefnum sambærileg eða eru þau unnin á mismunandi hátt?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77017.
Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2019, 18. janúar). Eru öll svör á Vísindavefnum sambærileg eða eru þau unnin á mismunandi hátt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77017
Jón Gunnar Þorsteinsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru öll svör á Vísindavefnum sambærileg eða eru þau unnin á mismunandi hátt?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77017>.