Þetta er rannsóknarefni sem mörgum vísindamönnum er hugleikið. Margt bendir til þess að herra Níels, eða herr Nilsson eins og hann heitir á móðurmáli Línu, sé af tegundinni Simius fictionalis. Þetta má til dæmis leiða af lestri bókanna um Línu (sjá Lindgren 1948; 1949; 1950). Heimkynni Simius fictionalis eru í skáldskap af ýmsu tagi, svo sem skáldsögum, ljóðum, leikritum og kvikmyndum. Hann lifir helst á pappír eða filmum en í seinni tíð hefur hann einnig tileinkað sér rafræna næringu. Þessu andmæla aðdáendur kvikmyndanna um Línu og vini hennar. Þeir segja herra Níels vera af tegundinni Saimiri boliviensis sem kalla má höfuðkúpuapa (sbr. dönsku: „dødninghovedabe” og þýsku: „Totenkopfäffchen”) eða bólivískan íkornaapa (sbr. ensku: „Bolivian squirrel monkey”). Eins og nafnið gefur til kynna er sá api ættaður frá Suður-Ameríku, nánar tiltekið frá Ekvador, Chile, Brasilíu eða Bólivíu. Þeir sem hliðhollir eru bókunum segja á móti að það sé aðeins leikarinn í kvikmyndinni sem er höfuðkúpuapi en hinn raunverulegi Níels haldi alltaf áfram að vera skáldskapar- eða hugarflugsapi. Ritstjórn Vísindavefsins treystir sér ekki til að skera úr um þetta og telur báða kostina koma til greina.
- Hvað heitir hesturinn hennar Línu Langsokks?
- Hvenær fæddist Astrid Lindgren og hvað hefur hún skrifað margar bækur?