Hvernig var veðrið allt árið 1918, ekki bara frostaveturinn?Þegar ársins 1918 er minnst í Íslandssögunni þá eru nokkrir atburðir sem iðulega eru nefndir og þá helst að landið varð fullvalda, Katla gaus og spánska veikin herjaði á landsmenn. En ársins er líka minnst fyrir veðurfar og talað um frostaveturinn 1918. Kuldakaflinn í janúar 1918 var snarpur - einhver sá snarpasti sem við þekkjum - en hann var samt ekki mjög langur. Hann hefur samt tekið alla athygli af öðru veðri þetta merka ár og annað enga athygli fengið - þó það hafi hins vegar verið fjölbreytt og sýnt á sér ýmsar hliðar. Hér verður litið á það helsta - með hjálp veðurathugana og blaðafrétta. Janúar: Mjög óhagstæð tíð og fádæma köld. Fyrstu fjóra dagana var hláka. Aðalfrostakaflinn stóð til 22., en þá linaði mikið. Mjög þurrviðrasamt var lengst af. Um þennan mánuð er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Hvað olli frostavetrinum mikla 1918? og ekki miklu við það að bæta. Óvenjumikill hafís var við landið en hvarf að mestu snemma í febrúar. Lagnaðarís og ísleifar voru þó víða til trafala inni á fjörðum lengi vetrar og sjávarkulda og tilheyrandi krapa í fjörum getið. Sömuleiðis fóru frostin mjög illa með jörð - frost hljóp í hana og entist langt fram eftir sumri og háði viðkomu jarðargróðurs. Febrúar: Mikill skakviðra- og umhleypingamánuður. Fremur kalt var í veðri, einkum þó um landið norðanvert, frá Breiðafirði í vestri og austur á Hérað. Einna kaldast var þann 5. til 7. Illviðrin náðu hámarki upp úr miðjum mánuði, en þá voru mjög djúpar og kaldar lægðir við landið. Mannskaðar urðu á sjó (eins og venjulega liggur manni við að segja). Umhleypingarnir urðu hvað stórgerðastir um miðjan mánuð. Aðfaranótt þess 16. snjóaði mikið en þessi mikli snjór fékk ekki frið lengi. Tíminn segir þann 23. frá tíðinni næstliðna viku:
Gróður er alveg óvenjulega lítill í sumar og munu vetrarkuldarnir valda miklu um það. Túnin hér austur um og í Þingvallasveitinni sýnast alls ekki ljábær enn, og eru gráir blettir innanum þar sem varla sést strá. Skemmdir hafa orðið miklar á trjágörðum bæjarins í vetur og vor. Standa margar trjágreinarnar blaðlausar og feysknar. Varla geta það verið kuldarnir einir í vetur sem valda þessu, því að reynsla í öðrum löndum sannar að frostin ein saman granda ekki trjágróðri, ef sumur eru nægilega löng og heit. Aftur er eyja og útnesjaloftslagið allskonar trjám óholt og sést það á því, að í Færeyjum geta ekki þrifist skógar á bersvæði og hafa þó tilraunir verið gerðar af kappi að rækta skóg þar í 30 ár eða meira.Og þann 14. í sama blaði:
Illa gengur slátturinn. Fyrir svo sem viku var byrjað að slá Landakotstúnið. En svo lélegt var það, að ekki voru teknir nema blettir hér og hvar. Annars liggja flest tún enn óslegin og má slíkt eins dæmi heita hér, er komið er fram í miðjan júlímánuð. Oftast er búið að slá hér tún fyrir júnílok.Ágúst: Nokkuð stopulir þurrkar á S- og V-landi og í útsveitum nyrðra. Fremur kalt. Blaðið Fram á Siglufirði birtir veðurfarshugleiðingu þann 24. ágúst (aðeins stytt hér):
Hin óstöðuga, vonda veðrátta sem nú hefir haldist í margar vikur, gefur tilefni til ýmislegra hugleiðinga, þar sem það er óþekkt áður að sumartíðin hafi verið svo slæm, sem hún hefir verið í sumar og í fyrrasumar. Meðal annars er menn hafa gert sér í hugarlund að sé orsök þessarar vondu veðráttu, er hin afarmikla skothríð er öðru hvoru fer fram á vígstöðvunum í vestur Evrópu, er það skoðun manna — og það ekki svo fárra — að hún orsaki miklar breytingar og röskun á loftstraumunum. Að hve miklu leyti þessi skoðun er rétt, leiði ég hjá mér að dæma um, en dæmi eru þess, að miklar sprengingar dreifa skýjunum, það er að segja undir sérstökum kringumstæðum. ... Það er því ekki alveg ómögulegt, að skothríðin í Vestur-Evrópu geti áunnið í líka átt í stærri stíl, en að áhrifin af skothríðinni nái alla leið hingað og geti orsakað hina vondu veðráttu má skoða í fyllsta máta vafasamt. Réttara mun að álíta að veðráttan sé sprottin af því, að byrjað sé og fari mjög vaxandi kuldatímabil á norðurhálfu hnattarins. Það mun því vera „bull út í bláinn“ þegar fólk kennir stríðinu um hina vondu veðráttu, og einungis sprottið af hinni almennu löngun og tilhneigingu til að kenna stríðinu — með eða án ástæða, um alt er móti blæs á hinum síðustu tímum, F. O. H.September: Afspyrnukaldur mánuður og tíð víðast talin mjög óhagstæð, einkum norðanlands. Syðra var fremur þurrt. Í kasti um miðjan mánuð snjóaði einnig á Suðurlandi. En ekki var alveg allur jarðargróði rýr ef trúa má frétt í Fréttir 2. september:
Ribsberjavöxtur er alveg óvenju mikill í sumar. Eru berjaklasarnir nú sem óðast að roðna og þroskast. Stingur þetta mjög i stúf við gróðurbrestinn á öðrum sviðum á þessu sumri. — Ef til vill mun garðræktin heppnast vonum fremur, enn ekki er það fullséð enn.Svo gekk í leiðinlega norðanátt og verulega kulda. Ýmsar fréttir bárust af hretinu - Morgunblaðið birtir þann 14. frétt frá Seyðisfirði:
Afskaplega illt veður undanfarna daga. Í nótt var hér frost og i dag snjókoma. Alhvít jörð niður að sjó. Aflalaust með öllu vegna ógæfta. Sumir eru í þann veginn að hætta heyskap vegna slægjuleysis.Kuldinn hélt áfram og þann 26. festi snjó í Reykjavík og ökklasnjór sagður í Mosfellssveit. Skeiðarréttum var frestað vegna tafa við smölun. Fé sagt hafa fennt. Október: Meðaltíð. Hiti í meðallagi. Snjóasamt í útsveitum nyrðra þegar á leið svo hey lentu undir snjó. Bátur frá Reyðarfiðri fórst þann 4. Nóttina eftir varð maður úti á Fjarðarheiði. Talsvert illviðri gerði þann 6. Nóvember: Hægviðrasöm og góð tíð, einkum eftir þ.10. Hiti í meðallagi. Ekki var þó illviðralaust með öllu, því mikið landsynningsveður gerði suðvestanlands þann 19. Ekki getið tjóns en talið óhollt inflúensusjúklingum. Höfuðborgin og fleiri staðir á landinu lömuðust í meðan spænska veikin gekk yfir. Nokkur snjór var í upphafi mánaðarins og tafði hann fjárrekstra í Grímsnesi. Einnig var þess getið í Morgunblaðinu þann 4. að bifreiðar hafi ekki komist hjálparlaust yfir skaflana á Hellisheiði - kannski í fyrsta sinn sem getið var um slíkt í blöðum? En ekki voru bílar öflugir á þessum tíma. Desember: Góð tíð og hægviðrasöm. Hiti í meðallagi. Gott veður var á fullveldisdaginn 1. desember - en svalt. Hæðarhryggur yfir landinu. Talsvert frost var fyrir jólin - einkum norðaustanlands. Jólin voru hvít suðvestanlands. Myndir:
- Ljósmyndasafnið Ísafirði. (Sótt 11. 9. 2018).
- Sæberg.is. (Sótt 11. 8. 2018).
Þetta svar er mikið stytt útgáfa af pistlinum Árið 1918 - hvernig var með veðrið eftir að frostunum lauk? sem birtist á Hungurdiskum, bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings og birt með góðfúslegu leyfi höfundar. Áhugasömum er bent á að lesa pistilinn í heild sinni þar sem finna má margar fróðlegar tilvitnanir í skrif dagblaða um veður og tíðarfar ársins 1918. Nokkrar spurningar hafa borist um almennt veðufar ársins 1918, meðal annars:
Hver var kaldasti tíminn árið 1918? Hver var heitasti tíminn árið 1918? Hvernig var veðrið sumarið 1918?