Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kristinn Schram er dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Helsta rannsóknarsvið hans er þjóðfræði í þverþjóðlegum samskiptum og þjóðernislegum sjálfsmyndum.
Rannsóknir hans snúa meðal annars að frásagnar- og efnismenningu hreyfanlegra hópa sem skoðuð er í tengslum við menningarlegt samhengi og menningarpólitík. Viðfangsefni rannsókna hans ná frá tjáðri menningu munnlegra frásagna til efnismenningar og alþýðuhefða. Þá hefur hann skoðað húmor og íroníska „performansa“ í borgarmenningu og framsetningu ímynda í fjölmiðlum og nýjum miðlum.
Helsta rannsóknarsvið Kristins er þjóðfræði í þverþjóðlegum samskiptum og þjóðernislegum sjálfsmyndum.
Vettvangur rannsókna hans nær yfir margvísleg menningarleg rými svo sem rekafjörur og götur borgarinnar. Þær hafa meðal annars snúið að því að sýna með hvaða hætti framandi ímyndir af norðrinu hafa verið áhrifamiklar í menningarpólitík, þverþjóðlegum samskiptum og hversdagsmenningu hreyfanlegra hópa í Norður-Evrópu og á vestnorræna svæðinu. Rannsóknir hans hafa jafnframt sýnt að norðurhyggja (e. borealism) og önnur framandgerving íslensks þjóðernis og þjóðfræða, hefur verið fyrirferðamikil bæði fyrr og nú. Þá er leitað í brunn hennar bæði á tímum útrásar og efnahagslegrar velmegunar sem og í efnahagserfiðleikum og óöryggi.
Rannsóknir Kristins hafa birst, bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi, í virtum vísindatímaritum og ritrýndum bókum. Þar má nefna greinina „Performing the North“ sem birtist í norræna þjóðfræðitímaritinu Arv (2009). Hún sýnir niðurstöður tilviksrannsókna á hvernig Íslendingar í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum hafa brugðist við framandgervingu með frásögnum og „performans“ á matarhefðum og náttúruímyndum. Matarhættir og menning á tímum fjármálaútrásarinnar er efni kaflans „Banking on Borealism“ sem birtist í bókinni Iceland and Images of the North (Presses de l'Université Québec 2011).
Þá hefur Kristinn unnið rannsóknir í samstarfi við Kötlu Kjartansdóttur og má sem dæmi finna greiningu þeirra á grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands í bókinni Scandinavian Museums and Cultural Diversity (Berghahn Books 2008). Niðurstöður úr tilviksrannsókn þeirra á meðal Íslendinga á Norðurlöndum, fyrir og eftir efnahagshrun, birtust í bókinni Performing Nordic Heritage in Museums and Everyday Life (Taylor & Francis 2016).
Kristinn er þátttakandi í margvíslegu rannsóknarsamstarfi á borð við öndvegisverkefnin Ísland og ímyndir norðursins, Fötlun fyrir tíma fötlunar og Hreyfanleiki og þverþjóðleiki á Íslandi. Þá leiðir hann tengslanetið Northgate sem rannsakar félags- og menningarleg áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Hann er einnig fulltrúi Háskóla Íslands í Háskólaneti norðurslóða (e. University of the Arctic). Hann hefur sinnt ritstjórn bóka og tímarita en hann var gestaritstjóri Ritsins – tímarits Hugvísindastofnunnar (1/2015) í hefti sem helgað er íroníu frá hug- og félagsvísindalegu samhengi.
Kristinn er fæddur í Reykjavík, 1972 og lauk BA-prófi í þjóðfræði við Háskóla Íslands árið 2001. Hann hélt svo til framhaldsnáms við þjóðfræðideild Edinborgarháskóla 2003, lauk meistaraprófi þaðan 2004 og síðar doktorsprófi 2010. Doktorsritgerðin ber heitið: Borealism: Folkloristic Perspectives on Transnational Performances and the Exoticism of the North.
Myndir:
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Kristinn Schram stundað?“ Vísindavefurinn, 14. júní 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75932.
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. (2018, 14. júní). Hvaða rannsóknir hefur Kristinn Schram stundað? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75932
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvaða rannsóknir hefur Kristinn Schram stundað?“ Vísindavefurinn. 14. jún. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75932>.