Þjóðfræðin rannsakar hversdagsmenningu, lífshætti og lífssýn á okkar dögum og áður fyrr. Þjóðfræði heyrir í senn til hug- og félagsvísinda, enda fjalla þjóðfræðingar jöfnum höndum um aðstæður fólks og samfélag á hverjum tíma og svo tjáningu þess, listfengi og fagurfræði hversdagsins. Á meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar eru sögur og sagnir, heimilis- og atvinnuhættir, trú og tónlist, siðir og venjur, hátíðir og leikir, klæðnaður og matarhættir, svo fátt eitt sé nefnt. Áhersla er lögð á hvernig fólk mótar líf sitt og umhverfi undir kringumstæðum sem það hefur ekki mótað sjálft og hvernig fólk lifir í samfélagi hvert við annað í þeim margvíslegu hópum sem það tilheyrir.
Þjóðfræðingar sem lokið hafa námi frá Háskóla Íslands eru (í stafrófsröð): atvinnuráðgjafar, blaðamenn, bændur, fararstjórar, fjölmiðlafólk, forstöðumenn og deildarstjórar safna og menningarmiðstöðva, framhaldsnemar, framhaldsskólakennarar, framkvæmdastjórar, fræðimenn, fræðslufulltrúar, grunnskólakennarar, háskólakennarar, hjálparstarfsmenn, klæðskerar, kvikmyndagerðarmenn, kynningarfulltrúar, landverðir, leiðsögumenn, minjaverðir, myndlistarmenn, prestar, rithöfundar, ritstjórar, safnstjórar, safnverðir, skrifstofustjórar, spákonur, sýningarhönnuðir, þáttagerðarfólk og þýðendur. Auk þess starfa þjóðfræðingar meðal annars við bókaútgáfu, ferðaþjónustu, fornleifarannsóknir, leikhús, menningarsvið sveitarfélaga, náttúruvernd, opinbera stjórnsýslu, ráðgjöf og sýningargerð. Þjóðfræðingar frá Háskóla Íslands hafa jafnframt lagt land undir fót og farið utan í framhaldsnám, meðal annars til Bandaríkjanna, Bretlands, Írlands, Norðurlandanna og Þýskalands. Eins eru dæmi um að þjóðfræðingar hafi stofnað og rekið fyrirtæki á sínu sviði. Hafa þarf hugfast að það er undir hverjum og einum komið hvernig menn nýta nám sitt, hæfileika og reynslu.Viðfangsefni þjóðfræðinnar eru augljóslega margvísleg og þeir sem hafa hug á að kynna sér hana betur geta til að mynda skoðað fjölmörg svör sem tilheyra þjóðfræði hér á Vísindavefnum:
- Er eitthvert nafn falið í þulunni sem hefst á orðunum ,,Heyrði ég í hamrinum..."?
- Hversu útbreidd er álfatrúin um heiminn, í hvers kyns myndum sem hún kann að koma fram?
- Hvernig eru reglurnar með stúdentahúfur? Hvenær eiga þær að vera svartar?
- Voru haldnar stórar veislur með þorramat á þorranum hér áður fyrr?
- Hver er uppruni íslensku skotthúfunnar?
- Af hverju er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur?