Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til eru margar hljóðritanir af þulunni sem byrjar Heyrði ég í hamrinum (eða hellinum) í þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar fer hver heimildamaður með þuluna á sinn hátt eins og eðlilegt er því það er einmitt eðli kveðskapar úr munnlegri geymd að breytast í hvert sinn sem farið er með hann. Dæmi úr safninu er í útgáfunni Einu sinni átti ég gott sem er bók og tveir geisladiskar með efni sem venjan var að fara með fyrir börn. Hulda Björg Kristjánsdóttir frá Nesi í Fnjóskadal syngur þar í hljóðritun frá árinu 1969:
Heyrði ég í hamrinum
hátt var látið
og sárt var grátið.
Búkonan dillaði
börnunum öllum:
Ingunni, Kingunni,
Órunni, Jórunni,
Ísunni, Dísunni,
Einkunni, Steinkunni,
Eðalvarði, Ormagarði,
Eiríki og Sveini.
Ekki heiti ég Eiríkur
þó ég sé það kallaður.
Ég er sonur Sylgju,
sem bar mig undan bylgju.
Bylgjan og báran
brutu mínar árar
langt úti á sjó.
Hafði ég í hægri kló
hornin bæði löng og mjó.
Allar mínar sorgirnar
bind ég undir skó,
hallast á hesti mínum
ríða verð ég þó.
Elsta gerð þulunnar sem skrásett hefur verið er frá því um 1810, eftir því sem sagt er í bókinni Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur (IV 196–197), en þar er þulan prentuð eftir ýmsum handritum frá 19. öld:
Heyrði eg í hamrinum
hátt var þar látið
og sárt var þar grátið.
Búkonan dillaði
börnunum öllum:
Íngunni, Kíngunni,
Jórunni, Þórunni,
Ísunni, Dísunni,
Einkunni, Steinkunni,
Sölkunni, Völkunni,
Siggunni, Viggunni,
Aðalvarði í Ormagarði,
Eiríki og Sveini
og dillaði Steini.
Ekki heiti eg Eiríkur
þótt þú kallir mig það.
Eg er sonur Sylgju,
sem bar mig undan bylgju.
Bylgjan og báran þær
brutu mínar árar tvær
lángt fram á sjó.
Hafði eg í hægri kló
hornin bæði laung og mjó.
Skipin skullu og árar
skall í hafi bára.
Ekki fæ eg matinn minn á málum
fyrir sjóarbárum.
Eg sökti mér í sjó,
engum varð að grandi;
tók eg sitt í hvora kló
og keipaði upp að landi.
Eins og sést er mismunurinn á þessum tveimur gerðum mestur í lokin og það er einmitt mjög misjafnt hvernig haldið er áfram eftir upptalninguna á börnunum öllum sem búkonan dillaði. Í mörgum tilfellum fer þar einhvers staðar á eftir nafnaþula sem stundum er kölluð Ættartalan til Óðins og er síðan einnig til í mismunandi útgáfum og oft líka farið með sem sjálfstæða þulu. Dæmi um hana er á diskinum Raddir þar sem efni úr þjóðfræðisafni stofnunarinnar er að finna. Upptakan er einnig frá árinu 1969 og það er Sólveig Indriðadóttir frá Ytrafjalli í Aðaldal sem kveður:
Bárður Björgúlfsson,
Björgúlfur Hringsson,
Hringur Hreiðarsson,
Hreiðar Garðsson,
Garður Gunnarsson,
Gunnar Refsson,
Refur Ráðfinnsson,
Ráðfinnur Kolsson,
Kolur Kjörvaldsson,
Kjörvaldur Bjórsson,
Bjór Brettingsson,
Brettingur Hakason,
Haki Óðinsson,
Óðinn kóngur allra trölla faðir.
Upp er runninn dagur
bæði ljós og fagur.
Úti stendur tík mín í túni
týndi ég honum Trampa-Jóni
þar trúi ég hann fúni.
Gott er að ríða
sandana mjúka
það gerir ekki hestana sjúka
látum yfir steinana strjúka
það gerir á bæjunum rjúka.
Konur bera mat á borð
breiða niður dúka
við skulum ekki skyrinu öllu
úr Skagafirði ljúka.
Komdu út, Kjúka.
Þetta er einu tengslin við nöfn sem ég veit til að þulan hafi og ég hef aldrei heyrt um að nafn sé falið í þulunni.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Einu sinni átti ég gott. Umsjón með útgáfu: Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Smekkleysa SM ehf og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2006.
Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. III–IV. Safnað hafa Jón Árnason og Ólafur Davíðsson. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafélag, 1887–1903.
Raddir. Ómennskukvæði, Ókindarkvæði, Grýlukvæði, rímur, sagnadansar, drykkjuvísur, þulur, barnagælur og önnur íslensk þjóðlög. Safnað af vörum Íslendinga á árunum 1903–1973. Andri Snær Magnason og Rósa Þorsteinsdóttir sáu um útgáfuna. Reykjavík: Smekkleysa ehf og Stofnun Árna Magnússonar, [1998].
Rósa Þorsteinsdóttir. „Er eitthvert nafn falið í þulunni sem hefst á orðunum ,,Heyrði ég í hamrinum..."?“ Vísindavefurinn, 24. nóvember 2009, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54567.
Rósa Þorsteinsdóttir. (2009, 24. nóvember). Er eitthvert nafn falið í þulunni sem hefst á orðunum ,,Heyrði ég í hamrinum..."? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54567
Rósa Þorsteinsdóttir. „Er eitthvert nafn falið í þulunni sem hefst á orðunum ,,Heyrði ég í hamrinum..."?“ Vísindavefurinn. 24. nóv. 2009. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54567>.