Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Veðurfari frostaveturinn 1918 er lýst rækilega í svari Trausta Jónssonar veðurfræðings við spurningunni Hvað olli frostavetrinum mikla 1918? og í tveimur greinum Sigurðar Þórs Guðjónssonar, áhugamanns um veðurfar: Frostaveturinn mikli 1918 og Fyrir hundrað árum. Hinn kaldi janúar 1918.
Fylgifiskur þessarar kuldatíðar var hafísinn, landsins forni fjandi eins og skáldið Matthías Jochumsson komst að orði í kvæðinu Hafísinn frá 1888. Mikill hafís var fyrir Norðurlandi og einnig myndaðist mikill lagnaðarís. Segja má að hafís hafi legið að ströndum allt frá Vestfjörðum, eftir öllu Norðurlandi og stærstum hluta Austfjarða. Siglingaleiðir tepptust, flesta firði lagði og hafnir lokuðust, annað hvort af lagnaðarís eða hafís.
Það er því ekki að undra að hafísinn hafi verið áberandi umfjöllunar- og umhugsunarefni landsmanna, einkum framan af ári þegar ísinn var mestur. Hér á Vísindavefnum er að finna nokkra pistla sem Þór Jakobsson veðurfræðingur hefur tekið saman þar sem raktar eru fréttir um hafís úr blöðum og tímaritum árið 1918. Þær eru að mestu úr blöðum sem gefin voru út hér heima en stöku frétt úr vestur-íslenskum blöðum er birt til fróðleiks. Þá eru birtar greinar og frásagnir úr blöðunum, eða glefsur úr slíkum, þar sem hafís kemur við sögu. Hér á eftir er aðeins stiklað á stóru um efni pistlanna og lesendur eru því hvattir til að kynna sér þá í heild og fá þannig innsýn inn í þann veruleika sem blasti við landsmönnum snemma árs 1918.
Hinn eiginlegi hafís myndast í sjónum á norðlægum slóðum við víxláhrif lofts og hafs. Hann kallast líka lagnaðarís, þykknar gjarnan mikið og víðáttumikil hafísbreiða getur myndast. Fyrir tilverknað strauma og vinda brotnar hafísbreiðan um síðir. Stakir jakar myndast sem berast áfram og dreifast. Hinir tignarlegu borgarísjakar á íslenskum hafsvæðum eiga sér hins vegar ólíka sögu. Þeir eru upphaflega feiknamikil ísbjörg sem hafa brotnað framan af skriðjöklum Grænlands þegar þeir hafa náð að skríða í sjó fram. Myndin er af borgarís í Scoresbysundi á Austur-Grænlandi, reiðubúinn að hefja hæga ferð sína út fjörðinn og út á Grænlandshaf, kannski í átt til Íslands.
Í greininni Hafís í blöðunum 1918. I. Janúar má sjá að nánast upp á hvern einasta dag er að finna eitthvað um hafís í íslenskum blöðum. Í Tímanum 12. janúar 1918 má meðal annars lesa eftirfarandi um tíðarfarið:
Frost hafa verið afarhörð síðustu vikuna. Reykjavíkurhöfn er frosin sem ekki hefir komið fyrir í rúm 20 ár. Vandræði töluverð stafa að bænum af því að víða er vatn frosið í vatnsleiðslupípum og þær sprungnar. Borgarstjóri hefir gefið út tilkynningu um það, að fyrst um sinn megi búast við að vatn fáist ekki úr vatnsæðum bæjarins á öðrum tímum en frá kl. 10—1 fyrri hluta dags. Sömu hörkur eru um land alt. Er það sagt að á sumum bæjum í Borgarfirði séu afarmikil brögð að músagangi, bæði í bæjarhúsum og á fénaðarhúsum og hafi þær lagst á fé. Hafís er nú mikill fyrir norðurlandi og vesturlandi. Á Ísafjarðardjúpi hefir ísinn frosið saman í frostunum svo gengt er um þvert Djúpið. Á Húnaflóa og Siglufirði er ís og er Willemoes teptur af ís á Siglufirði. Enn hefir frést að íshroði sé á Axarfirði.
Þegar kom fram í febrúar rak ísinn frá landi en lengi vel var aðeins skammt undan, eins og lesa má hér fyrir neðan en fleiri tíðindi er hægt að sjá í pistlinum Hafís í blöðunum 1918. II. Febrúar til áramóta.
Norðurland 2. mars
Hafíslaust er nú umhverfis alt Norður- og Austurland svo langt sem séð verður á haf út. En Eyjafjörður er enn lagður, frosinn saman hafís og lagís alla leið sunnan frá Leirunni og út fyrir Rauðuvík.
Fréttir 1. júlí
Hafís er skamt undan Horni; vélbátar hafa verið að veiðum úti við ísinn. Hríð var á Patreksfirði á föstudaginn, og snjóaði ofan að sjó.
Blöðin birtu ekki aðeins fréttir af hafísnum heldur einnig lengri greinar. Í pistlinum Hafís í blöðunum 1918. III. Þrjár greinar um tíðarfar 1918 eru greinar sem lýsa tíðarfarinu snemma árs 1918 og hvernig það hafði áhrif á ferðir manna í embættiserindum. Fyrst segir frá embættisleiðangri á ísilögðum Eyjafirði, þá er samantekt á tíðarfarinu á Vestfjörðum og loks er frásögn af ferðalagi sem tekist var á hendur til þess að halda mótornámskeið á Akureyri.
Frosthörkurnar snemma árs 1918 urðu einnig tilefni þess að í blöðum var rifjaður upp harði veturinn 1880-1881. Tvær áhugaverðar greinar þess efnis má lesa í pistlinum Hafís í blöðunum 1918. IV. Harði veturinn 1880-1881.
Þá birti blaðið Íslendingur grein í janúar 1918 þar sem Steingrímur Matthíasson (1876-1948) læknir á Akureyri fjallar um veðurfar fyrri tíma og vitnar meðal annars í þá nýútkomið rit Þorvalds Thoroddsen (1855-1921) jarðfræðings, „Árferði á Íslandi í þúsund ár“. Þessa grein er að finna í pistlinum Hafís í blöðunum 1918. V. Harðindi.
Tveimur vikum seinna birtist í sama blaði grein eftir Þorkel Þorkelsson eðlisfræðing (1876-1961) sem seinna varð fyrsti forstöðumaður Veðurstofu Íslands (1920) og síðar fyrsti veðurstofustjóri (1925-1946). Hann fjallar meðal annars um veðurfræði og veðurathuganir. Þessa grein má sjá í pistlinum Hafís í blöðunum 1918. VI. Um gagnsemi veðurfræðinnar - hugleiðingar frá 1918.
Allt það efni sem birt er í þessum pistlum er aðgengilegt í gegnum vefinn timarit.is og er hér með þakkað fyrir aðgang að honum.
Mynd:
Þór Jakobsson og EDS. „Hvað var sagt um hafísinn í blöðum árið 1918?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2018, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=75875.
Þór Jakobsson og EDS. (2018, 6. júní). Hvað var sagt um hafísinn í blöðum árið 1918? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=75875
Þór Jakobsson og EDS. „Hvað var sagt um hafísinn í blöðum árið 1918?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2018. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=75875>.