Vísir 1. febrúar 1918 Stórhríðar geisa einlægt annað veifið fyrir norðan, segir símfregn frá Akureyri. Vogar og víkur fullar af hafís. Voröld (Winnipeg) 1. febrúar Fréttir frá Íslandi. Þar eru frost og harðindi óvægileg; segja fréttir þaðan 19. janúar að hafís sé fyrir öllu Norðurlandi frá Patreksfirði til Seyðisfjarðar og horfur ískyggilegar. Morgunblaðið 10. febrúar Kuldar. Það hefir víðar verið kalt síðan um nýár heldur en hér. Í Svíþjóð hafa verið frosthríðar og hafís frosið um öll Norðurlönd. Í Ameríku hafa líka verið miklir kuldar og Hudsonsflóinn var fullur af ís um nýár. Í New York náði frostið 46 stigum á Fakrenheit (um 43 stig á Celsius), á nýársnótt. Er það hið mesta frost þar, sem menn muna eftir. Fraus þá vatnsleiðsla borgarinnar svo að víða var vatnslaust í borginni. Lögrétta 13. febrúar Tíðin. Austanhláka um Suðurland síðari hluta næstl. viku, ofsaveður í Vík og Vestm.eyjum. 9. þ. m. frostlaust um alt land. 5 st. hiti þá á Akureyri. Frysti hjer á mánud. Í gærkv. aftur asahláka með regni og í morgun 6 st. hiti. Hafíslaust við Austurland og Vesturland, og ísinn að reka frá Norðurlandi, en lagís með jökum innan um á fjörðum og flóum. Skutulsfjörður lagður, en Ísafjarðardjúp autt. Siglufjörður lagður innan til, sömul. Eyjafjörður, Seyðisfjörður, Mjóifjörður og Norðfjörður sagðir fyrir fáum dögum lagðir. Eskifjörður skipgengur en ís á innri hluta Reyðarfjarðar. Fáskrúðsfj. auður. Síðustu fregnir segja autt haf við Langanes, en ekki skipgengt fyrir Melrakkasljettu. Tíminn 16. febrúar Tíðin. Hláka hefir verið lengst af síðastliðna viku um suðurland og töluverð úrkoma suma dagana. Síðari hlutann var asahláka um land alt. Hafísinn er nú farinn frá landinu. Var gengið upp á fjöll úr Siglufirði á miðvikudag og sást þá enginn hafís nema hrafl sem var á reki út úr fjörðunum. Firðir eru þó víða frosnir enn, en skamt mun þess að bíða að þann ís leysi haldist tíðin nú óbreytt. Frón 23. febrúar Veðrátta hefir verið umhleypingasöm, oftast stormar af suðri og útsuðri. Hafís mun nú hafa lónað svo frá landinu, að skipgengt mun vera. Norðurland 2. mars Hafíslaust er nú umhverfis alt Norður- og Austurland svo langt sem séð verður á haf út. En Eyjafjörður er enn lagður, frosinn saman hafís og lagís alla leið sunnan frá Leirunni og út fyrir Rauðuvík. Morgunblaðið 10. mars Frá Vesturlandi. Frá Patreksfirði er oss skrifað nýlega: Vetrarharka hefir verið hér afskapleg undanfarið, meiri frost en eldri menn muna. Einsdæmi mun það vera að Látraröst lagði svo langt til hafs, að ekki sást í auða vök, annarsstaðar en af Látraheiði. En þaðan sást blána aðeins. Á stöku stað stóðu hafísjöklar eins og stór björg úr hafinu. Hefir slíkt aldrei komið fyrir, eða hvergi sést getið í sögum, að »röstin« hafi getað hrist af sér vetrarhaminn. Af Loðkinnahamraheiði sást hvergi í auða vök frá Barði og alla leið suður, svo langt sem augað eygði. Fimm brezkir botnvörpungar lágu innifristir í vikutíma í frostunum. Á Vestfjörðum hafa skemst allar bryggjur og öll »síldarplön« af frostum og ís, nema bryggja Ásgeirssonar á Ísafirði og Ol. Jóhannessonar konsúls á Patreksfirði. Nemur það tjón mörgum tugum þúsunda króna. Sem dæmi má nefna að einhver öflugasta bryggjan á Vestfjörðum, eign bræðranna Proppé Þingeyri, hefir skemst svo að aðgerð á henni munu kosta tugi þúsunda. Tíminn 21. mars Tíðin hefir verið ágæt undanfarna daga, úrkoma nokkur og blíðviðri. Ís er farinn af hálfri Reykjavíkurtjörn og orðið vel ristuþýtt í túni. Skagafirði. Úr héraði eru litlar fréttir. Tíð hefir verið óvanalega hörð fram til þessa tíma. Hafís verið hér síðan rétt eftir nýár. Skagafjörður fullur af ís 12. jan. Nú er hafísinn að mestu farinn og sagt að autt sé úti fyrir. Jarðbönn hafa verið um mestan Skagafjörð síðan fyrir jól. Hross á gjöf allvíðast. Þó heyrist ekki enn sem komið er að neinstaðar sé heyþröng fyrir dyrum. Heybirgðaskoðun er nú búin að fara fram allvíða hér í útsýslunni. Eru ástæður þar víðast góðar. Útlit alvarlegast í hrossafletlu sveitunum — framfirðinum. Lögberg, Winnipeg 28. mars Fregnir frá Íslandi. Nýlega hafa þær gleðifréttir borist hingað, að hafís allur er á brott rekinn frá Íslandi og tíðarfar að batna. Tíminn 6. apríl Úr Lóni. Stafafelli 15. febr. 1918 (úr löngu fréttabréfi frá Sigurði Jónssyni): Hafís hefir ekki komið hér nema lítils háttar hrul fram með landi nú í þorra-hlákunum, sem orðið er fast við ströndina og eyðist nú óðum í fjörunum. Heyin hafa sem von er orðið ærið uppgangssöm það sem af er vetrinum, samt er útlit með heybirgðir yfirleitt ekki lakara, sem oft áður þrátt fyrir alt. Einstöku menn hér í nágrenninu förguðu skepnum af heyjum þegar jólaföstu-álagið gerði, en ekki var það í stórum stíl. Ástand búpenings er hér yfirleitt fremur gott, en kýr þykja ekki mjólka vel og kenna menn um hraktri töðu. Morgunblaðið 9. apríl Hafísinn að koma aftur Frá Raufarhöfn var oss símað í gær, að töluverður hafís væri sjáanlegur út af Sléttu. Veður var mjög slæmt nyrðra, 15 stiga frost í fyrramorgun og útlit hið versta. Stórhríð undanfarna tvo daga. Morgunblaðið 10. apríl „Sterling“ var á Þórshöfn í gær og kemur væntanlega hingað í byrjun næstu viku. Skipstjóri segir í símskeyti til Eimskipafélagsins að hafís sé töluverður út af Sléttu. Tíminn 12. apríl Tíðin. Kuldakast mikið gerði um síðustu helgi og stórhríð á Norður- og Vesturlandi. Hafís urðu menn varir við nyrðra en von er um að ekki verði mikið úr því. Þýða kom aftur um miðja viku. Morgunblaðið 12. apríl Fregnir hafa borist hingað allvíða að af Norðurlandi um að hafís hafi sézt skamt undan landi. En fremur eru fregnir þær óábyggilegar, enda ber þeim ekki saman. Landið 12. apríl Hafís hafði sézt á mánud. út af Melrakkasléttu. Er það sjálfsagt í sambandi við kuldakastið, sem kom um síðustu helgi. Morgunblaðið 15. apríl Hafísinn. Sú fregn gekk hér um bæinn í fyrrakvöld, að hafís væri að reka inn Ísafjarðardjúp. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum vestra getum vér sagt, að fregnin er ekki rétt. Nokkrir ísjakar hafa sézt á reki yzt í Djúpinu og annað ekki. Dagur 23. apríl Samtíningur. — Af Melrakkasljettu er skrifað 5. þ. m.: Hjeðan er ekkert að frjetta nema harðindi; jarðlaust á flestum bæjum, og hey mjög farin að ganga til þurðar. Hafís er enginn hjer, en sjókuldi þó svo mikill, að allar víkur eru undir lagís og krapi sje nokkurt frost til muna. Þessvegna er þarabeit stopul. Líklega bjargast þó flestir á sumarmálin, en batni þá ekki, má hamingjan hjálpa, ef vel á að fara. Lengi mega Sljettungar muna þennan vetur, því fáum mun hann hafa klappað öllu ómjúkar en þeim. Njörður, Ísafirði Í dag, 24. apríl, er síðasti dagur þessa vetrar. Logn er og þykt loft með þokuslæðing um fjallabrúnir, rigningarúða til skiftis við þurrar stundir, hlýjar og notalegar. Þannig kveður hann hér, þessi þungi vetur. Betur getur engi vetur endað, en góður verður hann samt aldrei í minni manna; sannast ekki á honum máltækið: „Alt er gott þá endirinn er góður". Fyrri partur vetrarins var hér afar-illur. Framan við hann var líka aukið mánuði, því allan október var vetrartíð með sífeldu frosti og köföldum. Nóvember og desember voru hér mjög líkir þessum mánuðum haustið 1880, eins og þeir voru norður í Húnavatnssýslu, einkum út á Skagaströnd. Þann 6. janúar kom hafís á Ísafjarðardjúp og hafðist þar við fram undir febrúarlok, en var þó ekki fjarðfastur að mun eftir miðjan þann mánuð. Voru í janúarmánuði frost svo mikil, að ekki hafa á þeim tíma vetrar komið önnur eins síðan 1881. Lagði alla firði að vestanverðu við Djúpið og það sjálft var lengi alísa út að Ögurhólmum. Nokkra daga mátti ganga úr Hnífsdal fyrir Arnarnes og beint af augum í Ögurnes eða Æðey. Í febrúarmánuði dró mjög úr frostunum og marsmánuður var mildur og frostalítill. Er þetta ólíkt því sem var um sama leyti 1881. Þá var febrúar drjúgum harðari heldur en janúar, og mars þessa harðastur. Algjört jarðbann hefur verið víðast hér um slóðir síðan í vetrarbyrjun, og sumstaðar frá því í miðjum október, þangað til svo sem fyrir 7—10 dögum. Ísalögin heftu alstaðar fjörubeit um langan tíma og gjöra það sumstaðar enn þá, því lagís er á fjörðunum innan til. Veturinn hefur þannig verið bændum erfiður, en þó síst betri fyrir sjómennina. Á jólaföstunni var allgóður afli nokkra daga, en síðan, lengst um, ógæftir og algert aflaleysi, eða mjög rýr afli. Stóru bátarnir fóru suður síðari hlut febrúarmánaðar. Þóttust þeir góðu bættir að losna úr ísnum hér, en gæfan var þeim fæstum góð þar syðra. Hafa þeir samt haldið mönnum öllum, sem er mest um vert. Sumir menn eru lausir við búmannsraunir og sjóvolk alt. Marga þessara hefur dýrtíðin lagst þungt á og kent hafa ýmsir vetrarkuldans, þó ekki hafi haft miklar útistöður. Eldiviðarskortur hefur gjört mörg heimili venju fremur óvistleg og óhentugt og ónógt viðurværi angrað sum. Þó má kalla, að stórvandræðalaust sé í héraðinu, er veturinn gengur úr garði, en flestir munu mjög þurfa gróðurssæls og björgulegs vors. Flestir spá því líka og allir vænta þess. Fréttir 1. júlí Hafís er skamt undan Horni; vélbátar hafa verið að veiðum úti við ísinn. Hríð var á Patreksfirði á föstudaginn, og snjóaði ofan að sjó. Lögberg, Winnipeg, 5. september Úr fréttabréfi frá Íslandi: Héðan er ekkert að frétta nema harðindi fram úr hófi, óminnileg tíð í vor og sumar, nema eina viku af apríl og allur maí ágæt tíð, enn þá var nú að eins snjór að þiðna og síga úr, en allur júní og það sem af er júlí, er ekki sumar nema að nafninu, þá eru sífeldir kuldar og hafís allstaðar, ekkert gras komið og lítur ekki út fyrir nokurn slátt. Kýr er allstaðar að þorna upp, þeim hefir verið gefið hey og matur hér á Hólminum til þessa dags, af öllum sem hafa haft nokkur ráð með það, samt geldast þær og fella hold. Svona er um allar sveitir, sem spyrst, ekki bithagi fyrir skepnur. Einstaka maður hefir fært frá og iðrast eftir. Hér var byrjaður móskurður um miðjan júní, þá var klaki 2 feta þykkur, varð því að ryðja fleirum sinnum með margra daga millibili, og enn er verið að skera mó. Er þó klaki nær fet á þykt. Morgunblaðið 22. nóvember Lagarfoss. Hann liggur nú aðgerðalaus á Akureyri, og var þar í sóttkví. Samkvæmt skeyti að norðan í gær segir að ekkert muni verða unnið að afgreiðslu skipsins fyr en næstkomandi mánudag. Það var nauðsynlegt að senda skipið norður. Enginn veit hvort fært verður skipum til Norðurlands í vetur fyrir hafís. En líklegt að matarbirgðir nyrðra hrökkvi ekki alveg til vetrarins. Það er því ekki annað að gera fyrir Eimskipafélagsstjórnina en að láta skipið bíða nyrðra. Nielsen framkvæmdastjóri tjáði oss í gær, að enginn maður í Lagarfossi hafi sýkst. Skeggi, Vestmannaeyjum 31. desember Úr grein. Árið kveður. Á voru landi hefur árið verið afar-viðburðaríkt og mörgum þungt í skauti, sannkölluð þrautatíð með köflum. Það hófst með feikna-frostum svo að elstu menn muna ekki önnur slík. Síðan tóku við ísalög fyrir öllu Norðurlandi og illviðratíð í öðrum landsfjórðungum. Aflabrögð urðu þó dágóð víða og hjer í Vestmannaeyjum hin allra bestu. Bændur sluppu furðanlega undan slíkum fimbulvetri, nutu þess að vorið var óvenjulega árborið og blítt þegar mest reið á. Grasbrestur var hræðilegur um alt land og heyfengur víða ekki helmingur þess sem er í meðalári og hvergi dágóður. Margir bændur feldu fjenaðinn drjúgum og settu þó djarft á vetur; er ekki útsjeð um það enn. Veðurblíðan, þennan tíma sem af er vetrinum, hjálpar stórkostlega. Tveir atburðir hafa gerst á haustinu, er mörgum munu verða minnisstæðir. Það er eldgosið og drepsóttin. Myndir:
- Tímarit.is
- Úr myndasafni höfundar.
- Hudson's Bay Company schooner "Nannuk" stuck in ice, 1921(?) (5352061942).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 26. 4. 2018).