Af hverju verður svona hvasst undir fjöllum t.d undir Hafnarfjalli?Það er rétt að í óveðrum verður oftast hvassast við fjöll. Segja má að ástæðan sé tvíþætt. Ef um er að ræða vind sem blæs samsíða fjallshlíð má skýra hröðunina með þrengingu á farvegi loftsins. Það á sér hliðstæðu í árfarvegi þar sem farvegurinn þrengist og straumhraði eykst. Dæmi um slíka hröðun er undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum í austanátt. Fjöllin syðst á landinu veita loftstraumnum viðnám og hluti af straumnum leitar suður fyrir fjöllin þar sem mikill vindur er fyrir og segja má að farvegurinn þrengist. Ef um er að ræða hvassan vind sem blæs niður af fjalli er hvassviðrið jafnan skýrt með tilvísun í þyngdarbylgjur. Lofthjúpurinn er lagskiptur og minnkar eðlismassinn eftir því sem ofar dregur. Sú lagskipting veldur því að truflun sem verður á loftstraumnum þegar hann lendir á fjalli leiðir til þess að loftið tekur að sveiflast upp og niður. Þær sveiflur eru nefndar þyngdarbylgjur og geta þær orðið mýmargar og náð tugi kílómetra frá fjallinu sem olli upphaflegu sveiflunni. Eðli þyngdarbylgna í lagskiptum loftstraumi er að þar sem loftið er á leið niður á við er straumurinn tiltölulega hraður, en þar sem loftið er á leið upp er vindurinn mun hægari. Hvassast er þar sem loftagnir eru nálægt lægstu stöðu, en hægastur vindur þar sem þær eru nálægt efstu stöðu. Vindur sem stendur af fjöllum er stundum mun hviðóttari en vindur á sléttlendi. Vindhviður sem standa yfir í örfáar sekúndur geta hæglega orðið 2-4 sinnum hvassari en meðalvindur þar sem blæs af fjöllum, en á sléttlendi er algengt að vindhviður séu aðeins 30-50% hvassari en meðalvindur. Þá hvessir stundum mjög snögglega þar sem vindur stendur af fjöllum. Heimildir og frekara lesefni:
- Almennt um vinda við fjöll:
- Haraldur Ólafsson og Hálfdán Ágústsson: Mesoscale Orographic Flows. Uncertainties in Numerical Weather Prediction, ritstj. Haraldur Ólafsson og Jian-Wen Bao, Elsevier, 2020.
- Um hvernig hvessir snögglega við fjöll á Íslandi:
- Florian Ruff og Haraldur Ólafsson: Quarterly Journal of the Royal Meteorological Society, 2019. https://sci-hub.se/https://doi.org/10.1002/qj.3377
- Um vindhviður við fjöll:
- Hálfdán Ágústsson og Haraldur Ólafsson: Mean Gust Factors in Complex Terrain. Meteorologische Zeitschrift, 2004. https://sci-hub.se/10.1127/0941-2948/2004/0013-0149
- Hálfdán Ágústsson og Haraldur Ólafsson: Forecasting Wind Gusts in Complex Terrain. Meteorology and Atmospheric Physics, 2009: https://sci-hub.se/10.1007/s00703-008-0347-y
- Eyjafjöll II. (Sótt 28.05.2024). Myndina tók Rob Oo og hún er birt undir leyfinu CC BY 2.0 Deed - Creative Commons