Þeir eru hins vegar líklega færri sem vita eða hafa gert sér grein fyrir því að grjót og til dæmis járn flýtur í kvikasilfri. Það er vegna þess að þessir hlutir hafa minni eðlismassa en kviksilfursvökvinn, eins og sjá má á tölunum hér á eftir. Ef hlutur er vel afmarkaður er alltaf hægt að finna eðlismassa hans með því að vega hann á vigt, mæla rúmmálið og deila síðan í massann með rúmmálinu. Hluturinn þarf ekki að að vera einsleitur til að þetta sé gerlegt, heldur geta mismunandi partar hans verið misjafnlega þungir í sér. En það er heildarniðurstaðan sem ræður og þess vegna getur skipsskrokkur úr stáli sem heild haft minni eðlismassa en vatn þó að sjálft stálið í honum sé miklu þyngra en vatn. Skrokkurinn flýtur þá á vatni vegna þess að loftið inni í honum gerir hann léttari í sér en vatnið. Þetta breytist hins vegar sem kunnugt er ef hann fyllist af vatni. Einsleitir hlutir úr tilteknu efni og við venjuleg skilyrði hafa yfirleitt ákveðinn eðlismassa sem finna má í töflum. Af vökvum má nefna sem dæmi að alkóhól hefur eðlismassann 0,8 kg/l, smjör 0,9, olífuolía 0,9, steinolía 0,8, terpentína 0,85 og kvikasilfur 13,6. Balsaviður hefur eðlismassann 0,2 kg/l, korkur 0,25, fura 0,5, eik 0,7, tekk 0,85. Ál hefur eðlismassann 2,7 kg/l, granít 2,3, járn og stál 7,0-7,8 eftir tegundum, bein 1,9, messing 8,4-8,5, demantur 3,5, gull (22 karöt) 17,5, silfur 10,3, platína 21,5, blý 11,3. Ís (frosið vatn) hefur eðlismassann 0,92 kg/l sem er talsvert minna en 1,00 sem er sem fyrr segir eðlismassi vatns. Þessi munur veldur því að ísinn flýtur á vatni. Eðlismassi sjávar er um 1,03 kg/l, það er að segja nokkru meiri en ferskvatns og það verður til þess að ferskvatn hefur tilhneigingu til að fljóta ofan á sjónum þar til það blandast. Það frumefni sem er þyngst í sér er osmín, en eðlismassi þess er 22,5 kg/l, en platína er í öðru sæti. Það er býsna sérkennileg tilfinning að halda á molum úr þessum þungu efnum sem eru jafnvel helmingi þyngri í sér en blý! Í stað hugtaksins eðlismassa var áður fyrr talað um eðlisþyngd. Notkun þess hugtaks er oft villandi nú á dögum og því hefur það horfið í skuggann. Um ástæður þess má lesa í svari Tryggva Þorgeirssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er massi hlutar ekki sama og þyngd hans? Heimild: G.W.C. Kaye og T.H. Laby, Tables of Physical and Chemical Constants. London: Longmans, 1968.
Áhugaverðir tenglar:
- Kennsla um massa, einingar og metrakerfið. (á ensku)
- Einföld kennsla um rúmmál og einingar þess. (á ensku)
- Umfjöllun um frumefnin. Hér má smella á efnin í lotukerfinu og lesa um hvert þeirra.
Mynd: HB