Bráðna jöklar hraðar ef þeir standa í vatni líkt og Breiðamerkurjökull? Myndi hann hopa hægar ef ekki hefði myndast lón fyrir framan?Jöklar á Íslandi bráðna fyrst og fremst vegna áhrifa sólgeislunar beint og óbeint. Kemur það aðallega fram við yfirborð jökulsins þar sem gætir bæði sólargeislanna beint og svo lofthitans. Gefur auga leið að þetta hefur langmest áhrif á sumrin. Einnig bráðnar ís við jökulbotninn vegna jarðhita og núningsvarma og er það um tíundi hluti heildarbráðnunar á jöklinum. Þar sem jöklar komast næst sjávarmáli, einkum nálægt suðurströndinni, nemur bráðnun á yfirborði um það bil 10 m af jökulís árlega. Þessi bráðnun minnkar smám saman með hæð og á hæstu fjöllum eins og Öræfajökli leysir nánast engan snjó. Ýmislegt annað getur haft áhrif á bráðnun jökla hér á landi svo sem hula af ösku eða aur á yfirborði jöklanna, eldgos og svo stöðuvötn eða sjór við jökuljaðarinn sem jökullinn brotnar í, svo sem Jökulsárlón. Ef vatnið er nógu djúpt til að jökullinn fari á flot brotna oft stór stykki úr honum og bráðna í vatninu, sem sagt utan jökulsins. Það er hrein viðbót í eyðingu jökulsins utan við það sem loftslagið gerir og því hörfa slíkir jöklar hraðar en væru þeir án þessara stöðuvatna. Jökulsárlón hefur sérstöðu meðal jökullóna hér á landi. Það er dýpsta stöðuvatn landsins og þar gætir sjávarfalla sem bera með sér ógrynni af hálfvolgum sjó tvisvar á sólarhring. Það herðir mjög á bráðnun jökulsins svo að enginn jökulsporður hér á landi hörfar jafnhratt og Breiðamerkurjökull við Jökulsárlón. Á meðfylgjandi myndum af Jökulsárlóni og Breiðamerkurjökli sjást vel áhrif lónsins á jökulinn. Svartar rendur ganga niður eftir jöklinum frá jökulskerjum, Esjufjallarönd (til hægri) frá Esjufjöllum og Mávabyggðarönd (til vinstri). Áberandi rendur ganga þvert á skriðstefnu jökulsins og eru það lög af eldfjallaösku sem marka aldur íssins; því nær jökuljaðrinum þeim mun eldri eru öskulögin. Glöggt má sjá að öskulögin í ísnum sem brotnar út í lónið eru miklu yngri en þau sem eru við jökulsporðinn beggja vegna lónsins og munar það öldum. Í einhverjum skilningi hefur því Jökulsárlón rænt þann hluta jökulsins, sem upp frá lóninu er, nokkurra alda birgðum af ís. Myndir:
- Oddur Sigurðsson.
- Landsat 8 gervihnattarmynd frá 2014.