Dældir fylltar vatni nefnum við stöðuvötn. Vatnastæðin eru með ýmsu móti tilkomin, svo sem við jökulrof, eldsumbrot, jarðskorpuhreyfingar, bergskrið o.s.frv.Síðan er gerð grein fyrir helstu gerðum íslenskra stöðuvatna eftir myndunarhætti vatnastæðanna. Flest vötn á Íslandi eru mynduð af jöklum og meðal dæma um jökulmynduð vötn nefnir Þorleifur Jökulsárlón (sem hann telur til gerðar jökultunguvatna) og Grænalón (jökulstíflaður dalur) sem bæði teljast til jökullóna. Um myndun slíkra vatna segir:
Skriðjökultungur ýta oft upp lausum ruðningi eða hann skolast burt með jökulvatni sem brýst fram undan jökulsporði. Á þennan hátt verða oft til vatnastæði er jökullinn hopar.Þorleifur nefnir einnig dæmi um eldsumbrotavötn, eins og Kerið i Grímsnesi og Grænavatn í Krýsuvík sem teljast til gígvatna, Hvalvatn sem er hraunstíflað vatn, Þingvallavatn sem telst til vatna myndaðra við jarðskorpuhreyfingar og svo framvegis. Einn myndunarhátturinn eru lón við sjó (sem væntanlega er það sem kallast lagoon á ensku) en um þau segir að við
flutning sands og malar með ströndum fram lokast víkur og vogar tíðum af malarrifum. Innan rifsins verður þá ýmist til sjávarlón með söltu vatni þar sem sjávarfalla gætir ... eða lón með fersku vatni.Dæmi um vötn af þessu tagi eru Hópið og Tjörnin í Reykjavík. Þannig virðast öll þessi vötn vera stöðuvötn, sem síðan greinast eftir myndunarhætti vatnsstæðisins. Heimildir og mynd:
- Guðbjartur Kristófersson: Jarðfræðiglósur.
- Þorleifur Einarsson. 1991. Myndun og mótun lands. Reykjavík, Mál og menning.
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. Sótt 18. 4. 2012.