Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær gátu konur á Íslandi gifst án samþykkis föður eða bróður?

Erla Hulda Halldórsdóttir

Stutta svarið er að svo virðist sem það hafi ekki verið fyrr en með nýjum lögum um stofnun og slit hjúskapar árið 1921 sem öll fyrri ákvæði um takmörkun á sjálfræði kvenna hvað hjónaband varðar voru endanlega úr sögunni. Aftur á móti má ætla að flest fólk hafi verið hætt að láta gamlar hugmyndir og hefðir hafa áhrif á makaval heldur látið ástina ráða.[1]

Ef litið er aftur til upphafs Íslandsbyggðar má lesa í Íslendingasögum um konur sem gefnar voru nauðugar, svo sem Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók, enda hjónaband gjarnan samningur tveggja ætta fremur en að til þess væri stofnað af ástinni einni saman. Um konur, stöðu þeirra og völd, og sem nokkurs konar skiptimynt í valdatafli karla á Sturlungaöld, hafa til dæmis sagnfræðingarnir Agnes S. Arnórsdóttir og Auður G. Magnúsdóttir skrifað.[2]

Lesa má í Íslendingasögum um konur sem gefnar voru nauðugar, svo sem Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók. Myndskreyting eftir Henry J. Ford frá 1905 sem sýnir Höskuld stoltan með Hallgerði unga.

Í Grágás, elstu lögbók Íslendinga, sem gilti fram til 1271-73 segir að faðir skuli fastna (trúlofa) dóttur. Ef hans naut ekki við var það bróðir, þá móðir og var það eini möguleiki konu til að fastna aðra konu. Væri enginn af þessum til staðar tóku við frændur í skilgreindri röð, raunar einnig hálfsystur samfeðra og sammæðra, en þær þurftu þá að eiga mann sjálfar.

Grágás býður konum upp á flóttaleið vilji þær ekki ganga í hjónaband: Að ganga í klaustur. Jafnframt kemur lögbókin í veg fyrir að hægt sé að ráðskast um of með ráðahag kvenna því hafi tveir karlmenn beðið konu og verið hafnað, gat hún sjálf, væri hún tvítug og eldri eða ekkja, tekið þeim þriðja ef jafnræði var með honum og hinum fyrri tveimur. Ekkjur nutu sérstöðu því þær höfðu nokkuð um makaval að segja giftust þær aftur. Grágás gerir þó ráð fyrir að faðir geti fastnað dóttur sem er ekkja en fastni hana einhver annar þarf hennar samþykki.[3]

Lögbókin Járnsíða var í gildi 1271–1281 og með henni varð sú breyting að báðir foreldrar, faðir og móðir, réðu giftingum dætra. Væru þau ekki til staðar réðu nánustu frændur.[4] Jónsbók tók við af Járnsíðu árið 1281 og eru lögbækurnar nánast samhljóða hvað varðar kvennagiftingar. Af Jónsbók má ráða að konur hafi gifst án samþykkis ráðamanna því sérstaklega er tekið fram að kona sem giftist án samþykkis forráðamanns yrði svipt arfi. Ekkjur máttu gifta sig þeim sem þær vildu, þó „með nokkurs frænda ráði.“[5] Í Kristnirétti Árna Þorlákssonar biskups árið 1275 er gert ráð fyrir að faðir eða frændi fastni konu en jafnframt að samþykki hennar liggi fyrir: „það er forboðað af guðs hálfu að nokkurr maður festi mey eða konu nauðga.“[6] Í Hjónabandsartíkúlum Friðriks II. árið 1587 var ítrekað að konur sem giftust eða trúlofuðust án vilja forráðamanna fyrirgerðu arfi sínum.[7]

Með Norsku lögum, sem staðfest voru af Kristjáni V. árið 1687 og lögleidd að hluta hér árið 1769, virðist vilji konu skipta máli því sá sem biður sér konu þarf samþykki hennar. Enn fremur er tekið fram að forráðamenn verði að færa „skilvíslega eður lögmæta orsök“ fyrir því séu þeir andsnúnir hjónabandi.[8]

Af Jónsbók má ráða að konur hafi gifst án samþykkis ráðamanna því sérstaklega er tekið fram að kona sem giftist án samþykkis forráðamanns yrði svipt arfi. Teikning af brúði í anda liðinnar tíðar sem birtist á forsíðu Nýs kvennablaðs í mars 1950.

Nákvæmlega hvaða lagabálkar voru í gildi þegar kemur fram um 1800 er svolítið óljóst, sitt lítið af hverju virðist vera, ef miðað er við hvað féll úr gildi við nýjar lagasetningar í upphafi 20. aldar. Rauði þráðurinn í gegn er þó réttleysi kvenna sem er enn staðfest í tilskipun um prestsverk varðandi hjúskap árið 1824. Þar kemur fram að lágmarksaldur brúðhjóna er 20 ár fyrir karlmenn en 16 ár fyrir konur. Jafnframt segir að brúðurin, sé hún ekki ekkja, þurfi samþykki foreldra eða forráðamanna. Hið sama gilti um brúðgumann væri hann ekki fullmyndugur, það er sjálfráða.[9]

Á fyrstu áratugum 19. aldar hafa áhrif nýjar hugmyndir um lýðræði og frelsi fólks, til dæmis varðandi sjálfræði (myndugleika). Það hefur óhjákvæmilega haft áhrif á sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Árið 1831 var sett tilskipun sem veitti amtmönnum heimild til að veita stúlkum eldri en 18 ára leyfi „til að vera myndugar með tilsjónarmanni.“ Karlmenn gátu sóst eftir slíku leyfi 22 ára, en voru annars fullmyndugir 25 ára.[10] Það var þó ekki fyrr en árið 1861, með lögum um myndugleika kvenna, sem ógiftar konur 25 ára og eldri fengu heimild til að ráða sér sjálfar.[11] Með lögum um lögaldursleyfi kvenna árið 1906 og um lögræði árið 1917 voru réttindi kvenna og karla jöfnuð hvað sjálfræði varðar.[12]

Árið 1921 voru sett ný lög um stofnun og slit hjúskapar. Samkvæmt þeim var öllum sem náð höfðu tilskildum aldri heimilt að giftast. Aldurstakmark var 18 ár fyrir konur en 21 fyrir karla. Væri annað hjónaefna yngra þurfti samþykki foreldris eða forráðamanns.[13] Lagagreinar sem féllu úr gildi með þessum lögum spönnuðu allt frá 16. öld til upphafs 20. aldar, meðal annars grein úr tilskipun um prestsverk frá 1824 þess efnis að konur þyrftu samþykki foreldra til að giftast.

Þegar kom fram á síðari hluta 19. aldar réðu hin ástföngnu sjálf framtíð sinni og létu hjartað ráða för fremur en hagsýni og vilja foreldra eða ættingja. Á myndinni sjást Skafti Jósepsson og Sigríður Þorsteinsdóttur nýtrúlofuð. Myndina tók Tryggvi Gunnarsson árið 1864 (Þjóðminjasafn Íslands).

Eins og fram kom í upphafi má gera því skóna að með auknu sjálfræði á 19. öld hafi fólk í vaxandi mæli sniðgengið þessi gömlu lög og hefðir, eða gert tilraunir til þess. Í heimildum má sjá dæmi þess að fólk hafi gifst í óþökk foreldra (gátu allt eins verið foreldrar karlmannsins).[14] Og svo hætt að spyrja leyfis. Jakobína Sigurgeirsdóttir trúlofaðist Einari Friðgeirssyni árið 1886 án þess að spyrja föður sinn. Hún hafði búið um árabil á Bessastöðum hjá föðursystur sinni, Jakobínu Jónsdóttur Thomsen, og hefur sennilega leitað ráða hjá henni. Sigurgeir skrifaði dóttur sinni af þessu tilefni: „Ekki skal jeg deila á þig fyrir trúlofun þína, jeg verð að sætta mig við það, sem J. systir mín gjörir sig ánægða með.“[15] Brúðguminn væntanlegi leitaði ekki samþykkis fóstra síns, sem skrifaði í bréfi: „Ekki er út á að setja þó þú ráðfærðir þig ekki fyrirfram, það er stundum ekki hægt að koma því við að ráðfæra sig fyr við ættfólkið en svona, enda er heimskulegt fyrir það að segja nei, þar sem Guð og hjarta manns segir já.“[16] Loks má nefna Kristjönu Jónsdóttur frá Gautlöndum en hún skrifaði bróður sínum árið 1893 að hún væri trúlofuð og hefði ekki leitað ráða hjá systkinum sínum — foreldrar systkinanna voru látnir.[17]

Af þessum dæmum má ef til vill ráða að þegar kom fram á síðari hluta 19. aldar réðu hin ástföngnu sjálf framtíð sinni og létu hjartað ráða för fremur en hagsýni og vilja foreldra eða ættingja. Strangt tiltekið má því segja að gömlu skilyrðin um samþykki foreldra hafi ekki verið að fullu afnumin fyrr en árið 1921. Á móti má ætla að aukið sjálfræði kvenna, einkum lög um myndugleika ógiftra kvenna frá 1861, hafi frelsað sumar konur í það minnsta undan valdi forráðamanna löngu fyrr.

Tilvísanir:
  1. ^ Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Ást og hjónaband á fyrri öldum. Um ástina og hjónabandið í erlendum sagnfræðirannsóknum og íslensku samfélagi 1780-1900“, Saga og samfélag. Þættir úr félagssögu 19. og 20. aldar. Ritstj. Guðmundur Hálfdanarson, Loftur Guttormsson og Ólöf Garðarsdóttir. Reykjavík: Sagnfræðistofnun og Sögufélag, 1997, bls. 40–52.
  2. ^ Um hjónabönd og stöðu kvenna á Sturlungaöld sjá t.d. Agnes S. Arnórsdóttir, Konur og vígamenn. Staða kynjanna á 12. og 13. öld. Reykjavík: Sagnfræðistofnun, 1995; Auður G. Magnúsdóttir, „Ástir og völd. Frillulífi á Íslandi á þjóðveldisöld.“ Ný Saga 2 (1988), bls. 4–12; Auður G. Magnúsdóttir, Frillor och fruar. Politik och samlevnad på Island 1120–1400. Gautaborg: Göteborgs Universitet, 2001.
  3. ^ Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning, 1992, bls. 109–115.
  4. ^ Járnsíða og Kristniréttur Árna Þorlákssonar. Útg. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon og Már Jónsson. Reykjavík: Sögufélag, 2005, bls. 95.
  5. ^ Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004, bls. 121-122.
  6. ^ Járnsíða, bls. 167.
  7. ^ Lovsamling for Island I-XXI. bindi, hér I. bindi. Útg. Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. (Kaupmannahöfn: Forlaget af Universitets-Boghandler ANDR. FRED. HÖST, 1853–1889), bls. 116.
  8. ^ Kongs Christians þess fimmta Norsku løg á íslensku útlögð (Hrappsey 1779), d. 384.
  9. ^ Lovsamling for Island II, bls. 539.
  10. ^ Lovsamling for Island IX, bls. 827–828.
  11. ^ Lovsamling for Island XVIII, bls. 112.
  12. ^ Stjórnartíðindi 1905 A, l. nr. 17/1905, bls. 148; Stjórnartíðindi 1917 A, l. nr. 60/1917, bls. 80–82.
  13. ^ Stjórnartíðindi 1921 A, l. nr. 39/1921, bls. 117.
  14. ^ Sjá t.d. Elínborg Lárusdóttir: Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason (Akureyri: Bókaútgáfan Norðri, 1949), bls. 57–59; Konur skrifa bréf. Sendibréf 1797-1907. Íslenzk sendibréf III. (Reykjavík, 1961), bls. 177; Guðrún Björnsdóttir, Íslenzkar kvenhetjur (Reykjavík: Bófellsútgáfan, 1948), bls. 99–123.
  15. ^ Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Handritasafn: Lbs. 3179 a, 4to. Sigurgeir Jónsson til Jakobínu Sigurgeirsdóttur 24/3 1887.
  16. ^ Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Handritasafn: Lbs. 3175 b, 4to. Gísli Ásmundsson til Einars Friðgeirssonar 21/11 1886.
  17. ^ Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Handritasafn: Lbs. 4948, 4to. Kristjana Jónsdóttir til Steingríms Jónssonar 31/5 1893.

Myndir:


Upprunalega spurningin var þessi:

Hvaða ár urðu dætur jafnar sonum til arfs? 1850? eða 1855? Gerðist samhliða að konur gætu gifst án samþykkis föður eða bróður?

Fyrri hluta spurningarinnar er svarað hér.

Höfundur

Erla Hulda Halldórsdóttir

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

21.11.2017

Spyrjandi

Glúmur Gylfason

Tilvísun

Erla Hulda Halldórsdóttir. „Hvenær gátu konur á Íslandi gifst án samþykkis föður eða bróður?“ Vísindavefurinn, 21. nóvember 2017, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74241.

Erla Hulda Halldórsdóttir. (2017, 21. nóvember). Hvenær gátu konur á Íslandi gifst án samþykkis föður eða bróður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74241

Erla Hulda Halldórsdóttir. „Hvenær gátu konur á Íslandi gifst án samþykkis föður eða bróður?“ Vísindavefurinn. 21. nóv. 2017. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74241>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær gátu konur á Íslandi gifst án samþykkis föður eða bróður?
Stutta svarið er að svo virðist sem það hafi ekki verið fyrr en með nýjum lögum um stofnun og slit hjúskapar árið 1921 sem öll fyrri ákvæði um takmörkun á sjálfræði kvenna hvað hjónaband varðar voru endanlega úr sögunni. Aftur á móti má ætla að flest fólk hafi verið hætt að láta gamlar hugmyndir og hefðir hafa áhrif á makaval heldur látið ástina ráða.[1]

Ef litið er aftur til upphafs Íslandsbyggðar má lesa í Íslendingasögum um konur sem gefnar voru nauðugar, svo sem Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók, enda hjónaband gjarnan samningur tveggja ætta fremur en að til þess væri stofnað af ástinni einni saman. Um konur, stöðu þeirra og völd, og sem nokkurs konar skiptimynt í valdatafli karla á Sturlungaöld, hafa til dæmis sagnfræðingarnir Agnes S. Arnórsdóttir og Auður G. Magnúsdóttir skrifað.[2]

Lesa má í Íslendingasögum um konur sem gefnar voru nauðugar, svo sem Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók. Myndskreyting eftir Henry J. Ford frá 1905 sem sýnir Höskuld stoltan með Hallgerði unga.

Í Grágás, elstu lögbók Íslendinga, sem gilti fram til 1271-73 segir að faðir skuli fastna (trúlofa) dóttur. Ef hans naut ekki við var það bróðir, þá móðir og var það eini möguleiki konu til að fastna aðra konu. Væri enginn af þessum til staðar tóku við frændur í skilgreindri röð, raunar einnig hálfsystur samfeðra og sammæðra, en þær þurftu þá að eiga mann sjálfar.

Grágás býður konum upp á flóttaleið vilji þær ekki ganga í hjónaband: Að ganga í klaustur. Jafnframt kemur lögbókin í veg fyrir að hægt sé að ráðskast um of með ráðahag kvenna því hafi tveir karlmenn beðið konu og verið hafnað, gat hún sjálf, væri hún tvítug og eldri eða ekkja, tekið þeim þriðja ef jafnræði var með honum og hinum fyrri tveimur. Ekkjur nutu sérstöðu því þær höfðu nokkuð um makaval að segja giftust þær aftur. Grágás gerir þó ráð fyrir að faðir geti fastnað dóttur sem er ekkja en fastni hana einhver annar þarf hennar samþykki.[3]

Lögbókin Járnsíða var í gildi 1271–1281 og með henni varð sú breyting að báðir foreldrar, faðir og móðir, réðu giftingum dætra. Væru þau ekki til staðar réðu nánustu frændur.[4] Jónsbók tók við af Járnsíðu árið 1281 og eru lögbækurnar nánast samhljóða hvað varðar kvennagiftingar. Af Jónsbók má ráða að konur hafi gifst án samþykkis ráðamanna því sérstaklega er tekið fram að kona sem giftist án samþykkis forráðamanns yrði svipt arfi. Ekkjur máttu gifta sig þeim sem þær vildu, þó „með nokkurs frænda ráði.“[5] Í Kristnirétti Árna Þorlákssonar biskups árið 1275 er gert ráð fyrir að faðir eða frændi fastni konu en jafnframt að samþykki hennar liggi fyrir: „það er forboðað af guðs hálfu að nokkurr maður festi mey eða konu nauðga.“[6] Í Hjónabandsartíkúlum Friðriks II. árið 1587 var ítrekað að konur sem giftust eða trúlofuðust án vilja forráðamanna fyrirgerðu arfi sínum.[7]

Með Norsku lögum, sem staðfest voru af Kristjáni V. árið 1687 og lögleidd að hluta hér árið 1769, virðist vilji konu skipta máli því sá sem biður sér konu þarf samþykki hennar. Enn fremur er tekið fram að forráðamenn verði að færa „skilvíslega eður lögmæta orsök“ fyrir því séu þeir andsnúnir hjónabandi.[8]

Af Jónsbók má ráða að konur hafi gifst án samþykkis ráðamanna því sérstaklega er tekið fram að kona sem giftist án samþykkis forráðamanns yrði svipt arfi. Teikning af brúði í anda liðinnar tíðar sem birtist á forsíðu Nýs kvennablaðs í mars 1950.

Nákvæmlega hvaða lagabálkar voru í gildi þegar kemur fram um 1800 er svolítið óljóst, sitt lítið af hverju virðist vera, ef miðað er við hvað féll úr gildi við nýjar lagasetningar í upphafi 20. aldar. Rauði þráðurinn í gegn er þó réttleysi kvenna sem er enn staðfest í tilskipun um prestsverk varðandi hjúskap árið 1824. Þar kemur fram að lágmarksaldur brúðhjóna er 20 ár fyrir karlmenn en 16 ár fyrir konur. Jafnframt segir að brúðurin, sé hún ekki ekkja, þurfi samþykki foreldra eða forráðamanna. Hið sama gilti um brúðgumann væri hann ekki fullmyndugur, það er sjálfráða.[9]

Á fyrstu áratugum 19. aldar hafa áhrif nýjar hugmyndir um lýðræði og frelsi fólks, til dæmis varðandi sjálfræði (myndugleika). Það hefur óhjákvæmilega haft áhrif á sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Árið 1831 var sett tilskipun sem veitti amtmönnum heimild til að veita stúlkum eldri en 18 ára leyfi „til að vera myndugar með tilsjónarmanni.“ Karlmenn gátu sóst eftir slíku leyfi 22 ára, en voru annars fullmyndugir 25 ára.[10] Það var þó ekki fyrr en árið 1861, með lögum um myndugleika kvenna, sem ógiftar konur 25 ára og eldri fengu heimild til að ráða sér sjálfar.[11] Með lögum um lögaldursleyfi kvenna árið 1906 og um lögræði árið 1917 voru réttindi kvenna og karla jöfnuð hvað sjálfræði varðar.[12]

Árið 1921 voru sett ný lög um stofnun og slit hjúskapar. Samkvæmt þeim var öllum sem náð höfðu tilskildum aldri heimilt að giftast. Aldurstakmark var 18 ár fyrir konur en 21 fyrir karla. Væri annað hjónaefna yngra þurfti samþykki foreldris eða forráðamanns.[13] Lagagreinar sem féllu úr gildi með þessum lögum spönnuðu allt frá 16. öld til upphafs 20. aldar, meðal annars grein úr tilskipun um prestsverk frá 1824 þess efnis að konur þyrftu samþykki foreldra til að giftast.

Þegar kom fram á síðari hluta 19. aldar réðu hin ástföngnu sjálf framtíð sinni og létu hjartað ráða för fremur en hagsýni og vilja foreldra eða ættingja. Á myndinni sjást Skafti Jósepsson og Sigríður Þorsteinsdóttur nýtrúlofuð. Myndina tók Tryggvi Gunnarsson árið 1864 (Þjóðminjasafn Íslands).

Eins og fram kom í upphafi má gera því skóna að með auknu sjálfræði á 19. öld hafi fólk í vaxandi mæli sniðgengið þessi gömlu lög og hefðir, eða gert tilraunir til þess. Í heimildum má sjá dæmi þess að fólk hafi gifst í óþökk foreldra (gátu allt eins verið foreldrar karlmannsins).[14] Og svo hætt að spyrja leyfis. Jakobína Sigurgeirsdóttir trúlofaðist Einari Friðgeirssyni árið 1886 án þess að spyrja föður sinn. Hún hafði búið um árabil á Bessastöðum hjá föðursystur sinni, Jakobínu Jónsdóttur Thomsen, og hefur sennilega leitað ráða hjá henni. Sigurgeir skrifaði dóttur sinni af þessu tilefni: „Ekki skal jeg deila á þig fyrir trúlofun þína, jeg verð að sætta mig við það, sem J. systir mín gjörir sig ánægða með.“[15] Brúðguminn væntanlegi leitaði ekki samþykkis fóstra síns, sem skrifaði í bréfi: „Ekki er út á að setja þó þú ráðfærðir þig ekki fyrirfram, það er stundum ekki hægt að koma því við að ráðfæra sig fyr við ættfólkið en svona, enda er heimskulegt fyrir það að segja nei, þar sem Guð og hjarta manns segir já.“[16] Loks má nefna Kristjönu Jónsdóttur frá Gautlöndum en hún skrifaði bróður sínum árið 1893 að hún væri trúlofuð og hefði ekki leitað ráða hjá systkinum sínum — foreldrar systkinanna voru látnir.[17]

Af þessum dæmum má ef til vill ráða að þegar kom fram á síðari hluta 19. aldar réðu hin ástföngnu sjálf framtíð sinni og létu hjartað ráða för fremur en hagsýni og vilja foreldra eða ættingja. Strangt tiltekið má því segja að gömlu skilyrðin um samþykki foreldra hafi ekki verið að fullu afnumin fyrr en árið 1921. Á móti má ætla að aukið sjálfræði kvenna, einkum lög um myndugleika ógiftra kvenna frá 1861, hafi frelsað sumar konur í það minnsta undan valdi forráðamanna löngu fyrr.

Tilvísanir:
  1. ^ Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Ást og hjónaband á fyrri öldum. Um ástina og hjónabandið í erlendum sagnfræðirannsóknum og íslensku samfélagi 1780-1900“, Saga og samfélag. Þættir úr félagssögu 19. og 20. aldar. Ritstj. Guðmundur Hálfdanarson, Loftur Guttormsson og Ólöf Garðarsdóttir. Reykjavík: Sagnfræðistofnun og Sögufélag, 1997, bls. 40–52.
  2. ^ Um hjónabönd og stöðu kvenna á Sturlungaöld sjá t.d. Agnes S. Arnórsdóttir, Konur og vígamenn. Staða kynjanna á 12. og 13. öld. Reykjavík: Sagnfræðistofnun, 1995; Auður G. Magnúsdóttir, „Ástir og völd. Frillulífi á Íslandi á þjóðveldisöld.“ Ný Saga 2 (1988), bls. 4–12; Auður G. Magnúsdóttir, Frillor och fruar. Politik och samlevnad på Island 1120–1400. Gautaborg: Göteborgs Universitet, 2001.
  3. ^ Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning, 1992, bls. 109–115.
  4. ^ Járnsíða og Kristniréttur Árna Þorlákssonar. Útg. Haraldur Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon og Már Jónsson. Reykjavík: Sögufélag, 2005, bls. 95.
  5. ^ Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004, bls. 121-122.
  6. ^ Járnsíða, bls. 167.
  7. ^ Lovsamling for Island I-XXI. bindi, hér I. bindi. Útg. Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. (Kaupmannahöfn: Forlaget af Universitets-Boghandler ANDR. FRED. HÖST, 1853–1889), bls. 116.
  8. ^ Kongs Christians þess fimmta Norsku løg á íslensku útlögð (Hrappsey 1779), d. 384.
  9. ^ Lovsamling for Island II, bls. 539.
  10. ^ Lovsamling for Island IX, bls. 827–828.
  11. ^ Lovsamling for Island XVIII, bls. 112.
  12. ^ Stjórnartíðindi 1905 A, l. nr. 17/1905, bls. 148; Stjórnartíðindi 1917 A, l. nr. 60/1917, bls. 80–82.
  13. ^ Stjórnartíðindi 1921 A, l. nr. 39/1921, bls. 117.
  14. ^ Sjá t.d. Elínborg Lárusdóttir: Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason (Akureyri: Bókaútgáfan Norðri, 1949), bls. 57–59; Konur skrifa bréf. Sendibréf 1797-1907. Íslenzk sendibréf III. (Reykjavík, 1961), bls. 177; Guðrún Björnsdóttir, Íslenzkar kvenhetjur (Reykjavík: Bófellsútgáfan, 1948), bls. 99–123.
  15. ^ Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Handritasafn: Lbs. 3179 a, 4to. Sigurgeir Jónsson til Jakobínu Sigurgeirsdóttur 24/3 1887.
  16. ^ Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Handritasafn: Lbs. 3175 b, 4to. Gísli Ásmundsson til Einars Friðgeirssonar 21/11 1886.
  17. ^ Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Handritasafn: Lbs. 4948, 4to. Kristjana Jónsdóttir til Steingríms Jónssonar 31/5 1893.

Myndir:


Upprunalega spurningin var þessi:

Hvaða ár urðu dætur jafnar sonum til arfs? 1850? eða 1855? Gerðist samhliða að konur gætu gifst án samþykkis föður eða bróður?

Fyrri hluta spurningarinnar er svarað hér.

...