En til Ísraelsmanna skalt þú mæla þessum orðum: Nú deyr maður og á ekki son, skuluð þér þá láta eignarland hans ganga til dóttur hans. En eigi hann enga dóttur, þá skuluð þér fá bræðrum hans eignarland hans (4. Mósebók 27, 8–10).Í Kórani er kveðið á um það að synir og dætur gangi samtímis til arfs en að þeir fái tvöfalt meira en þær:
Af því sem foreldrar og nákomnir ættmenn láta eftir sig skal tiltekinn skerfur renna til karla og tiltekinn skerfur til kvenna, hvort sem eign er smá eða mikil... Þessa krefst Allah af yður um börn yðar: Karlmaður skal erfa tvöfaldan hlut konu (Kóran: 4. súrur 7 og 11).Á Íslandi á okkar dögum er aftur á móti litið á jafnan erfðarétt sem sjálfsagðan hlut: „Maki erfir 1/3 hluta eigna, þegar börn eru á lífi, en 2/3 hluta erfa börnin að jöfnu“ (Erfðalög 1962). Lögin fylgja því hvorugu hinna fornu líkana, heldur eru þau kynlaus. Hér býr að baki þróun, saga. Þá skipan sem nú gildir má rekja aftur til ársins 1850.

Jafn erfðaréttur varð að lögum með tilskipun konungs 25. september 1850. Á myndinni sést íslensk fjölskylda í byrjun 20. aldar. Myndin var tekin af dönskum landmælingamönnum.
Sú er hin fyrsta erfð er börn skilgetin taka arf eftir föður sinn og móður skilfengna… En svo skal fé skipta eftir föður og móður að tvær dætur skulu taka jafnt við einn son og slíkan hlut skal taka sonarson af arfi sem dóttir ef hann er til. Nú er einn son og ein dóttir, þá tekur hún þriðjung en hann tvo hluti.Sama skipan var leidd í lög á öðrum Norðurlöndum og fyrirkomulagið ítrekað í lok 17. aldar, til dæmis í svonefndum Norsku lögum árið 1687. Ákvæði þeirra um erfðir voru leidd í lög hérlendis árið 1769 og breyttu engu um arf systkina. Þess eru fáein dæmi, einkum eftir 1790, að fjölskyldur komu sér saman um að synir og dætur fengju jafnan arf og má nefna þrjú börn Gísla Bjarnasonar bónda á Sporði í Víðidal í Húnavatnssýslu, sem lést haustið 1792: Brandur fimm ára, Hólmfríður þriggja ára og Bjarni ársgamall. Í flestum tilvikum átti auðugt fólk í hlut og í skiptabókum sést að framkvæmd Norsku laga á síðustu áratugum 18. aldar og á fyrri hluta 19. aldar var á einn veg: synir fengu tvöfalt á við dætur. Snemma á 19. öld hófst umræða um þetta fyrirkomulag, sem þekktist ekki í öðrum löndum í Evrópu. Niðurstaðan var sú að jafn arfur systra og bræðra var leiddur í sænsk lög árið 1845 og í Noregi árið 1854. Í Danmörku voru erfðalögin endurskoðuð árið 1845 en ekki gengið lengra en svo að foreldrar máttu ákveða að dætur tækju jafnan arf við syni. Þessi breyting var lögð fyrir Alþingi tveimur árum síðar og voru þingmenn á einu máli um að þetta væri ekki nóg. Nefnd fjögurra þingmanna lagði til „að dætur taki jafnan arf við syni“, enda væri það „meir að skapi landsmanna“. Sumarið 1849 var svo lagt fram stjórnarfrumvarp um erfðalög, þar sem fyrsta grein var í samræmi við vilja Alþingis, jafnvel þótt hún gengi lengra en gildandi lög í Danmörku. (Þar var sams konar ákvæði fyrst lögleitt árið 1878.) Hin íslensku erfðalög urðu að lögum með tilskipun konungs 25. september 1850 og tóku til arfs sem féll til frá og með 1. janúar 1852. Ekki voru alveg hreinar línur um framkvæmdina í fyrstu. Sums staðar gætti áhrifa frá nýjum lögum þegar árið 1851 og árið 1852 var ekki óalgengt að skipt væri samkvæmt nýjum lögum þótt andlátið hefði átt sér stað árið á undan. Fólk fékk greinilega að ráða þessu. Skipti eftir einstaklinga sem létust árið 1852 voru aftur á móti alfarið samkvæmt nýrri reglu, enda ekki við öðru að búast. Eftirleiðis fengu synir og dætur jafnan arf. Heimildir:
- Gunnar Karlsson, „Um kvenréttindavilja íslenskra sveitakarla á 19. öld“, Fléttur II. Kynjafræði – kortlagningar. Ritstjóri Irma Erlingsdóttir. Reykjavík: Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum 2004, bls. 127–147.
- Már Jónsson, „Døtres arvelod i perioden 1160–1860“, Arverettens handlingsrom. Strategier, relasjoner og historisk utvikling 1100–2000. Ritstjóri Einar Niemi. Rapporter til det 27. nordiske historikermøte. Tromsø 2011, bls. 70–82.
- Tómas Eiríksson, „Erfðatilskipunin 25. september 1850”, Úlfljótur 54 (2001), bls. 597–615.
- Laxness in Translation: Paradise Reclaimed. (Sótt 24.02.2014). Fleiri myndir danskra landmælingamanna er að finna hér: Landmælingar og kortagerð á Íslandi | Ljósmyndir dana 1900-1910.