Af hverju sýna ljósmyndir fólk fyrir rúmlega einni öld það alltaf svo alvörugefið? Hef heyrt að það hafi verið vegna þess að ljósop myndavéla var lengi opið og gat því mynd verið óskýr ef ekki var hægt að vera með einn svip - og þá var auðveldast að brosa ekki. Aðrir segja að fólk hafi verið svo þvingað og undirokað, að það gat einfaldlega ekki brosað - auk þess að brosandi manneskja var merki um fávita á myndinni.Þetta er mjög góð spurning sem margir hafa velt fyrir sér, ekki síst nú á tímum, þar sem ljósmyndir sýna mun fleiri svipbrigði fólks en áður. Spurningin kemur inn á tvær mjög algengar skýringar á þessu, annars vegar tæknilega skýringu og hins vegar félags- og menningarlega.

Ljósmyndavélar voru við upphaf tækninnar á fjórða og fimmta áratug 19. aldar þannig úr garði gerðar að það gat tekið nokkrar mínútur fyrir ljós að búa til myndina á efnasambandið sem var innan í vélunum. Myndin er af Arngrími Gíslasyni „málara“ og Þórunni Hjörleifsdóttur. Myndina tók Anna Schiöth, líklega um 1885.
Ekki vildi ég segja að hann [Friis] væri með nokkru móti góður listamaður. Ég sá ljósmynd sem hann tók 1861 af herrunum Shepard og Holland, ásamt fararstjórum þeirra; þar sem einn í hópnum hafði hreyft augun, þurfti að mála þau á myndina. Þetta var gert með smáræði af brúnni og hvítri málningu, alveg eins og vera ber. En það furðulega í málinu var að þegar komið var fram á mitt sumar 1862, voru allir hlutar myndarinnar horfnir nema þessi augu, sem höfðu ekki látið á sjá og störðu út úr hvítum fletinum.[1]Þessi saga sýnir hvað ljósmyndarar gerðu til að bjarga sér fyrir horn ef myndirnar sýndu hreyfingu. Tæknilegir annmarkar myndavéla breyttust mikið með tilkomu blautplötutækni Frederick Scott Archer (1813-1857) og ekki síst með Brownie-kassamyndavélinni frá Kodak árið 1900 en þá tók það skemmri tíma fyrir vélarnar að móta myndina á efnasambandið á glerplötunni eða filmunni í vélunum. Á sama tíma urðu ljósmyndavélar ódýrari og fleiri höfðu ráð á því að fjárfesta í myndavélum. Þrátt fyrir breytinguna virðist sem svo að stýring ljósmyndara á fólki sem þeir voru að mynda og hegðun fólks fyrir framan vélarnar breyttist ekki í sömu andrá og ný tækni kom til sögunnar. Fræðimenn, eins og franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu (1930-2002), hafa bent á að ljósmyndarar og almenningur hafa mótaðar hugmyndir um það hvernig eigi að bera sig að við að taka ljósmyndir og hvernig á að hegða sér fyrir framan vélina. Þær hugmyndir mótast af félagslegum tengslum og menningu hvers samfélags og liggja til grundvallar þess hvernig ljósmyndatækni er notuð.[2] Stéttarleg staða fólks (sem er dæmi um félagsleg tengsl) var til að mynda ráðandi við upphaf ljósmyndunar um miðja 19. öld, það er hverjir það voru sem tóku myndir og hverjir það voru sem létu taka af sér myndir. Hinir efnameiri höfðu ráð á því að kaupa dýran ljósmyndabúnað og þeir sem létu mynda sig voru úr efri stéttum samfélagsins.

Málverk eftir Arngrím Gíslason „málara.“ Fræðimenn hafa fjallað um tengsl ljósmyndunar og hefða í myndlist. Þeir hafa bent á að hugmyndir manna um það hvernig ætti að mynda fólk og hvernig fólk ætti að hegða sér fyrir framan vélina hafi tekið mið af aldalangri hefð teiknara og málara, þar sem fyrirmyndirnar voru yfirleitt sýndar með samanhertan munninn og þar með „alvarleg“.
- ^ Inga Lára Baldvinsdóttir. 2001. Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945. Reykjavík: JPV Útgáfa og Þjóðminjasafn Íslands. Bls. 20.
- ^ Bourdieu, Pierre. 1990. Photography: A Middle-brow Art. Cambridge: Polity Press.
- ^ Phillips, Sandra S., Haworth-Booth, Mark og Squiers, Carol. 1997. Police Pictures: The Photograph as Evidence. San Francisco: San Francisco Museum of Modern Art. Sjá einnig Sigurjón Baldur Hafsteinsson. 1996. „Ljósmyndun sakamanna.“ Samfélagstíðindi, 16: 123-137.
- ^ Marable, Darwin. 2013. „Photography and human behaviour in the nineteenth century.“ History of Photography, 9(2):141-147.
- Arngrímur Gíslason málari - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Sótt 05.07.2017).
- Land og saga - Arngrímur Gíslason málari. (Sótt 05.07.2017).
- Alphonse Bertillon - Wikipedia. (Sótt 05.07.2017).