- dórískur stíll
- jónískur stíll
- kórintustíll
Í dóríska stílnum er enginn stallur undir súlunni. Súluhöfuðið er einfalt og súlan er riffluð. Hof Hefæstosar í Aþenu sem var byggt um 450 f.Kr. er dæmi um byggingu í dórískum stíl. Jónískar súlur eru léttbyggðari en hinar dórísku, súlurnar eru grennri og yfirleitt rifflaðar. Séreinkenni hins jóníska stíls er einskonar snigill á súluhöfðinu. Eitt hinna fyrstu grísku hofa í jónískum stíl var hof Heru á eyjunni Samos. Það var líklega byggt á árunum 570-560 f.Kr. en eyðilagðist skömmu síðar í jarðskjálfta. Annað dæmi um byggingu í jónískum stíl var Artemisarhofið í Efesos sem var eitt af sjö undrum veraldar. Rómverski húsameistarinn Vitrúvíus (1. öld f.Kr.) segir í riti sínu De architecture (Um byggingarlistina) að dóríski stíllinn dragi dám af sterkbyggðum karlmannslíkama en hinn jóníski af tignarlegri fegurð kvenlíkamans. Kórintustíllinn er sá skrautlegasti. Súluhöfuðið er bjöllulaga og skreytt með átta súlublómum. Stílinn dregur nafn sitt af borginni Kórintu. Vitrúvíus skrifar í fyrrnefndu riti sínu að húsameistarinn og myndhöggvarinn Kallímakkos hafi verið upphafsmaður kórintustílsins. Lysikratesarminnismerkið í Aþenu er dæmi um kórintustíl. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Getið þið sagt mér frá uppbyggingu grískra leikhúsa til forna? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvað er gullinsnið? eftir Jón Kr. Arason
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Wikipedia.org: Doric order. Skoðað 19.2.2008.
- Wikipedia.org: Ionic order. Skoðað 19.2.2008.
- Wikipedia.org: Corintian order. Skoðað 19.2.2008.
- About.com. Sótt 19.2.2008.