Nokkrar spurningar hafa borist um gullinsnið: Hvað er "Gullna sniðið"? (Róbert og María). Hvað er gullinsnið, til hvers er það notað, hver fann það upp og hvers vegna eru ýmis líffæri í mannslíkamanum í sömu hlutföllum og það? (Súsanna).Gullinsnið er hlutfall, nánar tiltekið hlutfallið \[\left(\frac{1}{2}+\frac{\sqrt{5}}{2}\right):1\] sem er um það bil 1,618 : 1. Gullinsnið kemur oftast fyrir sem hlutfall hliðarlengda í rétthyrningum. Rétthyrningur með þetta hlutfall hliðarlengda er líka sagður vera gullinn rétthyrningur. Það má lýsa því að rétthyrningur sé gullinn rúmfræðilega á eftirfarandi hátt: Klippum af rétthyrningnum ferning sem hefur sömu hliðarlengd og styttri hlið rétthyrningsins. Ef rétthyrningurinn, sem eftir verður, er eins í laginu og upphaflegi rétthyrningurinn, þá var upphaflegi rétthyrningurinn gullinn (og sá sem eftir er þá líka). Gullnir rétthyrningar koma stundum fyrir í listum eins og í myndlist og byggingarlist. Ástæðan er að gullnir rétthyrningar eru af ýmsum taldir vera fallegustu rétthyrningarnir - ekki of stuttir miðað við breidd og ekki of mjóir miðað við lengd.
Parþenon-hofið sem sumir segja að sé hannað eftir gullinsniði.
- Golden ratio. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.