Ég er að reyna að komast að þýðingu og útskýringu á íslenska orðinu ‘ekta’. Getið þið aðstoðað mig með uppruna, merkingu og fleira á þessu orði?Vísast er verið að spyrja um lýsingarorðið ekta í merkingunni ‘ósvikinn, upprunalegur’. Það er óbeygjanlegt, eins í öllum föllum og kynjum, og þekkist í málinu að minnsta kosti frá 18. öld. Það er þegar í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, ritara Árna Magnússonar handritasafnara, sem skrifað var á árunum 1734–1779. Handritið er varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir númerinu AM 433 fol. Jón bjó lengi í Kaupmannahöfn og hefur kynnst orðinu þar. Á 19. öld virðist orðið þegar allalgengt. Elsta heimild í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr bréfi frá 1830. Það er tökuorð úr dönsku ægte sem aftur er fengið úr miðlágþýsku echt ‘löglegur’. Af sama uppruna er þýska orðið Ehe ‘hjónaband’. Orðið er einnig til sem nafnorð og sögn. Elstu heimildir um nafnorðið ekta eru frá 16. öld en það er lítið notað nú. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 segir til dæmis:
Þeir toku Heidnar Kuinnur til Eckta.Merkingin er „þeir gengu í hjónaband með heiðnum konum“. Það er eingöngu notað í sambandinu „til ekta“ eins og í dönsku „til ægte“. Elstu dæmi um sögnina að ekta eru frá fyrsta þriðjungi 17. aldar. Merkingin er ‘giftast’ og er hún einnig fengin úr dönsku, ægte sem einnig hefur það úr miðlágþýsku echten ‘giftast’. Heimildir:
- Ordbog over det danske sprog. (Skoðað 12.06.2017).
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. (Skoðað 12.06.2017).
- Corner with Antiques | This is an experiment to develop a te… | Flickr. Myndrétthafi er PhotoAtelier. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 12.06.2017).