Fleiri nöfn ýmissa staða eða landa sem nærri okkur eru landfræðilega hafa haldist allt frá fornu fari, til dæmis Árósar (Århus), Björgvin (Bergen), Óðinsvé (Odense), Svíþjóð (Sverige) svo að dæmi séu nefnd. Á alþjóðlega vísu er talað um exonym (útnöfn) annars vegar og endonym (innnöfn) hins vegar. Nöfnin Lundúnir og Kaupmannahöfn eru exonym af því að borgirnar heita á máli innfæddra London og København sem eru þá endonym. Sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um örnefni mælir með notkun innnafna af virðingu við hverja þjóð, og þess vegna er fremur notað kínverska heitið Beijing en Peking, svo að dæmi sé nefnt. Við tökum því ekki vel ef Reykjavík er nefnd Smoky Cove enda er hvergi hefð fyrir því en okkur leyfist að tala um Lundúnir og Kaupmannahöfn af því að aldagömul hefð er fyrir því. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvar er hægt að finna lista yfir íslenskar þýðingar á heitum erlendra borga? eftir Guðrúnu Kvaran
- Af hverju tölum við um Peking en ekki Beijing? eftir Gunnar Þór Magnússon
- Adrian Room. Dictionary of Proper Names. London 1997.
- Mynd: London School of Economics. Sótt 10. 2. 2009.
Upprunalega hljóðaði spurningin svona: Af hverju er í íslensku máli erlend borgarnöfn þýdd eða breytt ? Hefði það ekki mikill áhrif á ferðamenn ef menn spyrja til vegar og spyrja þá um Lundúnir? Hvernig mundu Íslendingar taka því ef Reykjavík væri Smoky Cove, Hafnafjörður væri Harbor bay o.s.frv.? Hver er ástæðan fyrir þessum þýðingum erlendum borgarnöfnum?