Frá og með 17. öld varð hljóðbreyting í Kína sem fólst í mýkingu vissra samhljóða. P-hljóðið nálgaðist b og k-hljóðið varð líkara dj. Stöðlun kínverskunnar hófst undir lok síðasta keisaraveldisins, Qing, árið 1909. Þá hafði hljóðbreytingin þegar átt sér stað og stöðlunin miðaðist við þá mállýsku sem töluð var í norðausturhluta Kína, en þaðan kom Qing-hirðin, og einnig við mállýskuna í Beijing. Stöðlunin hélt áfram eftir að kommúnistar komust til valda og Alþýðulýðveldið Kína var stofnað árið 1949. Þá ákvað ríkisstjórn Kína að búa til nýtt kerfi til að tákna mandarínsk orð og stafi með latnesku stafrófi, en mandarín er sú mállýska sem er opinbert tungumál Kína. Nýja kerfið heitir pinyin og var gert að alþjóðlegum staðli til að tákna mandarínsku árið 1979. Pinyin er meðal annars notað til að kenna útlendingum kínversku og skrifa nöfn kínverskra ríkisborgara á alþjóðlegum vettvangi. Með pinyin-kerfinu er nafn höfuðborgar Kína skrifað Beijing, og það er heitið sem Kínverjar nota opinberlega í öllum samskiptum við önnur lönd. Þannig eru öll flug frá höfuðborg Kína frá Beijing, pakkar og bréf til Vesturlanda eru send frá Beijing, og Ólympíuleikarnir árið 2008 eru haldnir í Beijing. Á íslensku er aftur á móti opinberlega talað um höfuðborg Kína sem Peking, svipað og við tölum um höfuðborg Danmerkur sem Kaupmannahöfn. Þannig er sendiráð Íslands í Kína í borginni Peking, flug frá Íslandi til höfuðborgarinnar eru til Peking, og á íslensku eru Ólympíuleikarnir haldnir í Peking. Í ýmsum mállýskum Kína nálgast framburður Beijing enn umritunina Peking, það á þó ekki við um norðurhluta landsins. Að lokum er rétt að minnast á að það er vafasamt að halda því fram að annað hvort nafnið á höfuðborg Kína sé réttara en hitt. Rétt nafn höfuðborgar Kína er skrifað með mandarískum táknum, en Beijing og Peking eru tilraunir til að skrifa nafnið með gjörólíku stafrófi en upphaflega nafnið er á, og með íslenskum framburði er hvorugt nafnið sérstaklega líkt réttu nafni borgarinnar. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Getið þið sagt mér allt um Kína, helst sem fyrst? eftir Sigrúnu Harðardóttur.
- Hvað getið þið sagt mér um kínverskt samfélag? eftir Geir Sigurðsson.
- Hvað fólst í menningarbyltingunni í Kína? eftir Sverri Jakobsson.
- Hvernig er kínverska stafrófið og hvað eru margir stafir í því? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Peking og Beijing á vefsíðu Logoi.
- Beijing á Wikipedia.
- Opinber heimasíða Beijing.
- Vefsíða Íslenskrar Málstöðvar um landa- og höfuðstaðaheiti.
- Myndband sem útskýrir hvernig nafnið á höfuðborg Kína er borið fram.
- Póstkortið var fengið af Wikipedia.
Ritstjórn þakkar Geir Sigurðssyni fyrir gagnlegar athugasemdir við þetta svar.