Væri hægt að lenda geimfari á ytri reikistjörnum sólkerfisins? Er einhver fasti til þess að lenda á?Ytri reikistjörnur sólkerfisins eru fjórar talsins: Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Þær eru allar gasrisar og hafa ekkert fast yfirborð. Þess vegna er ekki hægt að lenda geimfari á þeim. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að lenda geimfari á ytri reikistjörnunum, er þar með ekki sagt að við gætum hreinlega flogið í gegnum reikistjörnurnar. Geimfar sem myndi nálgast reikistjörnurnar og hreinlega fljúga inn í þær myndi verða fyrir sífellt meiri þrýsting eftir því sem neðar drægi. Þrýstingur sem hvorki menn né geimför myndu þola. Gasið, eða lofttegundirnar, yrðu smám saman þéttari og þéttari þar til þær líkjast fremur vökva en gasi. Að lokum er talið að komið yrði niður á nokkurs konar fast efni. Ekki er vitað með vissu hvernig það efni hagar sér en miðað við þá merkingu sem við leggjum í orðin fast yfirborð er ekki um slíkt að ræða. Heimildir:
- Sævar Helgi Bragason (2015). Sólkerfið okkar. Stjörnufræðivefurinn. (Skoðað 06.03.2017).
- Could we send a crewed mission to the outer planets? (Intermediate) - Curious About Astronomy? Ask an Astronomer. (Skoðað 06.03.2017).
- Gas giant | Science Daily. (Skoðað 06.03.2017).
- Could I land on a gassy planet like Jupiter? | The Naked Scientists. (Skoðað 06.03.2017).
- If Jupiter and Saturn are gas giants, could you fly straight through them? | NASA. (Skoðað 06.03.2017).
- Outer planets - Wikipedia. (Sótt 06.03.2017).