Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvar fundust handritin? Handritin að Íslendingasögunum?
Talið er að íslensk handrit og brot úr handritum séu allt að 20.000. Þar af eru tæplega 1.400 handrit frá miðöldum, það er skrifuð um eða fyrir miðja 16. öld. Handrit og brot úr handritum frá miðöldum á norrænu eru um 860 en til eru ríflega 500 brot úr handritum á latínu, sem tengjast Íslandi á einhvern hátt. Það má því með góðu móti fullyrða að mikið af handritum hafi varðveist en á hinn bóginn er augljóst að mjög mörg handrit hafa farið forgörðum, sérstaklega messubækur kaþólsku kirkjunnar.
Fríssbók (Codex Frisianus) var sennilega lengst af varðveitt í Noregi og komst á 17. öld í eigu Danans Ottos Friis í Salling á Jótlandi; seinna komst Árni Magnússon yfir handritið og ber það nú safnmarkið AM 45 fol.
Mörg miðaldahandrit voru enn til á 17. öld en þá hófst bylgja uppskrifta, það er prestar og fleiri hófu að skrifa upp skinnbækur af miklum krafti á pappír með þeirri skrift sem þá tíðkaðist og var læsilegri en miðaldaskriftin að þeirra mati. Þessi uppskriftabylgja tengdist húmanisma og endurreisn. Sagnfræðingar og áhugamenn um sögu meðal efnaðra manna í Svíþjóð og Danmörku hófu að safna handritum og seinna hófu stjórnvöld í þessum löndum að safna íslenskum handritum af krafti. Mörg íslensk handrit rötuðu þá í einkabókasöfn, háskólabókasöfn og konungsbókhlöður en smám saman fengu konunglegu bókasöfnin flest handritin. Sem dæmi má nefna að Brynjólfur Sveinsson, sem var biskup í Skálholti á 17. öld sendi Friðriki þriðja Danakonungi bæði Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók og bera þau þess vegna safnmarkið GKS 2365 4to og GKS 1005 fol. (GKS stendur fyrir Gammel kongelig samling).
Áður hafði danski læknirinn og fræðimaðurinn Ole Worm fengið Snorra-Edduhandrit hjá Arngrími Jónssyni lærða sem er kennt við hann og kallað Wormsbók. Seinna fékk Árni Magnússon handritið og hefur það nú safnmarkið AM 242 fol. Annað dæmi er svokölluð Fríssbók (Codex Frisianus), sem var sennilega lengst af varðveitt í Noregi, og komst á 17. öld í eigu Danans Ottos Friis í Salling á Jótlandi; seinna komst Árni yfir handritið og ber það nú safnmarkið AM 45 fol. Þrátt fyrir uppskriftabylgju og aukinn áhuga á fornum textum virðist áhugi á skinnbókum sem slíkum ekki hafa aukist og þær fóru margar hverjar á flakk, blöðin úr þeim tvístruðust og sumar hurfu algjörlega. Blöðin voru gjarnan notuð í bókband og utan um kver (skólabækur) en einnig í skó og hnífskeiðar og jafnvel til að fóðra biskupsmítur. Hafa verður samt í huga að bækur hafa skemmst og eyðilagst fyrir slysni og slitnað af notkun á öllum tímum, miðöldum jafnt sem öðrum öldum.
Blaðsíða úr pappírshandritinu AM 283 4to frá um 1653–55 sem hefur að geyma Hrólfs sögu kraka.
Þótt margir hafi safnað íslenskum handritum á 17. öld bar fyrrnefndur Árni Magnússon höfuð og herðar yfir aðra safnara. Naut hann þess að vera íslenskur auk þess sem hann var óþreytandi við söfnun sína. Ekki er samt vitað til þess að hann hafi fundið slitin blöð í rúmbotnum kerlinga eins og Halldór Kiljan Laxness lætur Arnas Arnæus í Íslandsklukkunni gera. Hins vegar spurðist Árni fyrir um handrit og bað kunningja sína um að spyrjast fyrir um handrit. Urðu margir til að láta hann fá blöð úr handritum og heil handrit meðal annars vegna þess að hann ferðaðist á vegum stjórnarinnar í Kaupmannahöfn um landið til að kanna landshagi og láta gera jarðabók. Árni hafði ekki — frekar en aðrir bókasafnarar — áhuga á messubókum kaþólsku kirkjunnar og safnaði þeim ekki sérstaklega.
Svarið við spurningunni verður því að mörg miðaldahandritin hafi verið til á heimilum embættismanna og annarra efnaðra Íslendinga í upphafi 17. aldar. Þau voru mörg hver skrifuð upp og dreifðust í kjölfarið og við það týndust mörg þeirra eða skemmdust, en önnur bárust inn á söfn fyrir tilstilli bókasafnara.
Íslendingar hófu að nota pappír á síðari hluta 16. aldar að einhverju marki. Á 17. öld voru mörg sagnahandrit frá miðöldum skrifuð upp á pappír. Þessar pappírsbækur voru einnig skrifaðar upp næstu áratugina og aldirnar alveg fram um aldamótin 1900. Pappírshandrit frá 17., 18. og 19. öld hafa einnig týnst (enginn veit hve mörg) en margar pappírsbækur eru varðveittar á söfnum.
Myndir:
Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Hvar fundust öll íslensku handritin?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73108.
Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2017, 19. janúar). Hvar fundust öll íslensku handritin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73108
Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Hvar fundust öll íslensku handritin?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73108>.