
Franski landfræðingurinn Alain Manesson Mallet skrifaði heimslýsingu sem kom út 1683, sama ár og Árni Magnússon fór til náms við háskólann í Kaupmannahöfn. Íslandi bregður fyrir á 14 kortum í bókinni. Hér er mynd úr heimslýsingunni, á henni sést Hekla gjósa.
Ég hef ekkert fágætt fengið frá Íslandi með aðstoðarmanni mínum sem þú ekki átt, því það merkasta voru tvö eintök af Sæmundar Eddu. Annars fékk ég Áns sögu, viljirðu afrit... Einnig fékk ég uppskrift Grágásar, en mikið vantar í hana og vildi ég biðja þig um að lána mér það eintak sem þú hefur á skinni svo ég geti leiðrétt mitt eftir því, en ég skal senda þér það óskemmt aftur.Í þessari ferð eignaðist Árni hins vegar sín fyrstu handrit, sem voru þrjú sérlega falleg eintök af lögbókinni Jónsbók frá 1281, sem hann vissi að Bartholín myndi ekki hafa áhuga á. Einnig eignaðist Árna allmörg handrit sem móðurafi hans séra Ketill Jörundsson hafði skrifað, einkum Íslendingasögur. Ketill lést árið 1670 og hafði kennt Árna að lesa. Þessi handrit sín rannsakaði Árni næstu árin og hann hélt líka starfinu hjá Bartholín, sem næst sendi hann til Noregs. Bók Bartholíns um viðhorf fornmanna til dauðans kom út vorið 1689 og var þá ekkert að vanbúnaði. Árni sigldi frá Kaupmannahöfn til Björgvinjar og þaðan til Þrándheims, þar sem vitað er að hann var 17. ágúst. Erindið var að lesa skjöl sem lágu við dómkirkjurnar í þessum borgum og til eru afrit skjala sem Árni skrifaði í ferðinni. Lengstum tíma varði hann svo hjá Þormóði sem bjó á eynni Körmt rétt hjá Stavanger, vann að ritun Noregssögu fyrir konung og hafði hjá sér talsvert af íslenskum handritum sem konungur átti, þar á meðal Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða. Ásgeir Jónsson hét skrifari Þormóðs og unnu þeir Árni sleitulaust í þrjá mánuði við afritun handrita, bæði fyrir Bartholín og fyrir Árna sjálfan. Árni var kominn aftur til Björgvinjar 21. desember og til Kaupmannahafnar rúmum mánuði síðar. Þar stoppaði hann stutt. Bartholín vann nú að kirkusögu Danmerkur og vantaði gögn í Lundi handan við Eyrarsund, sem á miðöldum tilheyrði Danmörku. Þar var Árni í mánuð og fór síðan rakleiðis til borgarinnar Rípa (Ribe) syðst á Jótlandi. Til Kaupmannahafnar kom hann aftur 10. júní 1690 og skrifaði Þormóði að hann hefði fátt fundið í ferðinni annað en kirkjuskjöl sem voru gagnslaus fyrir sögu stjórnmála og vörðuðu aðeins Danmörku. Bartholín lá fársjúkur með lungnatæringu um haustið og lést 5. nóvember, fáum dögum eftir að kona hans, Anna Tisdorph, varð léttari að dreng sem hlaut nafn föður síns. Árni tók að sér að ljúka við fyrsta bindi kirkjusögunnar, en stóð aldrei við það. Hann kom sér í mjúkinn hjá mjög valdamiklum manni, Matthíasi Moth, sem var þekktur fyrir að hvetja fræðimenn til dáða og vann sjálfur árum saman að danskri orðabók. Næstu þrjú árin bjó Árni á stúdentagarði sem framhaldsnemi í fornum fræðum og kallaði sig heldur ánægður „Arnas Magnæus Philologus“. Hann fékk framfærslustyrk og hafði áreiðanlega einhverjar tekjur af fræðilegum viðvikum fyrir háttsetta menn, svo sem Moth. Þetta nægði til þess að hann gat helgað sig rannsóknum og söfnun handrita, enda skrifaði hann vini sínum séra Birni Þorleifssyni til Íslands eins konar stefnuyfirlýsingu vorið 1694:
hef ég og mínum bróður til forna sagt hve superstitiosè [ákaft] ég pergaments bækur þrái, jafnvel þótt það ei væri nema eitt hálft blað, eða ringasta [minnsta] rifrildi, þegar það ikkun [aðeins] væri á pergament [skinni], og jafnvel þó ég 100 exemplaria [eintök] af því sama hefði, hvar fyrir ég oftlega hefi rúið kver og involucra [kápur] af þeim tekið, þá nokkuð soddan hefur á verið.Örlög hans voru ráðin. Heimildir:
- Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998.
- – Arnas Magnæus Philologus (1663-1730). Óinsvéum 2012.
- – „AM 344 fol. Handrit sem Árni Magnússon eignaðist ungur“. Góssið hans Árna. Ritstjóri Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Reykjavík 2014, bls. 125–137.
- Islande : Hecla | Íslandskort.is. (Sótt 10.11.2014).
- Árni Magnússon – Store norske leksikon. (Sótt 10.11.2014).