Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver var Brynjólfur Sveinsson og hvað gerði hann til að komast á 1.000 kr. seðil Íslendinga?
Í stuttu máli sagt var Brynjólfur Sveinsson prestssonur vestan úr Önundarfirði, fæddur árið 1605. Hann gekk í Skálholtsskóla og lauk stúdentsprófi þaðan 1623. Síðan sigldi hann til Kaupmannahafnar og tók til við háskólanám. Þá voru engin embættispróf við háskóla og óljóst hvenær Brynjólfur lauk eða hætti námi. En árið 1632 varð hann konrektor við Hróarskelduskóla. Magistersnafnbót fékk hann við Kaupmannahafnarháskóla 1633. Hann var kjörinn Skálholtsbiskup 1638 en reyndi að komast hjá því að taka við embættinu og mælti með öðrum manni í staðinn. En hann slapp ekki við það og gegndi biskupsembætti í 35 ár, 1639–74. Hann lést í Skálholti árið eftir að hann lét af embætti.
Brynjólfur Sveinsson (1605-1675).
Brynjólfur Sveinsson var einn af 45 Skálholtsbiskupum. Enginn þeirra, annar en Brynjólfur, hefur komist á peningaseðil og aðeins örfáir inn í námsbækur í Íslandssögu. Hvað veldur þessum frama hans í Íslandssögunni? Hann var strax með í þeirri Íslandssögu sem fyrst var skrifuð eftir daga hans, Ágripi af sögu Íslands eftir séra Þorkel Bjarnason sem kom út árið 1880. Þar segir um Brynjólf að hann hafi verið
hinn mesti gáfu- og lærdómsmaður og hinn röggsamasti biskup, og vildi í hvívetna halda fram réttindum prestastéttarinnar og vernda þau, og fyrir því var það, að hann fékk afnumna hina svo nefndu helmingadóma, þar sem leikmenn og prestar dæmdu í einingu, jafnmargir af hvorum í andlegum málefnum, og hafði það tíðkast síðan um siðaskiptin. Fékk hann því til vegar komið að prestar sátu einir í slíkum dómum um hans daga, eins og verið hafði í hinum katólska sið.
Líka segir frá því að konungur hafi viljað að Íslendingar tækju sjálfir þátt í að reka verslun á Íslandi og beðið Brynjólf að segja prestum sínum það. Brynjólfur hafi gert það og hvatt prestana til að sinna þessu, en ekkert hafi orðið úr því.
Varla verður sagt að þetta skýri hvers vegna Íslendingar hafa talið Brynjólf sögulega persónu. En í námsbókum í Íslandssögu sem komu út á öðrum tug 20. aldar og urðu allra íslenskra námsbóka langlífastar er hlutur hans gerður meiri en í bók séra Þorkels. Í Íslandssögu handa börnum eftir Jónas Jónsson frá Hriflu (II. hefti 1916) er tveggja blaðsíðna kafli um Brynjólf. Þar er gert mikið úr lærdómi hans og gáfum; í Kaupmannahöfn hafi hann getið sér sérstakt orð fyrir snilld í kappræðum á latínu og grísku, svo að maður nokkur hafi furðað sig á að hann væri kominn af svo fávísu og lítt siðuðu fólki sem Íslendingar væru. Sagt er frá því að hann lét byggja nýja kirkju í Skálholti. Hann endurbætti skólann og fékk til hans ágæta kennara. Kirkjustjórn fórst honum prýðilega úr hendi. Hann komst yfir glæsihandritið Flateyjarbók og gaf konungi það. Annars staðar segir Jónas frá því að Brynjólfur hafi fundið sálmaskáldið Hallgrím Pétursson þar sem hann var við járnsmíðanám í Kaupmannahöfn og komið honum í skóla. Loks er þess getið að Brynjólfur andmælti því að skrifa undir yfirlýsingu um að Íslendingar játuðust undir einveldi konungs á Kópavogsfundi árið 1662. Í Íslandssögu Jóns Jónssonar Aðils (1915), sem var ætluð framhaldsskólum, eru sex blaðsíður um Brynjólf biskup. Þar á meðal er flest sem Jónas segir frá og þar að auki það sem Brynjólfur mun vera þekktastur fyrir nú, að hann neyddi dóttur sína, Ragnheiði, til að sverja opinberlega að hún væri hrein mey. En „tæpum meðgöngutíma“ síðar fæddi hún barn. Hún dó svo „úr harmi og hugarangri“, segir Jón. Um þessa atburði skrifaði Guðmundur Kamban skáldsöguna Skálholt, og nýlega hafa Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson samið um þá óperu sem var sýnd í Reykjavík.
1.000 krónu seðillinn með mynd af Brynjólfi Sveinssyni var fyrst settur í umferð árið 1984.
Þegar ég tók mér fyrir hendur að skrifa Íslandssögu til barnakennslu fyrir rúmum þremum áratugum setti ég mér að hafa færri persónur í henni en hafði tíðkast, fjalla meira um þá sem eftir stæðu og reyna að gera þá eftirminnilegri. Einkum fækkaði ég biskupum, og meðal þeirra sem áttu ekki að fá inngöngu var Brynjólfur Sveinsson. Raunar tókst það ekki fullkomlega því að óhjákvæmilegt var að segja söguna af Kópavogsfundi 1662, þegar Íslendingar sóru konungi einveldi (bókin er jú stjórnmálasaga Íslendinga samkvæmt undirtitli), og þar hlaut Brynjólfur að koma við sögu. Annað er ekki sagt frá honum þar. Í framhaldsskólabók sem ég skrifaði litlu síðar (1990) er hann nefndur í sambandi við björgun Hallgríms Péturssonar í skóla. (Það er svolítið fyndin saga því sagt er að Brynjólfur hafi átt leið framhjá járnsmiðju í Kaupmannahöfn og fundið Hallgrím þegar hann heyrði blótað á íslensku inni í smiðjunni). Brynjólfur er líka nefndur á Kópavogsfundi 1662. Myndin á 1000-króna seðlinum og fyrirmynd hennar eru notaðar til myndskreytingar í bókinni. Stungið er upp á Brynjólfi sem ævisöguverkefni. Í yngri bók fyrir söguáfanga í framhaldsskóla (2003), þar sem ég skrifaði Íslandssöguhlutann, er Brynjólfur aðeins nefndur á Kópavogsfundi og í tengslum við tvær myndir. Ég gerði því mitt besta til að skrifa hann út úr Íslandssögunni til að rýma til fyrir öðrum sem mér fannst eiga þangað meira erindi. Ekki veit ég hvernig honum hefur reitt af í skólanámsbókum eftir að ég hætti að skipta mér af þessum málum. En í Sögu Íslands, sjötta og sjöunda bindi sem komu út á árunum 2003–04, að meira en helmingi eftir Helga Þorláksson prófessor, er Brynjólfur nefndur á um 120 blaðsíðum samkvæmt nafnaskrá eða á sjöttu hverri meginmálssíðu bókanna sem taka yfir ævi hans. Einhvern veginn reynist hann enn vera furðu-umsvifamikill í sögu þjóðarinnar.
Skýrir þetta hvers vegna Brynjólfur Sveinsson hefur orðið einn þeirra örfáu sem hafa komist á peningaseðil? Varla, en það kann að hjálpa lesendum til að mynda sér skoðun á því. Ég fyrir mitt leyti held að skýringin liggi í þeim atriðum úr sögu hans sem ég hef drepið á hér á undan.
Heimildir
Fornir tímar. Spor mannsins frá Laetoli til Reykjavíkur 4.000.000 f.Kr. til 1800 e.Kr. Gunnar Karlsson, Brynja Dís Valsdóttir, Eiríkur K. Björnsson, Ólafur Rastrick, Sesselja G. Magnúsdóttir, Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, Sigurður Pétursson. Reykjavík, Mál og menning, 2003.
Gunnar Karlsson: Kóngsins menn. Ágrip af Íslandssögu milli 1550 og 1830. Reykjavík, Mál og menning, 1990.
Gunnar Karlsson: Sjálfstæði Íslendinga II. Íslensk stjórnmálasaga konungsveldis, um 1264–1800, skrifuð handa börnum. Reykjavík, Námsgagnastofnun, 1986.
Jón Jónsson [Aðils]: Íslandssaga. Reykjavík, Bókaverzlun Sigf. Eymundssonar, 1915.
Jónas Jónsson: Íslandssaga handa börnum II. Reykjavík, Félagsprentsmiðjan, 1916.
Saga Íslands. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar 1974 VI–VII. Reykjavík, Bókmenntafélag, 2003–04.
Þorkell Bjarnason: Ágrip af sögu Íslands. Reykjavík, Ísafoldar prentsmiðja, 1880.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju er Brynjólfur Sveinsson á 1.000 kr. seðlinum?“ Vísindavefurinn, 14. september 2015, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12329.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2015, 14. september). Af hverju er Brynjólfur Sveinsson á 1.000 kr. seðlinum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12329
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Af hverju er Brynjólfur Sveinsson á 1.000 kr. seðlinum?“ Vísindavefurinn. 14. sep. 2015. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12329>.