Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sjaría er lagakerfi íslam. Þetta viðamikla kerfi er samansett úr Kóraninum, helgibók múslima og Súnna, ritsafni sem inniheldur fordæmi og túlkun Múhameðs, helsta spámanns íslam sem uppi var á 7. öld. Til viðbótar eru svo túlkunanir og útleggingar síðari tíma manna sem hefur verið safnað saman í fjóra víðamikla lagabálka eða lagaskóla (Madhab á arabísku), það er Hanbali, Maliki, Hanafi, og Shafi'i. Áhrif þessara lagaskóla eru breytileg frá einu svæði til annars. Til dæmis er Maliki ráðandi í Norður-Afríku en Shafi'i ræður ríkjum í Suðaustur-Asíu eins og í Indónesíu.
Sjaría er lagakerfi íslam. Það er að stofni til samansett úr Kóraninum og Súnna, ritsafni sem inniheldur fordæmi og túlkun Múhameðs. Myndin sýnir Múhameð fá opinberun frá englinum Gabríel.
Í almennri umræðu hérlendis og víða um heim mætti ætla að sjaría séu ákveðin og skýr boðorð kannski ekki ósvipað boðorðunum tíu. Stundum birtast fréttir um að ákvæðum sjaría sé fylgt við refsingar, til dæmis með því að höggva hendurnar af manni sem er sakaður um stuld eða grýta konu til dauða vegna framhjáhalds eða hórdóms. En í raun er staðan mun flóknari. Sjaría getur verið tilvísun í margt og þess vegna gætir mikils misskilnings. Sjaría er ekki eitt áþreifanlegt rit eða réttarkerfi, heldur margvíslegar túlkanir, úrskurðir og réttarreglur.
Sjaría er löggjöf sem er breytileg frá einu landsvæði til annars og birtist með margvíslegum hætti miðað við aðstæður hverju sinni. Sjaría er sambland af trúarlegum texta, lagalegri hefð og óteljandi túlkunum. Í mörgum ríkjum í dag þar sem múslimar eru í meirihluta er enn hægt að finna klassísk sjaría-ákvæði samhliða nútíma alþjóðlegum lögum og samþykktum. Sum staðar er það stór pólitísk spurning hvort eigi að minnka áhrif þessara sjaría-laga og innleiða enn frekar nútímalöggjöf eða halda enn fastar í hefðina. Umræðan um sjaría-löggjöfina í dag snýst þar af leiðandi um hver sé staða trúarbragða í nútímasamfélögum og hvort ákvæði lagakerfis, sem á rætur sínar að rekja til 7. aldar, eigi enn svör við vandamálum 21. aldarinnar.
Heimspekileg forsenda sjaría er sú að einstaklingurinn er ófullkomin, eigingjörn tilfinningavera, sem á það til að gleyma sér og verða þar af leiðandi fyrir freistingum. Þess vegna þarf að koma upp lagakerfi, með skýrum boðum og bönnum, svo að einstaklingurinn villist ekki af vegi. Samkvæmt sjaría, er hægt að skipta hegðun einstaklingsins í fimm flokka:
fard/wajib (skylda) eins og bænahald og tilbeiðsla;
mandub (ekki skylda en mælt með því) til dæmis framlag til góðgerðarmála;
mubah (hlutlaust – lögin taka ekki afstöðu og því leyfilegt) til dæmis að drekka te eða hvort þú stendur eða situr þegar þú horfir á fótboltaleik;
makruh (mælt gegn en ekki bannað) til dæmis hjónaskilnaður eða sóun vatns;
haram (bann) eins og morð, framhjáhald eða neysla áfengis.
Samkvæmt sjaría, er hægt að skipta hegðun einstaklingsins í fimm flokka. Undir fyrsta flokkinn, fard/wajib (skylda), falla til dæmis bænahald og tilbeiðsla.
Oftast birtast ákvæði sjaría sem skyldur einstaklingsins sem viðkomandi þarf að passa upp á sjálfur til að vernda líkama sinn og sálu. Í nútímanum hefur þjóðríkið tekið að sér það hlutverk að hafa umsjón með þegnum sínum í gegnum lagakerfið. Á nítjándu og tuttugustu öld, kom vestræn löggjöf í stað sjaría-laga sérstaklega hvað varðar stjórnskipunar- og verslunarrétt í mörgum ríkjum múslima. Ein afleiðing heimsvaldastefnunar var sú að í mörgum evrópskum nýlendum komu nýlenduherrarnir upp lagakerfi, byggðu á vestrænni lagahefð. Þegar þessi ríki fengu síðan sjálfstæði, eins og Túnis og Alsír, viðhéldu þau gamla lagakerfinu. Í mörgum ríkjum Mið-Austurlanda er því frönsk lagahefð mikilvægari og fyrirferðameiri en sjaría-hefðin. Oftast er það einungis á sviði hjúskapar og sifjaréttar þar sem sjaría ræður ríkjum. Í Egyptalandi er lagakerfi Napóleons undirstaða réttarríkisins og Tyrkland hefur tileinkað sér lagakerfi frá mismunandi Evrópuríkjum, til dæmis Sviss og Belgíu. Í nokkrum ríkjum við Persaflóann, til dæmis í Sádi-Arabíu, eru sjaría-lögin enn allsráðandi.
Á 21. öldinni hefur spurningin um stöðu og hlutverk sjaría í nútímasamfélögum oft komið upp og hvort eða hvernig eigi að innleiða sjaría. Almennt séð, til dæmis þegar rætt er um nauðsyn þess að koma á sjaría, til dæmis í Írak og Sýrlandi, þá er oftast verið að fjalla um hvort sjaría eigi að ríkja í einkamálum og fjölskyldulöggjöf en ekki endilega í stjórnskipunar eða fjármunarétti. Í þessum tilfellum snýst þetta oft um stöðu kvenna, hvort konur eigi að hafa svipuð tækifæri og réttindi og karlar þegar kemur að sifjarétti og einkamálum almennt séð. Að kalla á innleiðingu sjaría-laga er því íhaldssamt pólitískt tæki til að sporna gegn áherslum frjálslyndis og jafnréttis innan nútímalöggjafar. Þetta ákall er þó lýðskrum eða hentistefna þar sem hún byggir á mjög mikilli einföldun á veruleikanum. Í þessari orðræðu á sjaría að leysa öll nútímavandamál sem tekur ekki mið af því viðamikla regluverki, oft byggt á alþjóðlegum samningum, efnahagskerfi og samþykktum, sem einkennir nútíma þjóðríki. Hvorki er það praktískt né framkvæmanlegt að snúa við þróun síðustu 100 ára og innleiða lagakerfi sem spratt upp í pólitísku umhverfi sjöundu aldar á Arabíuskaganum. En þeir sem halda uppi þessari yfirborðskenndu orðræðu eru ekki endilega að velta sér uppúr slíkum pælingum. Þeir vilja einfaldlega sýna mátt sinn og styrk með stóryrtum yfirlýsingum um hefðina. Þeir stilla upp svart/hvítri heimsmynd, þar sem allt sem kemur erlendis frá, er hættulegt og eina ráðið við þeirri vá er að innleiða sjaría. Það að innleiða sjaría í dag yrði svo viðamikið verkefni að það er óframkvæmanlegt. Og það vissi spámaðurinn Múhameð því eftir hann liggur spádómur: „Í byrjun tímans, ef við undanskiljum einn tíunda af lögunum, þá verður okkur refsað, en ef við höfum innleitt einn tíunda af lögunum við endalok tímans verður okkur bjargað frá helvíti.“
Af þessu má skilja að lagakerfi á að vera viðmið og tilgangur en ekki endilega takmark.
Myndir:
Magnús Þorkell Bernharðsson. „Hvað er sjaría eða sjaríalög?“ Vísindavefurinn, 7. október 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72686.
Magnús Þorkell Bernharðsson. (2019, 7. október). Hvað er sjaría eða sjaríalög? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72686
Magnús Þorkell Bernharðsson. „Hvað er sjaría eða sjaríalög?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72686>.