Svo er annað mál að sumum gengur betur að tileinka sér ákveðna hluti en öðrum og sumir virðast hafa meiri hæfileika á ákveðnum sviðum. Við getum ekki öll orðið heimsmeistarar á skíðum, nóbelsverðlaunahafar í efnafræði, píanóleikarar í fremstu röð eða framúrskarandi kokkar. Í þessu spila erfðir og umhverfi örugglega saman, en vægi hvors þáttar um sig hefur verið, er og verður sjálfsagt áfram mjög umdeilt. Flestum ætti til dæmis að vera ljóst að ef menn eiga einstaklega auðvelt með að renna sér á svigskíðum en rækta þann hæfileika lítið sem ekkert, eru litlar líkur til þess að menn nái langt í heimsmeistarakeppni á skíðum. Eins er víst að sá sem hefur ekki gott jafnvægi mun líklega seint komast í fremstu röð í sömu grein, þrátt fyrir miklar æfingar. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er greind?
- Hvers vegna gengur sumum betur í námi en öðrum?
- Hvað eru bráðger börn?
- Hafa tilgátur Howards Gardners um fjölgreindir verið sannaðar?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.