Tengjast lýsingarorðin ýmislegur og ýmiss konar jötninum Ými? Eða koma þau af sama grunni?Fornafnið ýmis og lýsingarorðin ýmislegur og ýmiss konar eru ekki skyld jötunheitinu Ýmir. Ásgeir Blöndal Magnússon fjallar um jötunheitið Ýmir í Íslenskri orðsifjabók (1989:1165) og segir nafnið oft hafa verið tengt við sögnina að ymja ‘hljóma, niða, umla, stynja, emja’. Jötunheitið var í fornu máli Ymir. Hann telur þó nafnið líklega af öðrum toga og skylt fornindverska orðinu yamá- í merkingunni ‘tvíburi’. Upphafleg merking nafnsins Ymir væri þá ‘tvíkynja vera’. Ásgeir bendir á að nafnmyndin með Ý- komi fram þegar á 15. öld en ekki sé fullljóst hvernig á lengingu sérhljóðsins stendur. Fornafnið ýmis ‘víxlandi, mismunandi, sumur ...’ finnst einnig í nágrannamálum eins og í færeysku ymissur, nýnorsku ymis, imis, nýsænsku ömse, fornsænsku ymis. Ásgeir telur líklegt að fornafnið ýmiss sé komið af ímiss, þar sem þeirri orðmynd bregði fyrir, og af forsetningunni í og mis(s)- ‘víxl’ eða lýsingarorðinu *inmissa-, eiginlega ‘sem víxlan er í’. Skýringuna ý < í telur hann annaðhvort u-hljóðvarp eða kringingu sérhljóðs á undan -m-. Ýmislegur er myndað af fornafninu með viðskeytinu -legur og -konar í ýmiss konar er eiginlega eignarfall af nafnorðinu konur ‘ætt, ættingi’. Heimild:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans: Reykjavík.
- Ymir - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 13.08.2016).