Íslenska og færeyska þróuðust og tóku breytingum eftir því sem aldir liðu eins og við var að búast og er ekki hægt að segja að annað málið sé eldra en hitt. Bæði teljast þau til norðurgermanskra mála og innan þess málaflokks til vesturnorrænna mála. Færeysk málfræði er svipuð íslenskri málfræði en framburður og orðaforði er skyldari vesturnorsku en íslensku. Mun minna er til af varðveittum fornum heimildum um færeysku en íslensku og því erfiðara að sýna þróunarsöguna með dæmum. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um skyld efni eftir sama höfund, til dæmis:
- Töluðu Danir og Íslendingar einhvern tíma sama tungumálið?
- Hver er uppruni íslenska tungumálsins?
- Hvaða tungumál eru germönsk, rómönsk og slavnesk?