Til austurgermönsku telst aðeins eitt mál, gotneska, sem talað var af hinum forna þjóðflokki Gotum en er nú útdautt. Heimildir um það eru varðveittar í þýðingu Úlfílasar biskups á Biblíunni frá 4. öld e. Kr. Til vesturgermanskra mála teljast meðal annars enska, þýska, hollenska og frísneska. Elsta stig norðurgermanskra mála er kallað frumnorræna sem talað var á Norðurlöndum frá um 200 til um 800 e. Kr. Helstu heimildir um það er að finna á rúnaristum. Frumnorræna greindist síðan í tvær kvíslir sem aftur greindust í undirkvíslir:
Íslenska er þannig skyldari norsku og færeysku en sænsku og dönsku þótt öll séu málin runnin frá sama meiði. Landnámsmenn fluttu með sér tungumál sitt þegar þeir settust að á Íslandi. Flestir komu þeir frá Vestur-Noregi en einnig frá öðrum hlutum Noregs. Einhverjir komu frá Danmörku og Svíþjóð ef treysta má fornum heimildum. Þá fluttu landnámsmenn með sér fólk frá Írlandi sem þeir tóku herfangi. Þegar í elsta máli er því að finna merki um keltnesk orð í málinu þótt áhrifin hafi aldrei orðið mikil. Smám saman þróast málið á Íslandi og fjarlægist norsku sem einnig tók sínum breytingum. Þegar komið var undir 1400 voru málin orðin talsvert ólík og eru það enn í dag. Íslenska hefur í aldanna rás tekið ýmsum breytingum bæði hvað hljóðkerfið og beygingakerfið varðar og fjöldi orða hefur borist inn í málið að utan sem tökuorð. Einnig er innlend, virk orðmyndun sífellt í gangi þannig að málið er í stöðugri þróun.