Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Einfalda svarið við þessari spurningu felst í því að vísa til textans í 2. Mósebók 12:37-38. Þar segir að 600 þúsund Ísraelsmenn hafi yfirgefið Egyptaland – það er að segja karlmenn, fyrir utan konur og börn og mikinn fjölda fólks af ýmsum uppruna. Þar af leiðandi má ímynda sér á grundvelli þessa texta að hátt í tvær milljónir manna hafi farið brott af Egyptalandi daginn sem um ræðir. Þetta er ótrúlega há tala, enda er næsta víst að um miklar ýkjur er að ræða eins og algengar eru í fornum textum, til dæmis í frásögnum konunga af eigin hernaðarleiðöngrum, í þeim tilgangi að gera viðkomandi atburði enn mikilfenglegri en þeir voru.
En jafnvel þótt mannfjöldi og stærð og umgjörð atburða séu ýkt, þá þýðir það ekki endilega að umræddir atburðir hafi ekki átt sér stað. Það má segja að það sé ríkjandi viðhorf meðal gamlatestamentisfræðinga nú um stundir að jafnvel þótt næsta víst megi teljast að brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi og hernám Kanaanslands í framhaldinu (40 árum síðar) hafi ekki átt sér stað með þeim hætti sem lýst er í 2. Mósebók - Jósúabókar, þá sé ekki ólíklegt að brottförin eigi sér raunverulegar sögulegar rætur.
Á grundvelli 2. Mósebókar má ímynda sér að hátt í tvær milljónir manna hafi farið brott af Egyptalandi daginn sem um ræðir. Þetta er ótrúlega há tala, enda er næsta víst að um miklar ýkjur er að ræða eins og algengar eru í fornum textum.
Í egypskri áletrun kenndri við Merenptah faraó frá seinni hluta 13. aldar f.Kr. er minnst á þjóðflokk að nafni Ísrael sem staðsettur er í Kanaan (= Ísrael/Palestína í nútímanum). Það er þó ljóst að þar er ekki um að ræða fólk sem nam land í Kanaan í krafti hernaðarmáttar. Fornleifarannsóknir hafa ekki getað sýnt fram á að neins konar hernaðarátök af því tagi, sem lýst er í Jósúabók, hafi átt sér stað á 13. öld f.Kr. Þvert á móti bendir allt til þess að það fólk, sem bjó á því svæði, sem Ísraelsmenn eru sagðir hafa lagt undir sig í Jósúabók, hafi jafnvel verið einhverskonar utangarðsfólk úr sveitunum og borgunum, sem settust að á harðbýlum svæðum þar sem enginn bjó fyrir.
Ekki er loku fyrir það skotið að þetta fólk hafi á einhvern hátt verið tengt því fólki, sem var kallað hapiru (eða habiru) meðal Egypta og fleiri þjóða frjósama hálfmánans. Í fleygrúnatextum er nafnið oft nánar skilgreint sem „mikill fjöldi fólks“ eða „múgur“. Líklegt má telja að orðið hapiru sé að stofni til sama orð og orðið ‘ivrí, hebrei, sem kemur fyrst og fremst fyrir í frásögnum Gamla testamentisins sem fjalla um tímann fyrir landnám Kanaans. Þannig er orðið notað um Jósef í sögunni um Jósef og bræður hans (1. Mós. 37-50) en Ísrael er notað sem eiginnafn Jakobs föður hans. Í sögunni um Jósef tákna því synir/börn Ísraels afkomendur Jakobs en jafnframt er Jósef, sonur Jakobs/Ísraels, skilgreindur sem hebrei. Orðin ‘ivrí og hapiru tákna því líklega ákveðinn „etnískan“ hóp eða þjóðflokk.
Á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum er fjöldi þeirra Ísraela sem fóru með Móse frá Egyptalandi ekki yfir 35.000 manns.
Hvað sem því líður, þá virðist frásögnin af brottför Ísraels frá Egyptalandi geyma fornt minni um fjöldaflutninga fólks frá Egyptalandi á hinum miklu umbrotatímum undir lok bronsaldar sem höfðu í för með sér gríðarlegar lýðfræðilegar breytingar í löndunum í kringum austanvert Miðjarðarhaf og jafnvel á eyjunum í Miðjarðarhafi eins og til dæmis Krít. Þetta fólk, sem sest hafði að í Egyptalandi á fyrri hluta annars árþúsunds f.Kr. en yfirgaf nú landið á 13. öld f.Kr. kallaðist hebrear (hapiru) og var semitískt fólk eins og það fólk sem Merenptah faraó kallar Ísrael í áletrun sinni. Þetta fólk – allt eða hluti af því – hefur líklega sest að í Kanaan meðal þeirra hebrea, sem þegar bjuggu þar og kölluðust Ísrael.
Miðað við þá niðurstöðu fornleifarannsókna að fjöldi Ísraelsmanna, sem bjuggu á hinum harðbýlu svæðum í Kanaan hafi ekki verið meiri en 75.000 manns á umræddum tíma og ef við gerum ráð fyrir því að það fólk sem líklega fluttist frá Egyptalandi undir lok bronsaldar hafi sest að í Kanaan, þá er ljóst að tölurnar í 2. Mós. 12:37-38 eru fjarri lagi. Hér hefur sagan tekið á sig mynd goðsögunnar og tölurnar eru ýktar úr hófi til að blása upp mikilfengleik atburðanna (ekki ólíkt því sem oft má sjá í Íslendingasögunum).
Ef við göngum út frá því að aðkomufólkið frá Egyptalandi hafi verið minnihluti Ísraelsmanna þeirra, er bjuggu í fjalllendi Kanaan, þá hefur það aldrei talið fleiri en 35.000 manns og jafnvel þótt við samþykkjum þær kenningar sem gera ráð fyrir að sú Ísraelsþjóð sem bjó í Kanaan hafi öll komið frá Egyptalandi, þá gæti sá hópur aldrei hafa talið fleiri en 75.000-100.000 manns. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum getum við varla dregið nákvæmari ályktanir.
Heimildir:
Dever, W. G., Did God have a Wife? Grand Rapids 2005, bls. 13.
Dever, W. G., "How to tell a Canaanite from an Israelite," í The Rise of Ancient Israel. Washington, DC 1992.
Jericke, D., „Hebräer / Hapiru,“ í: WiBiLex mars 2012. (Skoðað 24.05.2016.)
Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Er vitað hversu margir Ísraelar fóru með Móse frá Egyptalandi?“ Vísindavefurinn, 4. júlí 2016, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72104.
Jón Ásgeir Sigurvinsson. (2016, 4. júlí). Er vitað hversu margir Ísraelar fóru með Móse frá Egyptalandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72104
Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Er vitað hversu margir Ísraelar fóru með Móse frá Egyptalandi?“ Vísindavefurinn. 4. júl. 2016. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72104>.