Grunnkenning Pýþagóringa var að „allt væri gert úr tölum“, það er að segja að heilar jákvæðar tölur væru undirstaða alheimsins, hvort sem um var að ræða himinhvolfið, hreyfingar himintungla eða tónlist.Pýþagóringar voru fyrstir til að tengja náttúruna og hinn ytri veruleika kerfisbundið við tölur. Segja má að þeir hafi staðið að fyrstu tilrauninni til að töluvæða náttúruna. Þeir sem gengu hvað lengst í þessum efnum héldu því beinlínis fram að hlutir væru tölur. Aðrir létu nægja að beita tölum til að útskýra hinn ytri veruleika. Með tengingu talna og veruleikans höfðu Pýþagóringar töluverð áhrif á mótun stærðfræðiiðkunar til forna og þar með almennt í vísindum. Pýþagóringar þekktu til hinna svonefndu fimm reglulegu margflötunga sem heimspekingurinn Platón fjallaði síðar um í samræðunni Tímajos. Þeir eru: fjórflötungur (e. tetrahedron), teningur (e. cube), áttflötungur (e. octahedron), tólfflötungur (e. dodecahedron) og tvítugflötungur (e. icosahedron). Pýþagóringar tengdu margflötungana við hinar fjóru fornu höfuðskepnur: Jörðin tengdist teningi, eldur fjórflötungi, loft áttflötungi og vatn tvítugflötungi. Alheiminn í heild sinni tengdu Pýþagóringar við tólflötung og töldu að hann væri endanlegur og kúlulaga.

Mynd frá endurreisnartímanum sem sýnir fimm reglulega margflötunga og tengsl þeirra við höfuðskepnurnar fjórar og alheiminn. Í efri röð frá vinstri: áttflötungur (loft), fjórflötungur (eldur), tólfflötungur (alheimurinn). Í neðri röð: teningur (Jörð) og tvítugflötungur (vatn). Í tölfflötungnum sjást fastastjörnur, sól og máni.
Flestir telja jörðina vera í miðju alheimsins, ... en hinir ítölsku heimspekingar sem kallaðir eru Pýþagóringar, eru á öndverðri skoðun. Í miðjunni, segja þeir, er eldur og jörðin er ein af stjörnunum. Dagur og nótt skiptast á vegna hringhreyfingar hennar um miðjuna. (Tilvitnun fengin úr Heimsmynd á hverfanda hveli.)Þessar róttæku hugmyndir um stöðu jarðarinnar í alheiminum eru eignaðar heimspekingnum Fílólaosi frá Króton (um 470 til um 385 f.Kr.) sem tilheyrði Pýþagóringum. Fílólaos setti enn fremur fram þá hugmynd að til væri andjörð sem væri næst eldinum sem hann staðsetti í miðju heimsins. Heimsmynd Fílólaos var því sú að í miðju alheimsins var eldur. Tíu hvel röðuðu sér utan um þennan miðeld. Yst var hvel fastastjarna, síðan komu fimm hvel þeirra föruhnatta sem þekktir voru til forna, þá sólin, svo tunglið, síðan jörðin og loks andjörðin næst miðeldinum.

Skýringarmynd sem sýnir heimsmynd Fílólaos. Í miðjunni er miðeldur, svo kemur andjörð, þá jörð, tungl, sól og svo þeir fimm föruhnettir sem þekktir voru í fornöld. Yst er svo fastastjörnuhvelið.
- Kragh, Helge S. Conceptions of Cosmos: From Myths to the Accelerating Universe, a History of Cosmology. Oxford: Oxford University Press, 2007.
- Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli: Sagt frá heimssýn vísindanna frá öndverðu fram yfir daga Newtons. Reykjavík: Mál og menning, 1986.
- Philolaus (Stanford Encyclopedia of Philosophy). (Sótt 24.01.2017).
- Antiquity to Now | Geometiles. (Sótt 20.01.2017).
- Skýringarmynd af heimsmynd Fílólaosar er gerð af ritstjórn Vísindavefsins.