Þegar við hugsum um þróun fíla er mikilvægt að við höfum allt þetta í huga. Þróun felur í sér að breytingar verða á stofni lífvera vegna aðlögunar yfir mjög langan tíma. Ef við hugsum um lífshætti fílsins sjáum við að eitt helsta einkenni fílsins er hversu stór og mikill hann er og þarf að borða og drekka mikið. Það er því auðvelt að hugsa sér að hjá forverum fílsins hafi það reynst kostur að hafa frekar langt trýni sem jafnvel var hægt að beita til ýmissa verka. Þau dýr sem höfðu lengra trýni voru því sennilega líklegri til að lifa af og eignast afkvæmi. Afkvæmi þeirra erfðu svo þetta einkenni og voru jafnvel með ennþá ýktari svipgerð. Þannig hefur sú þróun sennilega haldist í hendur að fílarnir stækkuðu og raninn lengdist. Nú gegnir raninn einnig mikilvægu hlutverki sem skynfæri hjá fílum. Ef við horfum aftur til líkamsbyggingar fíla er auðvelt að sjá af hverju svo langur og næmur rani er mikill kostur. Fílar eru stórir og gnæfa því hátt yfir jörðina. Það er því ótvíræður kostur að hafa skynfæri sem nær nánast alveg niður á jörðu og hægt er að beita til að skoða umhverfið. Fílar eru einnig hópdýr og gegnir raninn mikilvægu hlutverki í samskiptum þeirra á milli. Raninn er í rauninni það eina í líkamsbyggingu fíla sem gerir þeim kleyft að hafa samskipti og treysta böndin milli einstaklinga. Þessi atriði hafa sennilega verið mjög mikilvæg í þróun fíla en næmur og langur rani hefur verið mikill kostur hjá þessum dýrum. Með tímanum hefur raninn því orðið sífellt lengri og næmari, en þess má geta að í honum eru 40 þúsund vöðvar. Á mjög löngum tíma hefur rani fíla þróast í þennan fjölhæfa útlim og er ljóst að án hans væri bæði útlit og lífshættir fíla mjög frábrugðnir því sem þeir eru í dag. Mikið er til af svörum um fíla á Vísindavefnum, til dæmis þessi:
- Hvað getið þið sagt mér um indverska fílinn?
- Hvað getið þið sagt mér um afríska fílinn?
- Hvað eru fílar þungir þegar þeir fæðast?
- Hvað var stærsti fíllinn stór?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.