Í árvatni eru mörg uppleyst efni sem losnað hafa úr bergi við efnaveðrun á landi og berast til sjávar. Einnig losna efni út í sjóinn við ummyndun bergs á hafsbotni. Við uppgufun eykst styrkur efnanna í vatninu uns það mettast og steindir taka að falla úr. Að öðru jöfnu falla þá þær torleystustu fyrst út og síðan bætast hinar leysanlegri við koll af kolli, en einnig fer röðin eftir upphaflegum styrk efnanna í vatninu. Röðin er sem hér segir þegar vatnið í venjulegum sjó gufar upp: Fyrst falla út kalsít (CaCO3) og dólómít (CaMg(CO3)2), þá gifs (CaSO4.2H2O) og anhydrít (CaSO4), síðan halít (salt, NaCl) og loks kalíum- og magnesíumsölt. Þannig þarf talsvert mikla uppgufun til að salt (NaCl) taki að falla út, en styrkur þess er mestur uppleystra efna í sjó, 2,73% af 3,5% heildarseltu.
Saltnámur eru iðulega í svonefndum saltstöplum. Þegar þykk saltlög grafast undir yngra seti veldur þungi setlaganna því að hið eðlislétta og mjúka salt stígur upp gegnum setlögin í strókum (stöplum) sem jafnvel geta náð upp á yfirborðið og breiðst út sem „saltjöklar“ þar sem loftslag er þurrt. Sem dæmi má nefna að á perm-tímabilinu (fyrir um 300 milljón árum) var innhaf sem nefnt er Zechstein-haf þar sem nú er NV-Þýskaland. Loftslag var heitt og þurrt og mikil saltlög féllu út á hafsbotni. Síðan fylltist hafið smám saman af seti fram eftir miðlífsöld (trías, júra, krít) en saltstöplar risu upp í gegnum setið. Þrátt fyrir rof ísaldarjökla hafa saltstöplarnir þó ekki náð yfirborði, enda mundi regnvatn skjótlega eyða slíkum yfirborðsjarðmyndunum á þessum stað.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvers vegna er sjórinn saltur? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvaðan kemur saltið? Er það sama saltið og er í sjónum? eftir Ulriku Andersson
- Hvers vegna er salt (NaCl) svona mikill skaðvaldur í umhverfi okkar? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig leysist salt (NaCl) upp í vatni? eftir Ágúst Kvaran
- Zagros fjöll: NASA: Earth Observatory
- Kuh-e-Naman saltjökull: Martin Jackson: Bureau of Economic Geology
- Þversnið: Hannes Grobe: Salt dome á Wikipedia, the free encyclopedia. Myndin er birt undir Creative Commons leyfi.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvernig myndast saltútfellingar sjávar?