Aðrar stórar salttjarnir, eins og þær eru stundum kallaðar, finnast víða annars staðar eins og í Bandaríkjunum (Great Salt Lake) og í eyðmörk Ástralíu. Þá eru Miðjarðarhafið og Kaspíahafið einnig mjög sölt.
Dauðahafið er mjög salt! Fast og kristallað salt finnst einnig í þykkum jarðlögum undir yfirborði jarðar. Þetta salt myndaðist þegar sjórinn sem þar var fyrir löngu gufaði upp. Saltið er því á svæði sem áður var hafsbotn en með tímanum hafa jarðefni ýmiskonar hlaðist ofan á það. Salt er unnið úr sjó, úr salttjörnum og úr saltnámum með ýmsum ólíkum aðferðum. Í gamla daga var salt til dæmis unnið þannig að vatn var tekið upp úr sjónum með fötu sem skilin var eftir út í sólinni. Smá saman gufaði vatnið upp en eftir varð hvítt duft, saltið, á botni fötunnar. Þetta ferli er enn notað við saltvinnslu í löndum þar sem er heitt, lítill loftraki og mikil sól. En í stað þess að notast við margar litlar fötur er sjónum eða saltvatninu úr tjörnum veitt í grunn lón þar sem það gufar upp smátt og smátt og saltið verður eftir. Þessi aðferð er meðal annars notuð í Bandaríkjunum, Afríku og á Indlandi. Kristallað salt eða steinsalt finnst stundum nálægt yfirborði jarðar eða á um 150 til 600 metra dýpi. Saltlagið getur verið allt að 500 til 600 metra þykkt. Ef saltið er nægilega hreint er hægt að vinna það strax, það er að segja mala það, sigta og selja til kaupanda. Ef saltið er hins vegar óhreint og inniheldur til dæmis önnur steinefni verður fyrst að þvo það í saltvatni, þá í ferskvatni en síðan er það þurrkað og malað. Ef saltið liggur svo djúpt í jörðu að erfitt er að ná til þess má freista þess að ná því upp með því að bora holu og sprauta á það heitu vatni. Saltið leysist þá upp í vatninu sem síðan er dælt upp afur. Þessu saltvatni er síðan komið fyrir í lokuðum ílátum þar sem vatnið er látið sjóða og gufa upp þannig að grófir kristallar myndast. Þess má geta að einfaldari útgáfa af þessari aðferð var notuð þegar á tímum Rómaveldis. Á þeim tíma var vatnið soðið í kerjum og saltið sem eftir stóð var þvegið með fersku vatni og síðan þurkað og malað. Matarsalt er oft framleitt með þessum hætti sérstaklega í löndum þar sem ekki er nógu hlýtt og þurrt eins og til dæmis í Bretlandi. Maðurinn hefur nýtt sér salt frá öndverðu. Salt var mjög verðmæt verslunarvara áður fyrr enda var það notað bæði sem rotvarnarefni og krydd. Um 200 milljón tonn af salti eru framleidd á hverju ári í heiminum. Bandaríkin eru stærsti framleiðandinn en þar eru framleidd um 45 milljón tonn af salti á ári. Í Kína eru framleidd um 30 milljón tonn, í Þýskalandi um 16 milljón tonn, á Indlandi um 15 milljón tonn og í Kananda um 13 milljón tonn. Heimildir
The Salt Institute
Britannica Online
Myndirnar fengum við flestar af vefsetri Britannicu. Myndin af sundgörpum í Dauðahafinu fengum við úr fjölskyldualbúmi Zalta-fjölskyldunnar sem hélt í ævintýraferð til Ísraels fyrir nokkrum árum.