Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Matarsalt
Í matarsalti (NaCl) eru annars vegar jákvætt hlaðnar natrínjónir (Na+) og hins vegar neikvætt hlaðnar klórjónir (Cl-). Sterkir aðdráttarkraftar ríkja milli andstætt hlaðinna jóna og valda því meðal annars að þær raða sér á reglubundinn hátt og mynda kristall. Jákvætt hlöðnu jónirnar eru ætíð umkringdar neikvætt hlöðnum jónum í næsta nágrenni. Á sama hátt eru neikvætt hlaðnar jónir ætíð umkringdar jákvætt hlöðnum jónum. Mynd 1 sýnir hvernig jónirnar raða sér í NaCl-kristal.
Mynd 1. a) Þversnið af NaCl kristal. Grænu kúlurnar eru Cl- jónir og þær rauðu eru Na+ jónir. b) Minnsta eining af NaCl kristal. Þegar dregnar eru línur milli miðja jónanna sést að þær mynda teningslaga mynstur.
Vatn
Í vatn eru vatnssameindir (H2O) sem loða saman einkum vegna vetnistengja. Vetnistengi eru til komin vegna ójafnrar hleðsludreifingar innan sameindanna. Hún er þannig að súrefnisfrumeindirnar (O) eru neikvætt hlaðnar en vetnisfrumeindirnar (H) eru jákvætt hlaðnar. Fyrir vikið ríkir aðdráttarkraftur milli andstæðra hleðslna á aðskildum vatnssameindum sem orsakar vetnistengi. Vetnistengi eru sífellt að rofna og endurmyndast með þeim afleiðingum að vatnssameindirnar færast til í efninu og innbyrðis afstaða sameindanna breytist stöðugt. Slík hegðun er einkennandi fyrir vökva.
Salt sett út í vatn
Þegar saltkristöllum er bætt út í vatn (til dæmis þegar salti er stráð út í graut) riðlast hin reglulega lögun saltkristallanna með þeim hætti að jónirnar aðskiljast og dreifa sér "inn á milli" vatnssameindanna. Jónirnar fara því að hegða sér líkt og vatnssameindirnar og færast til í vatninu og breyta stöðugt um innbyrðis afstöðu. Þegar litið er á jónirnar einvörðungu kemur þó í ljós að afstaða þeirra er þannig að sérhver jón er að jafnaði umkringd andstætt hlöðnum jónum. Það má sjá á mynd 2 hér að neðan. Nánari athugun hefir leitt í ljós að innbyrðis afstaða jóna og næstu vatnssameinda er einnig með sérstökum hætti. Jákvætt hlaðnar jónir eru að jafnaði umkringdar vatnssameindum sem vísa neikvætt hlöðnu súrefnisfrumeindunum að þeim. Á sama hátt eru neikvætt hlaðnar jónir að jafnaði umkringdar vatnssameindum sem vísa jákvætt hlöðnum vetnisfrumeindunum að þeim.
Mynd 2. Líkan af jónum í vatnslausn. Rauðu kúlurnar eru jákvætt hlaðnar jónir (Na+) og þær grænu eru neikvætt hlaðnar jónir (Cl-. Í stað vatnssameinda er einungis sýndur fölgrænn bakgrunnur til einföldunar. Afstaða jóna í lausn er þannig að sérhver jón er að jafnaði umkringd andstætt hlöðnum jónum. Blái hringflöturinn auðkennir slíkt tilfelli.
Ágúst Kvaran. „Hvernig leysist salt (NaCl) upp í vatni?“ Vísindavefurinn, 7. apríl 2000, sótt 18. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=325.
Ágúst Kvaran. (2000, 7. apríl). Hvernig leysist salt (NaCl) upp í vatni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=325
Ágúst Kvaran. „Hvernig leysist salt (NaCl) upp í vatni?“ Vísindavefurinn. 7. apr. 2000. Vefsíða. 18. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=325>.