Elstu samræður Platons eru einmitt stundum taldar varpa ljósi á heimspeki hins sögulega Sókratesar og endurspegla aðferð hans í heimspekilegum rökræðum við aðra. Þetta eru yfirleitt stuttar samræður sem fjalla aðallega um leit að skilgreiningu á einhverju siðfræðilegu hugtaki. Sókrates spyr til dæmis „Hvað er dygð?“, „Hvað er vinátta?“, „Hvað er hugrekki?“ og svo framvegis. Viðmælandinn reynir ef til vill í fyrstu að benda á dæmi um það sem spurt er um en Sókrates fellst ekki á slíkt af því að ef ekki liggur ljóst fyrir hver skilgreiningin á hugtakinu er, þá er óljóst hvort dæmið sem bent er á er raunverulega dæmi um það sem spurt er um eða ekki. Ef spurt er hvað örlæti sé dugar því engan veginn að segja til dæmis að örlæti sé að gefa fátækum ölmusu eða eitthvað slíkt af því að ef maður veit ekki hvað örlæti er almennt, þá getur maður ekki verið viss um að það að gefa fátækum ölmusu sé raunverulega dæmi um örlæti. Og jafnvel þótt við gætum verið viss um það, þá er ekki nóg að þekkja bara eitt dæmi um örlæti. Sókrates vill fá almenna skilgreiningu sem í þessu tilviki myndi gera okkur kleift að vita í öllum tilvikum hvað sé örlæti og hvað sé ekki örlæti og hvers vegna. Þegar viðmælandi Sókratesar leggur til almenna skilgreiningu er hún rædd og prófuð svo að þeir geti áttað sig á því hvort hún dugi eða ekki en þegar viðmælandinn kemst í mótsögn við sjálfan sig er skilgreiningunni hafnað. Oft eru margar skilgreiningar reyndar í einni og sömu samræðunni en samræðurnar enda oftast án þess að skýr niðurstaða hafi fengist. Sem dæmi um samræðu í þessum hópi má nefna Evþýfrón sem fjallar um guðrækni, Lakkes sem fjallar um hugrekki og Karmídes sem fjallar um hófstillingu. Stundum taka viðmælendur Sókratesar því afar illa að vera prófaðir og verða pirraðir og reiðir. Dæmi um slíkt er að finna í Gorgíasi þar sem Kallíkles missir þolinmæðina og verður dónalegur í garð Sókratesar þegar honum fer að ganga illa í rökræðunni og í 1. bók Ríkisins þar sem Þrasýmakkos spyr hvort hann þurfi að „berja þetta inn í Sókrates“ þegar Sókrates efast um skilgreiningu hans á réttlæti. Svör um skyld efni á Vísindavefnum:
- Hvernig er vitað að hugmyndirnar sem Sókrates heldur fram í samræðum Platons tilheyri Platoni en ekki Sókratesi? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- „Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Hvaða heimspekingur sagði eitthvað á þessa leið? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? eftir Hrannar Baldursson
- Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? eftir Hauk Má Helgason
- Wikipedia.org. Sótt 31.1.2008.