Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kallíkles er persóna í samræðunni Gorgías eftir Platon. Ekki er vitað með vissu hvort Kallíkles þessi var söguleg persóna eða ekki enda engar heimildir um hann aðrar en Gorgías. Flestir fræðimenn hallast þó að því að Kallíkles hafi verið til en sé ekki einber tilbúningur Platons. Sumir hafa þó reynt að færa rök fyrir því að Kallíkles sé dulnefni einhvers sem samtímamenn Platons hefðu þekkt. Ýmsir hafa verið nefndir til sögunnar sem „hinn raunverulegi Kallíkles“ en engin sátt ríkir um einn réttan mann. Í dag virðast flestir hallast að því að Kallíkles hafi raunverulega verið til og að hann standi ekki fyrir neinn annan.
Í Gorgíasi kemur fram að Kallíkles hafi verið metnaðarfullur ungur maður af aðalsættum. Samræðan átti sennilega að eiga sér stað á 3. áratug 5. aldar f. Kr. en raunar eru í henni ýmsar tímaskekkjur, enda er hún ekki sannsöguleg. Ekki er því hægt að vita með neinni nákvæmni hvenær Kallíkles fæddist en að öllum líkindum hefur hann fæðst einhvern tímann um miðja 5. öld f.Kr. Ekki er getið hverra manna hann var en fram kemur að hann hafi átt ættir að rekja til Akörnusveitar (á norðvesturhluta Attíkuskagans) og að hann hafi verið ástfanginn af Demosi Pýrilampossyni sem var stjúpfaðir Platons.
Í Gorgíasi kemur hvergi fram að Sókrates hafi talið Kallíkles vera geðveikan, enda þótt það blasi við að í samræðunni er Sókrates á öndverðum meiði við Kallíkles. Kallíkles hefur lítið álit á fræðurum (sófistum) en hann er hins vegar aðdáandi
mælskufræðikennarans Gorgíasar frá Leontíní og þykir mikið til þess valds koma sem fæst með mælskulistinni. Hann telur engu máli skipta hvernig farið er með valdið svo lengi sem það komi manni sjálfum vel. Af þessum sökum hefur verið sagt að siðfræði Kallíklesar sé „taumlaus einstaklingshyggja“ (Eyjólfur Kjalar Emilsson, 24) en Kallíkles telur að siðferði sé eintómar mannasetningar og tilbúningur sem hafi þann tilgang einan að halda aftur af dugandi mönnum. Í vissum skilningi er hann siðleysingi en hann heldur þó fram því sem hann kallar náttúrulegt siðferði, sem virðist felast í rétti hins sterka til að gera hvaðeina sem er honum sjálfum til góðs.
Á hinn bóginn er Sókrates alls ekki eins hrifinn af mælskulistinni sem hann segir að sé ein tegund af flaðri og ekki raunveruleg list. Enn fremur þykir honum lítils virði að hljóta þau völd sem mælskulistin gæti fært manni, það er völd til að geta tekið menn af lífi, rekið þá í útlegð og gert eigur þeirra upptækar – eða að geta varist slíku. Því eins og fram kemur í samræðu hans við Pólos telur hann að siðleysi og ranglæti sé sjúkdómur sálarinnar og að það sé betra fyrir mann sjálfan að vera beittur ranglæti en að beita aðra ranglæti; en þeim, sem brýtur af sér og er ranglátur, sé betra að hljóta refsingu heldur en að hljóta hana ekki.
Svona lýsir Sókrates sjálfur ágreiningi þeirra Kallíklesar:
Þú segir að ég gæti hvorki lagt sjálfum mér eða vinum mínum og skyldmennum lið né forðað þeim þótt hin mesta hætta steðjaði að. Ég á að vera eins og útlagi: gersamlega varnarlaus gegn hverjum sem kærði sig um að „gefa mér á hann“ svo ég noti nú götustrákamálið þitt. Og sama á við ef einhver vildi svipta mig eigum mínum eða gera mig útlægan úr borginni eða jafnvel, sem er verst af öllu, fá mig dæmdan til dauða. Og að þínu áliti er staða þess manns sem svo er komið fyrir eins lítilmannleg og hugsazt getur. En mitt álit er hins vegar þetta – raunar hef ég sagt það oft áður, en tæpast mælir neitt á móti því að segja það einu sinni enn: ég neita því, Kallíkles, að það sé hin mesta lítilmennska að láta slá sig saklausan utan undir eða að líkami manns eða pyngja verði að þola einhverjar raunir. Ég held því fram að það sé meiri lítilmennska að slá og skera mig eða mína saklausa en fyrir mig að þola þetta. Sama á við um þjófnað, mannrán, innbrot eða hvaða glæpi sem er: þeir eru verri fyrir þann sem drýgir þá en hinn sem fyrir þeim verður. (Platon, Gorgías 508 C-E, þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar)
Ef til vill er það þetta sem býr að baki spurningunni: Kallíkles telur að hefðbundið siðferði sé fyrirlitlegar mannasetningar og er í vissum skilningi siðleysingi en Sókrates telur að siðleysi sé einhvers konar sjúklegt ástand sálarinnar. En þó ber að árétta að hvorki í samræðunni né annars staðar kemur fram að Sókrates hafi talið Kallíkles vera geðveikan.
Í rökræðunni við Sókrates játar Kallíkles sig sigraðan en vörn Sókratesar fyrir siðferðinu í Gorgíasi hefur eigi að síður ekki þótt mjög sannfærandi. Platon hafði þó ekki sagt sitt síðasta um þessi efni því í Ríkinu, sem er samið seinna veltir hann á ný upp spurningunni um hvers vegna við ættum að breyta rétt jafnvel þótt það komi sér betur fyrir okkur að gera það ekki. Um Ríkið má lesa í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Er Ríkið eftir Platon merkasta heimspekirit sem skrifað hefur verið?Frekara lesefni á Vísindavefnum
Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Kallíkles og hvers vegna taldi Sókrates hann geðveikan?“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5644.
Geir Þ. Þórarinsson. (2006, 15. febrúar). Hver var Kallíkles og hvers vegna taldi Sókrates hann geðveikan? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5644
Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Kallíkles og hvers vegna taldi Sókrates hann geðveikan?“ Vísindavefurinn. 15. feb. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5644>.