Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er hjartahringur?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Hjartað er fjögurra hólfa dæla. Tvö efri hólfin kallast gáttir og taka þær við blóðinu frá líkamanum, sú hægri tekur við blóði frá vefjum líkamans en sú vinstri frá lungunum. Neðri hólfin kallast sleglar eða hvolf og er þeirra hlutverk að dæla blóðinu út í líkamann, hægri slegillinn til lungna þar sem loftskipti fara fram en hinn vinstri til allra vefja líkamans. Nánar er fjallað um hjartað í svari sama höfundar við spurningunni Hvað gerir hjartað og hvað veldur hjartaáfalli? og um blóðrásina í svari hennar við spurningunni Hvernig er hringrás blóðsins?

Hér er gert ráð fyrir að hjartahringur sé þýðing á enska hugtakinu “cardiac cycle” sem hefur oftast verið þýtt sem hjartaumferð á íslensku.

Ein hjartaumferð nær yfir þau atvik sem tengjast flæði blóðs í hjartanu frá einum hjartslætti til þess næsta. Tíðni hjartaumferða kallast hjartsláttartíðni. Hver hjartsláttur eða hjartaumferð felur í sér tvo meginfasa: aðfallsfasa eða díastólu og útfallafasa eða systólu.



Í aðfallsfasa eru bæði gáttir og sleglar hjartans slök og hjartalokurnar eru opnar. Súrefnissnautt blóð flæðir eftir efri og neðri holæðum í hægri gáttina, í gegnum þríblöðkuloku í hægri slegil. Súrefnisríkt blóð kemur í vinstri gátt með lungnabláæðum og flæðir þaðan í gegnum tvíblöðkuloku í vinstri slegil.

Útfallsfasi hefst við það að gúlpshnútur sem staðsettur er ofarlega í hægri gátt og er gangráður hjartans, sendir frá sér boðspennubylgju í vegg gátta og við það dragast þær saman og tæmast þegar blóð úr þeim þrýstist niður í sleglana. Samdráttarboðið berst einnig til skiptahnúts neðar í hægri gátt sem tefur það í örlitla stund áður en það berst áfram eftir þráðaknippi niður með hjartaskiptunum meðfram sleglunum og svo upp eftir þeim eftir leiðingarþráðum. Þetta stuðlar að samdrætti sleglanna, en við hann skella hjartalokurnar aftur. Þá heyrist fyrra hjartahljóðið.

Jafnframt opnast slagæðarlokurnar sem liggja á milli hægra slegils og lungnaslagæðar annars vegar og vinstra slegils og ósæðar hins vegar. Blóðið þrýstist við þetta úr sleglum í slagæðarnar. Þegar þrýstingur í slagæðum er orðinn meiri en í sleglum skella slagæðalokur aftur og þá heyrist seinna hjartahljóðið.

Ef gert er ráð fyrir að hjartsláttartíðni sé að meðaltali 75 slög á mínútu þá varir hver hjartaumferð í um 0,8 sekúndur. Í einni hjartaumferð eru gáttir í útfallsfasa í 0,1 sekúndu og aðfallsfasa í 0,7 sekúndur. Sleglarnir eru í útfallsfasa í 0,3 sekúndur og í aðfallsfasa í 0,5 sekúndur. Þetta þýðir að hjartahólfin fjögur eru lengur í hvíld en samdrætti í hverri hjartaumferð og gáttir mun lengur en sleglar. Síðustu 0,4 sekúndur hjartaumferðar eru öll hólfin í hvíld og er þetta tímabil kallað slökunartímabilið. Þegar hjartsláttartíðnin eykst eins og við áreynslu styttist þetta tímabil.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

24.1.2008

Spyrjandi

Margrét Helga Skúladóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er hjartahringur?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2008, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7025.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2008, 24. janúar). Hvað er hjartahringur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7025

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er hjartahringur?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2008. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7025>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er hjartahringur?
Hjartað er fjögurra hólfa dæla. Tvö efri hólfin kallast gáttir og taka þær við blóðinu frá líkamanum, sú hægri tekur við blóði frá vefjum líkamans en sú vinstri frá lungunum. Neðri hólfin kallast sleglar eða hvolf og er þeirra hlutverk að dæla blóðinu út í líkamann, hægri slegillinn til lungna þar sem loftskipti fara fram en hinn vinstri til allra vefja líkamans. Nánar er fjallað um hjartað í svari sama höfundar við spurningunni Hvað gerir hjartað og hvað veldur hjartaáfalli? og um blóðrásina í svari hennar við spurningunni Hvernig er hringrás blóðsins?

Hér er gert ráð fyrir að hjartahringur sé þýðing á enska hugtakinu “cardiac cycle” sem hefur oftast verið þýtt sem hjartaumferð á íslensku.

Ein hjartaumferð nær yfir þau atvik sem tengjast flæði blóðs í hjartanu frá einum hjartslætti til þess næsta. Tíðni hjartaumferða kallast hjartsláttartíðni. Hver hjartsláttur eða hjartaumferð felur í sér tvo meginfasa: aðfallsfasa eða díastólu og útfallafasa eða systólu.



Í aðfallsfasa eru bæði gáttir og sleglar hjartans slök og hjartalokurnar eru opnar. Súrefnissnautt blóð flæðir eftir efri og neðri holæðum í hægri gáttina, í gegnum þríblöðkuloku í hægri slegil. Súrefnisríkt blóð kemur í vinstri gátt með lungnabláæðum og flæðir þaðan í gegnum tvíblöðkuloku í vinstri slegil.

Útfallsfasi hefst við það að gúlpshnútur sem staðsettur er ofarlega í hægri gátt og er gangráður hjartans, sendir frá sér boðspennubylgju í vegg gátta og við það dragast þær saman og tæmast þegar blóð úr þeim þrýstist niður í sleglana. Samdráttarboðið berst einnig til skiptahnúts neðar í hægri gátt sem tefur það í örlitla stund áður en það berst áfram eftir þráðaknippi niður með hjartaskiptunum meðfram sleglunum og svo upp eftir þeim eftir leiðingarþráðum. Þetta stuðlar að samdrætti sleglanna, en við hann skella hjartalokurnar aftur. Þá heyrist fyrra hjartahljóðið.

Jafnframt opnast slagæðarlokurnar sem liggja á milli hægra slegils og lungnaslagæðar annars vegar og vinstra slegils og ósæðar hins vegar. Blóðið þrýstist við þetta úr sleglum í slagæðarnar. Þegar þrýstingur í slagæðum er orðinn meiri en í sleglum skella slagæðalokur aftur og þá heyrist seinna hjartahljóðið.

Ef gert er ráð fyrir að hjartsláttartíðni sé að meðaltali 75 slög á mínútu þá varir hver hjartaumferð í um 0,8 sekúndur. Í einni hjartaumferð eru gáttir í útfallsfasa í 0,1 sekúndu og aðfallsfasa í 0,7 sekúndur. Sleglarnir eru í útfallsfasa í 0,3 sekúndur og í aðfallsfasa í 0,5 sekúndur. Þetta þýðir að hjartahólfin fjögur eru lengur í hvíld en samdrætti í hverri hjartaumferð og gáttir mun lengur en sleglar. Síðustu 0,4 sekúndur hjartaumferðar eru öll hólfin í hvíld og er þetta tímabil kallað slökunartímabilið. Þegar hjartsláttartíðnin eykst eins og við áreynslu styttist þetta tímabil.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

...