Munur á þykkt hjartaveggjar í mismunandi hólfum hjartans stafar af mismunandi þykkt hjartavöðva, sem rekja má til ólíkra hlutverka hólfanna. Efri hjartahólfin tvö heita gáttir og veggir þeirra eru svipaðir að þykkt enda er hlutverk þeirra hið sama; að koma blóðinu í neðri hjartahólfin. Það er aftur á móti þó nokkur munur á þykkt veggja neðri hólfanna, sem kallast hvolf eða sleglar, enda munur á því hvert blóðinu er dælt úr hægra hvolfi annars vegar og því vinstra hins vegar. Úr hægra hvolfi fer blóðið út í lungnaslagæðar sem flytja það í lungun þar sem loftskipti fara fram. Frá vinstra hvolfi berst blóðið hins vegar mun lengri leið, en þaðan fer það í ósæðina sem kvíslast í minni og minni slagæðar sem flytja blóðið til allra hluta líkamans. Það er því eðlilegt að veggur vinstra hvolfsins sé þykkari en veggur þess hægra, þar sem það þarf meiri vöðvamassa til að koma blóðinu lengri leið. Nánar er fjallað um hjartað og blóðrásina í öðrum svörum á Vísindavefnum, til dæmis:
- Hvað gerir hjartað og hvað veldur hjartaáfalli? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvernig er hringrás blóðsins? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað eru kronotropismi, inotropismi og dromotropismi í starfsemi hjartans? eftir Stefán B. Sigurðsson
- Hvernig verkar hjartalínurit? eftir Berglindi Júlíusdóttur
- Hver er eðlilegur blóðþrýstingur? eftir Magnús Jóhannsson
Frekari upplýsingar má finna með því að nota leitarvél Vísindavefsins eða með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan.