P-bylgjan sýnir afskautun í gáttum. Hugtakið QRS-mynd (e. QRS-complex) er notað um það mynstur sem Q-, R- og S-takkarnir mynda, en breidd hennar endurspeglar hversu langan tíma afskautun er að berast um sleglana (kallað QRS-tími eða QRS-bil, e. QRS-interval eða QRS- duration). T-bylgjan sýnir endurskautun. Bil og hæð bylgjanna er svo notað til greiningar. Frá 9 af þessum 10 rafskautum (það er "jörðin" undanskilin) sem sett eru á líkamann má skrá spennumunin milli þeirra á ýmsan hátt, en skilgreindar (og staðlaðar) eru 12 mismunandi leiðir sem gefa þá 12 mismunandi rit. Oft er hugtakið "leads" notað yfir þessar 12 mismunandi skráningar. Til dæmis er talað um 'Lead I' þegar skráð er milli handleggjanna, 'Lead II' þegar skráð er milli hægri handleggs og vinstri ökkla, og svo framvegis. Með hjartalínuritinu má greina margs konar vandamál. Til dæmis má lesa út úr því skert blóðflæði til hjarta, gáttatif (e. atrial fibrillation), vatn í kringum hjarta (e. pericardial effusion) og sýkingu í gollurshúsi (e. pericarditis). Einnig getur það gefið vísbendingar um yfirvofandi eða liðið hjartaáfall, jónatruflanir, truflanir í rafleiðni hjartans, stækkun á vöðvanum og nokkra aðra sjúkdóma sem ekki eru hjartasjúkdómar svo sem lungnablóðrek (e. embolism) og ofkælingu (e. hypothermia). Hjartalínurit er líka notað til að sjá hvernig hjartað bregst við auknu álagi í æfingaprófum. Rétt er að taka fram að hjartalínurit geta verið mjög breytileg á milli einstaklinga án þess að það sé nokkuð óeðlilegt. Það verður því alltaf að túlkast með hliðsjón af heildarmyndinni af sjúklingnum. Óeðlilegt EKG þarf ekki að vera vísbending um sjúkt hjarta og eðlilegt EKG er heldur ekki sönnun þess að hjartað sé heilbrigt. Í dag eru til tæki sem greina hjartalínurit fyrir lækna og oft og tíðum gera þau það betur og hraðar en þeir. Hins vegar er nauðsynlegt að línurit sé tekið undir eftirliti, til dæmis þarf að passa að rafskautin séu rétt staðsett og að ekkert í umhverfinu trufli rafbylgjurnar, svo sem farsímar, hreyfingar eða tal sjúklings. Heimildir og mynd:
- Electrocardiogram á Wikipedia, the free encyclopedia
- Hampton, John R. The ECG Made Easy. Churchill Livingstone, 2003.
- Kumar & Clark Clinical Medicine. Edinburgh: Elsevier Saunders, 2005.
- Chadwick Medical Associates Services