Áhrif etanóls á fólk eru mjög mismunandi og fara eftir aldri, kyni og líkamlegu ástandi þess, hversu mikið það hefur borðað og hvort það hefur neytt annarra lyfja eða efna. Í litlum skömmtum eru helstu áhrif etanóls slökunartilfinning, það losnar um spennu, hömlur minnka, einbeitingarleysi, viðbrögð slævast, viðbragstími eykst, og samhæfing minnkar. Meðalstór skammtur af etanóli hefur í för með sér að tal verður óskýrt, tilfinningar breytast og einstaklingurinn verður sljór. Stór skammtur af etanóli veldur uppköstum, öndunarerfiðleikum, meðvitundarleysi og dauðadái. Þrálát áfengisdrykkja getur leitt til áfengissýki og ávanamyndunar sem kemur fram í skjálfta, svefntruflunum og velgju, jafnvel sjónhverfingum og krampa ef viðkomandi fær ekki áfengi (fráhvarfseinkenni). Einnig myndast þol gagnvart áhrifum áfengis. Þrálát áfengisneysla getur líka leitt til annarra taugafræðilegra skemmda. Þar má nefna skemmda í ennisblöðum heilans, heildarminnkun heilans og stækkun heilaholanna. Enn fremur er skortur á B1-vítamíni eða þíamíni nokkuð algengur meðal áfengissjúklinga. Taugakröm og aðrir alvarlegir sjúkdómar geta komið í kjölfarið og valda þeir miklum skemmdum á heilanum. Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör um áfengi, til dæmis:
- Hvaða áhrif hefur alkóhól á heila og líkama? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað er áfengiseitrun? eftir Bjarna Össurarson Rafnar
- Hvað er alkóhólismi? eftir Erlu Björgu Sigurðardóttur
- Hvað er áfengi lengi að fara úr líkamanum? eftir Þórdísi Gísladóttur og Þráin Hafsteinsson
- Er áfengi fitandi? eftir Björn Sigurð Gunnarsson
- Hvernig er áfengisprósenta drykkja reiknuð? eftir Dag Snæ Sævarsson
- What makes you-hic-feel drunk? á DrinkAware.co.uk . Sótt 17. 01. 2008.
- Alcohol á Partnership for a Drug-Free America. Sótt 17. 01. 2008.
- Alcohol and the Brain á Neuroscience For Kids. Sótt 17. 01. 2008.
- Mynd: The Sun. Sótt 17. 01. 2008.