Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar áfengis er neytt er um 20% alkóhólsins tekið upp í gegnum magavegginn og þaðan berst það hratt um allan líkamann með blóðrásinni. Þau 80% sem eftir standa eru hins vegar tekin upp í smáþörmunum og berast þaðan með portæðinni til lifrarinnar, en þar er alkóhólinu brennt.
Aðeins lítill hluti alkóhólsins fer úr líkamanum um húð og með þvagi og þess vegna verður að fjarlægja megnið af því með brennslu í lifrinni. Lifrin getur þó ekki brennt nema um 0,1 grammi af alkóhóli á hvert kíló líkamsþyngdar á klukkustund. Þannig getur einstaklingur sem vegur 70 kíló ekki brennt nema 7 grömmum af alkóhóli á klukkustund, sem jafngildir því magni alkóhóls sem er að finna í um það bil 150 ml af bjór, 50 ml af léttu víni eða 20 ml af sterku víni. Það tæki því um 3,5 klukkustundir að brenna því alkóhólmagni sem er í hálfum lítra af bjór (500 ml).
Ef meira alkóhól er drukkið en lifrin ræður við að brenna safnast það fyrir í líkamanum. Því hærri sem styrkur alkóhóls er í því áfengi sem drukkið er og því hraðar sem drukkið er, þeim mun hraðar eykst styrkur alkóhóls í blóðinu.
Ýmis fleiri atriði hafa áhrif á hversu hratt styrkur alkóhóls hækkar í blóðrásinni við áfengisdrykkju og hve fljótt neytendur verða drukknir. Þannig verður smávaxinn og léttur einstaklingur fyrir mun meiri áhrifum af sama magni áfengis en stór og þungur einstaklingur. Matur í maganum tefur einnig fyrir upptöku alkóhóls og sá sem drekkur á fastandi maga verður því fyrr fyrir áhrifum en sá sem er mettur. Loks getur líffræðilegur munur á einstaklingum valdið mismunandi viðbrögðum þeirra við áfengisneyslu. Þeir sem eru vanir áfengisneyslu geta þannig myndað þol gegn áhrifum alkóhóls og þurfa því stærri skammt en þeir sem drekka sjaldan, til að ná sömu áhrifum.
Nánari upplýsingar um áhrif áfengis má finna í svörum við eftirfarandi spurningum á Vísindavefnum:
Þórdís Gísladóttir og Þráinn Hafsteinsson. „Hvað er áfengi lengi að fara úr líkamanum?“ Vísindavefurinn, 28. október 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5363.
Þórdís Gísladóttir og Þráinn Hafsteinsson. (2005, 28. október). Hvað er áfengi lengi að fara úr líkamanum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5363
Þórdís Gísladóttir og Þráinn Hafsteinsson. „Hvað er áfengi lengi að fara úr líkamanum?“ Vísindavefurinn. 28. okt. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5363>.