Er áfengi (etanól) sem slíkt fitandi eða er það lífsstíllinn sem fylgir mikilli neyslu sem hefur áhrif á líkamsvöxtinn?Í hverju grammi af etanóli eru 7 hitaeiningar (he), öðru nafni kílókaloríur (kkal). Við hóflega drykkju bætast þessar hitaeiningar við þær hitaeiningar sem fást úr fæðunni, en orkugefandi næringarefni eru annars einkum fita (gefur 9 he. pr. gramm), kolvetni (gefur 4 he.) og prótein (gefur 4 he.). Á þennan hátt er etanól hluti af orkuefnunum. Ef þau veita ekki meiri orku í heild en sem svarar heildarbrennslu líkamans fitnar fólk ekki, en fitusöfnun verður hins vegar ef heildarneysla orkuefna, að meðtöldu etanóli, er umfram brennslu. Einnig má nefna að hófleg áfengisneysla getur stundum haft lystaukandi áhrif og þannig stuðlað að inntöku hitaeininga umfram etanólið sjálft. Aukin inntaka hitaeininga í formi etanóls stuðlar að minnkaðri fitubrennslu sem sest þá í forðabúrið í fituvef líkamans og á þann hátt getur mikil alkóhólneysla aukið fituvef. Áfengisneyslu virðist fylgja fitusöfnun á maga eða svokölluð eplalaga fitusöfnun (bjórvömb) sem hefur verið tengd hjarta- og æðasjúkdómum. Á hinn bóginn dregur mikil áfengisneysla úr matarlyst, þannig að þá koma hitaeiningar úr etanóli í stað hitaeininga úr fæðu. Etanól er algjörlega næringarsnautt fyrir utan orkuna og áfengir drykkir innihalda yfirleitt lítið af næringarefnum, þeim mun minna sem þeir eru sterkari. Því er líklegt að miklir drykkjumenn þjáist af næringarskorti vegna lítillar inntöku næringarefna og einnig vegna áhrifa stöðugrar langvarandi etanólinntöku á efnaskipti næringarefna. Til dæmis truflar etanól efnaskipti B-vítamínsins fólasíns og veldur krónískum skorti á því sem getur leitt til meltingartruflana og niðurgangs, og getur jafnvel átt þátt í þróun hjartasjúkdóma og ristilkrabbameins.
Mynd: HB